Skólinn
Fréttir
Umferðarátak

Stöndum saman – drögum úr hraðakstri þar sem börn eru á ferð

Stöndum saman – drögum úr hraðakstri þar sem börn eru á ferð

8.9.2009 Fréttir

 

Vegna mikillar umferðar við byggingar grunnskólans höfum við áhyggjur af öryggi nemenda á leið til og frá skóla. Þröngt er við skólana og aðstæður til að keyra nemendur ekki eins og best verður á kosið. Aðstaða til að hleypa nemendum úr bílunum er lítil og því grípa foreldrar til þess óyndisúrræðis að leggja í bílastæði starfsfólks eða upp á gangstéttir meðan þeir fylgja börnunum inn í skólabygginguna. Með þessu auka þeir á hættu fyrir gangandi vegfarendur og hindra akandi umferð. Við höfum tekið þátt í átakinu Göngum í skólann til þess að reyna að draga úr umferðarþunganum. Foreldrar hafa verið beðnir að ganga með yngstu nemendunum en þau eldri koma gangandi eða hjólandi. Þetta hefur gengið vel, en ekki eru allir foreldrar sem treysta því að börnin þeirra séu örugg á leiðinni í skólann vegna umferðar. Við sem höfum verið að fylgjast með á gangbrautunum síðustu daga skiljum vel það sjónarmið, því margir sem keyra börn sín í skólann keyra of hratt. Einnig er mikil og hröð umferð á Nesvegi og Suðurströnd. Í dag (þriðjud. 8. sept.) var keyrt á stúlku í 10. bekk hjá gönguljósunum á Suðurströndinni. Stúlkan slapp með skrekkinn, hlaut áverka í andliti og höfuðhögg en er ekki alvarlega slösuð. Við sem störfum í Grunnskóla Seltjarnarness skorum á bæjarbúa að aka gætilega við skóla, íþróttamannvirki og aðra staði þar sem börn eru á ferð.    

 

Starfsfólk Grunnskóla Seltjarnarness