Skólinn
Eldri fréttabréf

Fréttabréf Mýrarhúsaskóla, september 2000

Fréttabréf skólans í september 2000 print E-mail


Ágætu foreldrar

Nú er nýtt skólaár hafið og viljum við bjóða alla velkomna aftur til starfa. Nemendur mættu útiteknir og sællegir að afloknu sumarleyfi þann 1. september og kennsla hófst samkvæmt stundaskrá þann 4. september. Við hefjum skóla-starfið með 474 nemendum í 6 árgöngum og skiptast þeir í 25 bekkjardeildir. Við flutning 7. bekkja yfir í Valhúsaskóla er nú hægt að bjóða hverri bekkjardeild upp á sína eigin kennslustofu. Þrátt fyrir nokkra fækkun nemenda í skólanum, þurfum við ennþá að kenna nokkrum bekkjum í hádegi og fara út fyrir viðmiðunarramma skóla-dagsins vegna álags á sérgreinastofur.
Fjórir kennarar skólans fylgdu nemendum yfir í Valhúsaskóla, tveir kennarar eru í námsleyfum og fimm kennarar eru/verða í barnsburðarleyfum. Það gekk vel að fá umsjónarkennara til starfa en ekki tókst að ráða kennara í textílmennt og heimilisfræði, munu því umsjónarkennarar skipta þeirri kennslu á sig eftir því sem þeir treysta sér til.

NÁMSEFNISKYNNINGAR


Námsefniskynningar þar sem kennarar fara með foreldrum yfir bekkjarnámskrár vetrarins verða sem hér segir:

6. bekkur miðvikud. 13. sept. kl. 8:20 5. bekkur fimmtud. 14. sept. kl. 8:20 4. bekkur föstud. 15. sept. kl. 8:20 3. bekkur mánud. 18. sept. kl. 9:00 2. bekk þriðjud. 19. sept. kl. 9:00


Námsefniskynningar hafa verið vel sóttar af foreldrum og Skólaskjólið verður opið yngstu nemendunum á meðan þær standa yfir. Í lok kynningarinnar velja foreldrar sér bekkjarfulltrúa.

FORELDRANÁMSKEIÐ

Námskeið fyrir foreldra 1. bekkinga hefst þriðjudaginn 12. sept. kl. 18:00 og hefur bréf um það þegar verið sent til foreldra fyrstu bekkinga. Allir "nýir" foreldrar eru velkomnir á námskeiðið.
SKÓLAREGLUR

Ný reglugerð um aga og skólareglur tók gildi 3. apríl 2000 og eru foreldrar hvattir til þess að kynna sér hana. Bent er á heimasíðu menntamálaráðuneytisins www.mrn.stjr.is Skólareglur Mýrarhúsa-skóla fylgja með þessu fréttabréfi og eru foreldrar beðnir um að fara með börnum sínum yfir þær og hvetja börn sín til prúðmannlegrar framkomu. Í viðhorfa-könnuninni sem Rekstur og ráðgjöf framkvæmdi s.l. haust meðal starfsfólks, foreldra og nemenda kom fram að 96% foreldra töldu að barn sitt hegðaði sér oft eða alltaf vel í skólanum. Engu að síður töldu 27% foreldra agaleysi í skólanum talsvert eða algert !
VIÐHORFAKÖNNUN

Niðurstöður viðhorfakönnunarinnar liggja nú fyrir og verða þær væntanlega kynntar foreldrum á fundi. Í niðurstöðunum kemur m.a fram að um 80% foreldra eru ánægðir með skólann þegar á heildina er litið. Unnið verður með góðar ábendingar úr könnuninni og niðurstöðurnar hafðar til hliðsjónar í gæðastarfi skólans. Niðurstöðurnar er að finna á heimasíðu Seltjarnarnesbæjar
ÁR / DAGUR STÆRÐFRÆÐINNAR

