Mýrarhúsaskóli

Mýrarhúsaskóli

1874 -2004

Grein eftir Pál Guðmundsson fyrrverandi skólastjóra:

Mýrarhúsaskóli 125 ára

Einn elsti skóli landsins verður 125 ára nú um mánaðarmótin. Hér er um að ræða Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi sem talinn er stofnaður árið 1875 og var fyrstu sjö árin til húsa í litlu timburhúsi sem stóð í hlaðinu á Mýarhúsum. Forystumaður að stofnun skólans var Ólafur Guðmundsson, útvegsbóndi í Mýrarhúsum. Hann eins og fleiri útvegsbændur á Nesinu höfðu stundað sjósókn frá Suðurnesjum og kynnst skólahaldi þar um slóðir og þá sérstaklega á Vatnsleysuströnd. Það má því ætla að áhugi hans á skólamálum hafi vaknað þar. Það er þó ekki fyrr en 1878 sem Mýararhúsaskóli hlýtur viðurkenningu sem skóli rekinn fyrir almannafé.
Fyrsti kennari skólans var Sigurður Sigurðsson, sem síðar var lýst svo: „Samviskusamt valmenni, er í engu mátti vamm sitt vita, prýðisgóður kennari og besti uppeldisfaðir og ráðunautur hinna mörgu unglinga, er falin var forsjá hans.“ Sigurður hefir á margan hátt verið ákaflega nútímalegur í starfi sínu. Hann lét börnin kenna hvert öðru þannig að eldri börn sögðu yngri börnum til í skrift og reikningi, á meðan kennarinn hlýddi miðhópnum yfir kverið, landafræði eða sögu. Sigurði hefur þannig verið einkar lagið að virkja nemendur til starfa, en það þykir einmitt lykill að góðu skólastarfi nú til dags.

eldri_skoli_002

Skólahús

Fljótt fóru þrengsli í skólanum að segja til sín og árið 1883 var nýtt skólahús tekið í notkun. Húsið var hlaðið úr íslensku grjóti einsog þá var að ryðja sér til rúms í byggingarsögunni. Húsið stóð neðan við götuna fram á Nes í vestur frá Mýrarhúsum. Nokkrar deilur urðu um hið nýja hús bæði um verð þess og staðarval en engu að síður var það vígt með viðhöfn 5. janúar 1883.
Í "vígslugildinu" flutti Steingrímur Thorsteinsson samkomunni frumsamið minni sem enn er til í skrautritaðri útgáfu.
Næsta skólahús var síðan reist 1906 og stendur enn og setur mikinn svið á umhverfi sitt. Það hefir gegnt mörgum og mismunandi hlutverkum fyrir sveitarfélagið. M.a. hýsti það skrifstofur bæjarins í nokkur ár einnig var það notað bæti til helgihalds og dansleikir sem þar voru haldnir voru þekkir í Reykjavík og víðar. Í dag er verið að setja húsið í upprunalegt horf sem sýnir að Seltirningar bera virðingu fyrir þessu gamla húsi sem hefir þjónað þeim svo vel í hart nær 100 ár.
Árið 1960 flyst svo skólinn í nýtt og fullkomið skólahúsnæði sem að síðan er búið að byggja við fjórum sinnum. Í dag býr skólinn við húsnæði sem er með því besta sem gerist á Íslandi.
Auk húsnæðisins á Nesinu átti sveitarfélagið skóalhús í Viðey en þar var um árabil rekið útibú frá Mýrarhúsaskóla. Gamla skólahúsið í Viðey hefir nú verið endurnýjað á myndarlegan hátt en tilheyrir ekki lengur Seltjarnarnesi.Enginn vafi er á því að góður húsakostur er hverjum skóla nauðsynlegur, en ekki gerir það gæfumuninn hvað góðu skólastarfi viðkemur.
Eins og fram kemur hér að framan lagði Sigurður Sigurðsson grunninn að skólastefnu Mýrarhúsaskóla þ.e. að halda í heiðri aga, stjórnsemi og þörfum einstakra nemenda til náms.
Fullyrða má að eftirkomendur hans hafa reynt að halda hugmyndum hans í heiðri þó að þar hafi að sjálfsögðu komið til ýmsar áherslubreytingar með breyttum tímum og stöðugri framþróun í skólamálum.
Til dæmis um að stefna Sigurðar átti hljómgrunn á Nesinu má nefna að á síðari hluta 19. aldar var hafin kennsla fyrir stúlkur, sem þá var ekki algengt, einnig var söngkennsla tekin upp í skólanum, sjómannafræðsla og sunnudagaskóli í skrift, reikningi o.fl.
Allar götur síðan hafa forystumenn Mýrarhúsaskóla kappkostað að vera í fararbroddi hvað varðar kennsluhætti og nýjungar í skólastarfi. Til marks um það má nefna að í Seltingingabók segið að Sigurður Jónsson, sem var skólastjóri 1922 - 59 hafi stýrt ýmsum leikfimiæfingum barnanna í salnum. Einnig segir þar að fengnir hafi verið kennarar, t.d. Benedikt Jakobsson, til að segja börnum til í leikfimi. Svipað gildir um aðrar námsgreinar.
Mýrarhúsaskóli var einn af fyrstu skólum landsins til að hefja kennslu í forskóla, en það gerðist árið 1967. Einnig var skólinn einna fyrstur til að koma á einsetningu í skólum a.m.k. meðal skóla í fjölbýli. Veruleg tilraunakennsla fór fram í skólanum og má ætla að nokkuð af henni hafi komið skólanum til góða í bættu skólastarfi. Til marks um tilraunastarfsemi í skólanum má nefna að árið 1974 - 75 fóru tilraunir fram í öllum deildum skólans.

