Alþjóðadagur læsis 8. september
Lesum hvert fyrir annað
Alþjóðadagur læsis 8. september
Lesum hvert fyrir annað
Á degi læsis er fólk hvar sem er á landinu hvatt til að lesa upp fyrir hvert annað, segja sögur, fara með ljóð eða á annan hátt nota málið til ánægjulegra samskipta.
Árið 1965 tileinkuðu Sameinuðu þjóðirnar ár hvert 8. september mikilvægi læsi fyrir lífsgæði og baráttunni gegn ólæsi. Í heiminum eru ennþá 20% fullorðinna ólæsir vegna skorts á tækifærum. Þar af er hlutfall ólæsra kvenna 66%. 75 milljónir barna eiga ekki kost á skólagöngu.
Íslendingar hafa getað boðið börnum sínum tækifæri til lestrarnáms en læsi er nú skilgreint af SÞ sem grunnlífsleikni. Til að viðhalda lestrarfærni þarf að iðka lestur.
Að frumkvæði Háskólans á Akureyri og Amtsbókasafnsins á Akureyri var ákveðið að taka nú í fyrsta sinn þátt í alþjóðadegi læsis til að leggja áherslu á mikilvægi læsis til gagns og gamans og þann auð sem þjóðin á í vel menntuðu fólki.
Í tilefni af deginum munu Austurglugginn, Morgunblaðið og Víkurfréttir birta framhaldssögu fyrir börn um Jónsa fréttaritara í átta hlutum. Kaflarnir birtast einu sinni í viku. Sagan er gefin af alþjóðasamtökum blaðaútgefenda (WAN).
Á Akureyri verður, þann 8. september, boðið upp á fjölbreytta og létta dagskrá á ýmsum stöðum bæjarins. Allir sem hafa umsjón með viðburðunum gefa vinnu sína.
Þess er vænst að aðrir staðar á landinu taki upp merkið, lesi saman á vinnustöðum, skólum og heimilum og setji upp dagskrá í sinni heimabyggð.