Á heimsráðstefnu Alþjóðasambands stærðfræðinga árið 1992 var ákveðið að árið 2000 yrði Alþjóðlegt stærðfræðiár og dagur stærðfræðinnar 27. september. Á skipulagsdögum í ágúst sátu allir kennarar Mýrarhúsaskóla námskeið í stærðfræði þar sem m.a. voru kynnt ýmis verkefni og hugmyndir í rúmfræði. Rúmfræðileg viðfangsefni hafa grundvallarþýðingu fyrir allt nám og kennslu í stærðfræði. Tölur og talnareikningur hafa samt skipað lang-stærstan sess í allri stærðfræðikennslu allt fram á þennan dag. Markmið dags stærðfræðinnar er að vekja nemendur og sem flesta aðra til umhugsunar um stærðfræði og hlutverk hennar í samfélaginu og munum við vinna að því markmiði hér.
SKÓLAMÁLTÍÐIR

Eins og greint var frá í fréttabréfi í vor var fyrirsjáanlegt að ekki yrði boðið upp á heitan mat í skólanum í ár. Hins vegar er á döfinni að gera tilraun með að bjóða til sölu skólanesti frá Sóma á vægu verði eða kr. 170. Innan skamms munu því foreldrar fá sendan heim matseðil og nánari kynningu á tilhögun þessa. Sömuleiðis fáum við D-vítamínbættu léttmjólkina Dreitil í lok þessarar viku eða um leið og Mjólkursamsalan hefur dreifingu á henni.
ÞRÓUN INNRA STARFS SKÓLANS

Kennarar skólans hafa sótt ýmis námskeið í sumar og er ánægjulegt að geta sagt frá því að sex kennarar fóru til Bretlands til þess að kynna sér enskukennslu. Einnig hefur skólinn fengið styrk úr Endurmenntunarsjóði til þess að halda námskeið fyrir kennara í kennslu í lífsleikni og stærðfræðikennslu í haust með hliðsjón af breyttum áherslum í nýrri Aðalnámskrá. Dagur íslenskrar tungu verður að venju 16. nóvember. Þann dag munum við nýta til sérstakra verkefna í þágu móðurmálsins þó nú verði upplestrarkeppnin framvegis á vegum Valhúsaskóla.
ÍÞRÓTTAKENNSLA

Í upphafi og undir lok skólaárs eru íþróttir gjarnan kenndar utan dyra eftir því sem veður leyfir. Yngstu nemendur munu hlaupa á Gróttuvelli nú í haust. Á þessu skólaári er gerð tilraun með nýja niðurröðun nemenda í sund og íþróttir þannig að börn á sama aldri eru saman í búningsklefum. Okkur líst vel á þessa tilhögun og bindum vonir við að hún leiði til þess að minna verði um árekstra þar. Til þess að þetta gangi upp verða sum yngri börn að mæta kl. 8:10 og lýkur kennslu þeirra því fyrr að deginum eða kl. 13:10. Við þessu höfum við brugðist með því að bjóða upp á gæslu fyrir þá sem þess óska til kl. 13:50.
LOKAORÐ

Svona í upphafi skólárs viljum við hvetja foreldra til þess að gæta festu og sjá til þess að nemendur fái nægan svefn að afloknum ströngum vinnudegi og komi með hollt og gott nesti í skólann. Að gefnu tilefni viljum við benda foreldrum á að við getum ekki tekið ábyrgð á þeim leikföngum sem börnin eru að koma með í skólann. Pokemon spilin hafa t.d. viljað skipta um eigendur í frímínútum, án þess að allir aðilar séu sáttir, þannig að helst viljum við beina þeim tilmælum til foreldra að þau verði geymd heima. Skóladagatal Mýrarhúsaskóla fyrir skólaárið 2000 - 2001 fylgir með þessu fréttabréfi svo að foreldrar fái yfirlit yfir skólaárið. Sömuleiðis upplýsingar um viðtalstíma kennara sem við vonumst til að þið verðið dugleg að nýta ykkur. Viðtalstímar stjórnenda eru svo alla morgna milli kl. 9:00 - 10:00 og eftir samkomulagi. Að lokum viljum við að sjálfsögðu nota tækifærið til þess að minna á ágæta heimasíðu skólans http://myrarhusaskoli.ismennt.is en þar er hægt að leita upplýsinga um starf skólans. Í því sambandi bendum við sérstaklega á áætlun skólanna gegn ofbeldi og einelti sem allir foreldrar þurfa að kynna sér. Sömuleiðis minnum við foreldra á að nýta sér að senda okkur línu með ábendingum, tilkynningum um forföll og annað á póstfang skólans myrarhus@seltjarnarnes.is
Fyrir hönd starfsfólks
Skólastjóri