Skólinn
Fréttir

Skólastarf í Valhúsaskóla 14.-20. desember

21.12.2012 Fréttir

Eftir að jólaprófum lauk í Valhúsaskóla var skólastarf brotið upp á ýmsan hátt.  Dagana 14. og 17. desember unnu árgangarnir með umsjónarkennurum að mismunandi verkefnum, 7. bekkur bjó til vinalegar kveðjur sem síðan voru hengdar á hurðarhúna heppinna bæjarbúa, 8. bekkingar æfði upp ýmis lög sem þeir fluttu m.a. fyrir sjúklinga á Landakoti og bæjarstarfsmenn, 9. bekkingar unnu þemaverkefni um kostnað jólahaldsins  út frá fyrirframgefnum forsendum og 10. bekkingar héldu dansiball fyrir heldri borgara í íþróttahúsinu auk þess sem þeir fóru klyfjaðir fötum til ýmissa hjálparstofnana og kynntust starfsemi þeirra.  Nemendur voru hvarvetna til fyrirmyndar eins og við var að búast.  Kennt var samkvæmt stundaskrá eftir hádegi þessa daga.  Dagur með umsjónarkennara var svo haldinn 18. des. en þar kom hver bekkur/árgangur sér saman um dagskrá.


19. desember voru Valhýsingar svo lánsamir að fá Jóhann Gunnar Jóhannsson, bæjarlistamann Seltjarnarness, í  heimsókn í skólann með frábæra dagskrá.  Á meðan 7. og 8. bekkingar kepptu í „Það var lagið“ í Miðgarði var Jóhann  með 9. og 10. bekkinga í hópvinnu í hátíðarsal Gróttu.  Verkefnið var að semja dans við Froðulagið (Ósýnilega gyðja).  Eftir kaffi skiptu árgangar svo um hlutverk, 7. og 8. bekkingar fóru niður í hátíðarsal Gróttu og lærðu dansinn sem saminn hafði verið fyrr um morguninn en 9. og 10. bekkingar kepptu í „Það var lagið“.  Fyrir hádegismat og úrslitakeppnina í „Það var lagið“ kom Jóhann svo upp í skóla og stýrði því að allir dönsuðu  saman.  Við þökkum Jóhanni sérstaklega fyrir framlag  hans þennan frábæra morgun.  


Einkunnir voru svo afhentar fimmtudaginn 20. des. en áður en til þess kom hlustuðu nemendur og starfsfólk  á tónlistarmenn úr Tónlistarskóla Seltjarnarness  spila tvö lög undir stjórn Guðjóns S. Þorlákssonar.  Að því búnu dönsuðu allir  í kringum jólatré undir dyggri stjórn Gylfa Gunnarssonar, skólastjóra Tónlistarskóla Seltjarnarness. Við þökkum Gylfa og hans fólki fyrir framlagið nú sem endranær.

Hér eru myndir frá ,,Það var lagið" og litlu jólunum