Skólahald í ljósi hertra sóttvarna hefst á ný á morgun 3. nóvember
Leik- og grunnskólar á höfuðborgarsvæðinu taka til starfa á ný á morgun, 3. nóvember en starfsdagur var í dag vegna skipulagningar skólastarfs í ljósi hertra sóttvarnarreglna. Leik- og grunnskólar á höfuðborgarsvæðinu hafa undanfarnar vikur gripið til margvíslegra varúðarráðstafana hvað varðar sóttvarnarhólf, smitvarnir og blöndun hópa og eru því vel undirbúnir til þess að haga starfi sínu samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðherra um takmörkun á skólastarfi. Reglugerðin tekur gildi 3. nóvember og gildir til 17. nóvember.
Óverulegar breytingar í leikskólum og á yngsta stigi grunnskóla
Óverulegar breytingar verða á skólahaldi í leikskólum. Sama gildir um skólahald og frístund í 1. - 4. bekk og eru þessir hópar barna undanþegnir grímuskyldu. Fjöldatakmörkun í þessum aldurshópi miðast við 50 börn og 10 fullorðna.
Miðstig og efsta stig grunnskóla
Nemendur í 5. - 10.bekk eiga að viðhafa 2 metra nálægðartakmörk en bera andlitsgrímur ef það er ekki hægt að virða, nota á andlitsgrímur í sameiginlegum rýmum skóla. Fjöldatakmörkun í þessum hópi miðast við 25 nemendur og 10 fullorðna. Í þessum aldurshópi má búast við einhverri breytingu á skólahaldi en áhersla er lögð á að nemendur komi í skóla á hverjum degi. Leitað verður leiða til að koma til móts við skerðingu á skólasókn, meðal annars með fjarnámi og/eða fjarkennslu. Verður það byggt á reynslu sl. vors.
Starfsemi tónlistarskóla með breytilegum hætti eftir því sem aðstæður leyfa
Starfsemi tónlistarskóla verður með breytilegum hætti eftir því sem aðstæður leyfa á hverjum stað og munu skólastjórnendur upplýsa nemendur og foreldra um útfærslu fyrir sinn tónlistarskóla.
Skipulagt íþrótta- og frístundastarf óheimilt
Skipulagt íþrótta-, æskulýðs-, og tómstundastarf þar með talið hefðbundið starf félagsmiðstöðva er óheimilt og liggur því niðri í bili. Félagsmiðstöðvar eru m.a. að skipuleggja stafrænar opnanir.
Upplýsingar um frekari tilhögun sendar frá hverjum skóla
Skólastjórar munu senda upplýsingar um tilhögun skólastarfs á foreldra í sínum skóla.Skólastjórnendur á Seltjarnarnesi hafa þegar sent foreldrum nánari upplýsingar um fyrirkomulagið á hverju skólastigi. Skólar munu útvega grímur til þeirra nemenda sem þurfa að nota þær í skólastarfinu en nemendur eru hvattir til að koma með grímur að heiman fyrstu dagana sé þess kostur.