Skólinn
Fréttir

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar –  2015

20.3.2015 Fréttir

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fór fram í Félagsheimili Seltjarnarness  í gær, 18. mars.

Keppendur voru tólf talsins.  Þeir komu frá Álftanesskóla, Flataskóla,  Hofsstaðaskóla, Sjálandsskóla,Vífilsskóla og Grunnskóla Seltjarnarness, Valhúsaskóla, tveir keppendur frá hverjum skóla.

 

Fyrir hönd Valhúsaskóla kepptu Katrín Helga Sigurbergsdóttir og Ólafur Marel Árnason.  Varamaður var Arnþór Páll Hafsteinsson.

 

Nemendur lásu samfelldan texta úr skáldsögunni  Öðruvísi fjölskylda eftir Guðrúnu Helgadóttur, ljóð eftir Anton Helga Jónsson og ljóð að eigin vali.

 

Áður en lestur hófst kynntu tveir eldri nemendur skáldin. Sigurlaug Brynjúlfsdóttir sem varð í öðru sæti í fyrra kynnti Guðrúnu Helgadóttur og Egill Breki Scheving, sigurvegari vorið 2013, kynnti Anton Helga Jónsson.

 

Allir þátttakendur stóðu sig mjög vel en úrslit keppninnar urðu þau að

Guðrún Margrét Bjarnadóttir, Hofsstaðaskóla, varð í 1. sæti, Gígja Hafsteinsdóttir, Sjálandsskóla,  í  2. sæti og Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, Vífilsskóla, í 3. sæti.

 

Skemmtiatriði voru frá fjórum skólunum.  Fjórir nemendur Grunnskóla Seltjarnarness fluttu lagið Fanfare eftir William Duncombe.  Kvartettinn skipuðu, Engilbert Sigurðarson, hann lék á túbu, og Bjarki Daníel Þórarinsson, Gunnar Helgason og María Lovísa Jónasdóttir en þau léku á básúnur.  Auk þess léku nemendur Tónlistarskóla Seltjarnarness í anddyri  áður en dagskráin hófst.

Hátíðinni lauk með því að lesarar fengu bókargjöf  og sigurvegarar auk þess peningaverðlaun og viðurkenningarskjal frá Röddum, samtökum um vandaðan upplestur og framsögn.  Varamenn fengu bókargjöf frá Seltjarnarnesbæ.

 

Veitingar í hléi voru í boði Mjólkursamsölunnar og Seltjarnarness.