Þau verkefni sem unnið var að voru eftirtalin:

Í fyrsta bekk:
A. Mynd-og handmennt.
B. Tónmennt.
C. Stærðfræði.

Í öðrum bekk:
A. Mynd- og handmennt.
B. Samfélagsfræði.

Í þriðja bekk:
A. Samfélagsfræði.

Í fjórða bekk:
A. Einsetning með heimanámi í skóla.

Í fimmta bekk:
A. Einsetning með heimanámi í skóla.
B. Danska.

Í sjötta bekk:
A. Einsetning með heimanámi í skóla.

Af þessara upptalningu má sjá að tilraunir voru í gangi í öllum bekkjum og flestum námsgreinum. Sumar tilraunanna héldu áfram í eitt eða fleiri ár en aðrar stóðu skemur yfir. Fullyrða má að allar höfðu þær varanleg áhrif á skólastarfið á einn eða annan hátt. Kennsluaðferðir breyttust, námsefnið batnaði, kennarar urðu öruggari í starfi, nemendur áhugasamari, foreldrar ánægðari og öllum leið betur.
Öllum tilraunum fylgir kostnaðarauki og í því sambandi naut skólinn stuðnings skólanefndar ogyfirvalda sveitarfélagsins. Eðlilega áttu þó starfsmenn skólans oftast frumkvæði að breyttum skólaháttum.

Í dag gegna þrír skólar því hlutverki er Mýrarhúsaskóli gegndi einn í heila öld. Þar er um að ræða, fyrir utan Mýrarhúsaskóla, Valhúsaskóla sem nú hýsir fjóra efstu bekki skyldunámsins og Tónlistarskólann. Auk þess eru nú í sveitafélaginu ýmis félagasamtök er tekið hafa að sér að sinna margs konar félagslegri þörf nemenda.

Skólinn hefur alla tíð verið ákaflega heppinn hvað varðar val á kennurum og kennarar hafa staðnæmst þar lengi. Einn kennari kenndi t.d. í 47 ár við skólann við miklar vinsældir. Gamlir nemendur skólans hafa líka komið til starfa við skólann eftir að hafa lokið kennaraprófi og eru nokkrir þeirra enn starfandi við skólann. Athyglisvert er að á 125 ára starfsferli skólans hafa aðeins 7 manns gegnt starfi forstöðumanns eða skólastjóra við hann.

 


Skólinn