Nýtt skólaár hafið
Skrifstofa skólans hefur opnað á ný eftir sumarleyfi og starfsfólk farið að hefja undirbúning fyrir nýtt skólaár.
Við hlökkum til samstarfs skólaárið 2018-2019 og hefjum skólaárið sem fyrr með viðtölum umsjónarkennara við nemendur og foreldra dagana 22. og 23. ágúst.
Eftir hádegi miðvikudaginn 15. ágúst, munu umsjónarkennarar opna fyrir viðtalstíma á Mentor, þar sem foreldrar velja sér tíma til að koma í viðtölin. Umsjónarkennarar munu senda heim eyðublöð sem við vonumst til að foreldrar aðstoði börn sín við að fylla út. Ef einhverjir geta ekki prentað út heima er hægt að sækja útprentuð eyðublöð á skrifstofu skólans. Foreldrar 1. bekkinga fá bréf frá umsjónarkennaranum með upplýsingum um viðtalstímann o.fl.
Megintilgangurinn með þessum viðtölum er að auka ábyrgð nemenda á eigin námi og þjálfa þá í að leggja mat á eigin vinnubrögð og frammistöðu auk þess að setja sér markmið. Þetta fyrirkomulag gefur foreldrum og nemendum einnig tækifæri til ræða við umsjónarkennara í upphafi skólaárs um eitt og annað sem þeim liggur á hjarta.
Skólasetning fer fram föstudaginn 24. ágúst:
• Nemendur í 1. – 6. bekk mæta á sal Mýrarhússkóla kl. 8:10 föstudaginn 24. ágúst þar sem skólinn verður settur. Kennsla hefst að athöfn lokinni.
• Nemendur í 7.-10. bekk mæta á skólasetningu í Miðgarð Valhúsaskóla, föstudaginn 24. ágúst kl. 9:00. Kennsla hefst að athöfn lokinni.
Engir námsgagnalistar verða birtir í ár þar sem skólinn mun nú útvega öllum nemendum, í 1.-10. bekk stílabækur og möppur auk þess sem nemendur hafa aðgang að þeim ritföngum, sem þeir þurfa að nota, í skólanum. Nemendur í 7.-10. bekk munu ekki fá reiknivélar í skólanum enda þrufa þeir að nota reiknivélar bæði heima og í skólanum. Reiknivélin sem mælt er með að nemendur í 9. og 10. bekk eigi er Casio vísindareiknivél FX-350.