Fréttir
Lestrarátak meðal unglingsdrengja
Rithöfundurinn vinsæli Andri Snær Magnason verður sérstakur gestur á Bókasafni Seltjarnarness föstudaginn 17. janúar en þá hyggst Bókasafnið hleypa af stokkunum sérstakri vitundarvakningu meðal unglingsdrengja til að hvetja og stuðla að lestri bóka.
Andri Snær mun ræða vítt og breytt um mátt og megin bókarinnar en gestirnir verða drengir úr 9. og 10. bekk Valhúsaskóla ásamt íslenskukennurum við grunnskólann. Þann sama dag verða starfsmenn Bókasafnsins búnir að koma upp sýningu á bókum sem gætu fallið ungum drengjum í geð auk þess að útbúa atriðaorðalista sem lesendurnir geta glöggvað sig á með það fyrir augum að takmarka bókaleitina við áhugamál þeirra. Listinn verður aðgengilegur öllum og eru foreldrar ekki síður hvattir til að kynna sér hann í því skyni að fá lánaðar bækur sem gætu höfðað til þeirra barna. Starfsfólk Bókasafnsins er auk þess með ráð undir rifi hverju og hafsjór af fróðleik um innihald þeirra þúsundir bókatitla sem finna má á Bókasafninu og alltaf tilbúnir til skrafs og ráðagerða. Það er von starfsfólks Bókasafnsins að sem flestir noti þetta kærkomna tækifæri þannig að fleiri bækur sjáist á náttborðum ungra drengja í framtíðinni.