Skólinn
Fréttir

SAFT-nemendasamkeppni

3.12.2009 Fréttir


Nemendasamkeppni: Gerð jafningjafræðsluefnis um  jákvæða og örugga netnotkun barna og unglinga

 

SAFT, ungmennaráð SAFT, Heimili og skóli og Nýherji efna til samkeppni meðal grunn- og framhaldsskólanemenda um gerð jafningjafræðsluefnis sem stuðlar að  jákvæðri og öruggri netnotkun.
 
Innsent efni má vera í formi myndbanda, kennslueininga, veggspjalda, handrita af leiknu efni, leikir o.s.frv., en miðað er við að það sé nýtilegt við jafningjafræðslu í grunnskólum landsins. Tekið er við efni bæði frá einstaklingum og bekkjum.
 
Efni þarf að skila inn fyrir 22. janúar 2010 en vinningshafar verða kynntir á alþjóðlega netöryggisdaginn 9. febrúar 2010. Þann dag mun SAFT standa fyrir ráðstefnu þar sem lögð verður áhersla á að brýna fyrir netnotendum að hugsa sig tvisvar um áður en þeir setja upplýsingar eða myndir á netið.
 
Dómnefnd samkeppninnar skipa fulltrúar SAFT, Heimilis og skóla, Námsgagnastofnunar, Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Menntamálaráðuneytis, Kennarasambandsins, foreldraráða, ungmennaráðs SAFT og Nýherja.
 
Meðal vinninga má nefna IdeaPad fartölvu, Canon upptökuvél, prentara og flakkara.
 
Nánari upplýsingar má finna á www.saft.is
Efni má senda merkt „P2P”með tölvupósti á saft@saft.is eða í pósti á
SAFT, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.