Fréttabréf Mýrarhúsaskóla frá 1999
Fréttabréf skólans í október 1999 |
Ágætu foreldrar Eftir hálf róstursamt sumar hófst skólastarf með hefðbundnum hætti hjá okkur og er nú komið vel af stað. Óneitanlega hlýtur fréttaumfjöllunin í sumar að hafa komið illa við ykkur en fjölmargir foreldrar lögðu okkur lið og hvöttu okkur til dáða. Fyrir það viljum við þakka ykkur sérstaklega. Það er styrkur fyrir starfsfólk skólans að finna stuðning ykkar og ómetanlegt að vita að þið standið með okkur í að efla skólann. Veturinn leggst vel í okkur hér í Mýrarhúsaskóla. Síðastliðið vor kvöddum við hóp myndalegra nemenda sem fluttust í Valhúsaskóla og nú í haust bjóðum við nýja nemendur velkomna til okkar sem án efa eiga eftir að verða glæsilegir fulltrúar þessa skóla. Við munum ótrauð halda áfram þeirri viðleitni okkar að gera góðan skóla enn betri og treystum á fulltingi ykkar til þeirra verka. Við munum vinna áfram að bættri stjórnun og betri samskiptum innan skólans. Það er afskaplega mikilvægt að ná góðri sátt um skólastarfið og efla samstöðu starfsfólks, foreldra, nemenda og bæjaryfirvalda til að hér geti dafnað góður skóli, sér og sínum til sóma. Á þessu skólaári verður unnið að umfangsmiklu umbótarverkefni með þátttöku skólanefndar og foreldra. Í tengslum við það mun ykkur berast innan tíðar umfangsmikill spurningalisti þar sem ykkur gefst kostur á að koma á framfæri skoðunum ykkar á ýmsum þáttum skólastarfsins. Við viljum fullvissa ykkur um að við skólann starfar áhugasamt starfslið og meðal okkar ríkir mikill hugur til að takast á við verkefni skólaársins af fullri einurð. Einnig viljum við að það komi fram að dyr skólans standa ykkur ávallt opnar þegar þið viljið ræða við okkur. Nokkuð hefur borið á því að nemendur séu með GSM síma í skólanum. Við viljum biðja ykkur foreldra að sjá til þess börnin komi ekki með þá í skólann. Nemendur Mýrarhúsaskóla eru alla jafnan til mikilla fyrirmyndar. En í fjölmennum skóla getur oft slettst upp á vinskapinn. Gæslufólk reynir eftir megni að fylgjast með nemendum á skólalóðinni og gæta þess að allt sé þar í friði og spekt. Það getur gerst að eitthvert atvik fari fram hjá gæslufólkinu. Því teljum við mikilvægt að verði foreldrar varir við að eitthvað sé að barninu að þau komist að því hvað það er og hafi samband við okkur í skólanum svo unnt sé að leysa málið á farsælan hátt. Við biðjum samt foreldra að vera dugleg að hvetja börn sín til prúðmannlegrar framkomu og hlýðni við allt starfsfólk. Með kærri kveðju og von um gott samstarf í vetur. Fríða Regína Höskuldsdóttir, skólastjóri. Marteinn M. Jóhannsson, aðstoðarskólastjóri.
Nemendur skólans eru nú 547 og skiptast þeir í 28 bekkjardeildir. Í sumar var útbúin ný kennslustofa í skólanum og önnur stækkuð og gerð upp. Engu að síður verðum við að kenna tveimur bekkjum saman í kennslustofu í þremur árgöngum. Kennarar og annað starfslið skólans er nú um 70 manns. Skólaskjólið Foreldranámskeið Námsefniskynningar Danskennsla Kórinn Námsver Vímuvarnarvikan Félagsstörf Starfshópur um skóladaginn Fréttabréf Mýrarhúsaskóla ásamt öðrum gagnlegum upplýsingum um skólastarfið er að finna á heimasíðu skólans sem við hvetjum foreldra til að heimsækja. http//rvik.ismennt.is/~myrarhus. Netfang skólans : myrarhus@selnes.is Foreldrar geta tilkynnt veikindi barna sinna inn á símsvara að kvöldi eða sent okkur rafpósttilkynningar. Ef barnið er í skjólaskjólinu er mikilvægt að það komi fram. Einnig geta foreldrar hringt í skólaskjólið í síma 561 1895. |