Skólinn
Fréttir

Varðliðar umhverfisins

7.5.2019 Fréttir

Nemendur í 9. og 10. bekk Valhúsaskóla tóku fyrir Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna út frá lögmálum nýsköpunar. Krakkarnir fóru í hugmyndavinnu þar sem þeir fundu nýjar lausnir á ólíkum umhverfisvandamálum og bjuggu þannig til vöru, þjónustu eða verkferli sem stuðlar að sjálfbærri þróun. Meðal nýjunga nemendanna voru fernur fyrir gosdrykki í stað plastflaskna, sólhattur sem um leið umbreytir sólarorku í raforku, leikfangaáskrift og þjónustan „Hundhverfisvænt“, sem gengur út á að hreinsa upp úrgang eftir hunda og nota til þess færri plastpoka en ella.

Nemendur héldu kynningu fyrir fjölskyldur sínar, samnemendur og starfsmenn, voru í sambandi við fyrirtæki, gerðu kannanir og stóðu fyrir undirskriftasöfnunum. Það var mat valnefndar að nemendur í Valhúsaskóla hafi á lausnamiðaðan hátt og með hugmyndaauðgi og sköpunargáfu tekist á við margar af helstu áskorunum samtímans. Þeir hafi lagt sig fram um að kynna lausnir sínar vítt og breitt um nærsamfélag sitt og þannig veitt eldri kynslóðum leiðarljós í því hvernig ná megi markmiðum um sjálfbæra þróun.

Guðmundur Ingi, umhverfis- og auðlindaráðherra, afhenti viðurkenningarnar við hátíðlega athöfn sem haldin var í Hannesarholti 30.apríl síðastliðinn.