Skólinn
Fréttir

Rithöfundar heimsækja Mýró

1.12.2017 Fréttir

Í nóvember hafa nokkrir rithöfundar heimsótt Mýró og lesið fyrir nemendur. Foreldrafélag skólans gaf skólanum veglega peningaupphæð til að kosta þessar heimsóknir. Fyrst komu Margrét Tryggvadóttir og Davíð Stefánsson og lásu fyrir yngstu krakkana. Gunnar Theodór Eggertsson og Ragnhildur Hólmgeirsdóttir komu og sögðu 4. – 6. bekkingum frá því hvernig þau fá hugmyndir og skrifa sögur, ásamt því að lesa úr verkum sínum.

Gunnar Helgason kom og las fyrir 4.-6. bekkinga upp úr nýju bókinni sinni, Amma best. Áslaug Jónsdóttir las fyrir 1.-3. bekkinga, úr mörgum af sínum vinsælu sögum og augljóst var að nemendur þekkja vel verkin hennar. Í dag kom svo Ævar vísindamaður og rithöfundur og las upp úr sínum verkum og fimmtudaginn 7.12. kemur Þorgrímur Þráinsson og les upp úr nýju bókinni sinni fyrir 5. og 6. bekkinga. Nemendur Mýrarhúsaskóla hafa nú fengið góða kynningu á jólabókunum og vonandi fá sem flestir bók í jólagjöf.

Við þökkum foreldrafélaginu kærlega fyrir þennan höfðinglega stuðning.