Skólinn
Eldri fréttabréf

Fréttabréf Mýrarhúsaskóla, október 2000

Fréttabréf skólans í október 2000 print E-mail

NÁMSEFNISKYNNINGAR


Ótal rannsóknir hafa sýnt fram á sterk tengsl milli jákvæðrar afstöðu og áhuga foreldra á námi barna sinna, námsánægju þeirra og framfara.
Til þess að koma til móts við foreldra og gera þeim kleift að setja sig vel inn í hvað börnin eru að takast á við í námi sínu er öllum foreldum boðið að hitta kennara barna sinna og fá yfirlit yfir námsefni vetrarins við upphaf skólaárs.
Flestir foreldrar nýta sér þetta tækifæri enda miklir hagsmunir í húfi. Sumir foreldrar bera því við að tíminn sé óhentugur en það var reynsla okkar þegar þær voru hafðar að kvöldlagi að foreldrar áttu erfitt með að komast frá.
Þess má geta að aðrir skólar, þar með talinn Valhúsaskóli hefur fært sínar kynningar fram á skólatíma. Námsefniskynningar hér hafa nú undanfarin ár verið á skólatíma og þá verið boðið upp á gæslu í Skólaskjóli fyrir yngstu nemendurna á meðan þær standa yfir. Mér finnst full ástæða til að minna á að frumábyrgð á uppeldi og menntun barna hvílir á foreldrum. Ég vil því hvetja alla þá foreldra sem einhverra hluta vegna gátu ekki sótt námsefniskynningarnar að hafa samband við umsjónarkennara í viðtalstímum þeirra og setja sig inn í málin og biðja alla foreldra að nýta vel vikulega viðtalstíma kennaranna.

ÞRÓUN INNRA STARFS SKÓLANS

Tónlistarkennsla í 6. bekk verður með breyttum hætti í ár. Keypt hafa verið hljómborð sem hægt er að tengja við tölvur og læra nemendur nú að skapa eigin tónlist með aðstoð tölvuforrits. Kennari þeirra er Guðbjörg Ragnarsdóttir en hún sótti námskeið í þessari tegund tónmenntakennslu s.l. sumar.
Þótt ekki sé komin mikil reynsla á kennsluna má segja að hún fer vel af stað og ánægjulegt að sjá hve áhugasamir nemendurnir eru.

Upplýsingamennt er sjálfstæður þáttur í námi en líka samþættur við aðrar námsgreinar. Greininni er skipt í þrjá efnisþætti: Tæknilæsi, upplýsingalæsi og menningarlæsi. Í Mýrarhúsaskóla reynum við að taka mið af öllum þáttunum og flétta þá saman.
Við höfum þann háttinn á í vetur að nemendur fá vikulegan tíma í tölvuveri hálfan veturinn og eru yfirleitt tveir kennarar, umsjónarkennari og fagstjóri í UT. Þannig fá nemendur betri kennslu og bekkjar-kennari þjálfast um leið í notkun upplýsingatækni og kynnist möguleikum hennar í kennslu.

Umsjónarkennari fer nú með heilan bekk á safn og þar vinna nemendur þau verkefni sem þar eru. Þjálfun nemenda í upplýsingalæsi og menningarlæsi fer fram á safni, í kennslustofum og í tölvuveri og fléttast inn í allar námsgreinar. Vélbúnaður skólans er nú þannig að nemendur hafa aðgang að 14 tölvum í tölvuveri, auk þess er ein tölva í öllum 4.,5. og 6. bekkjum. Þar að auki eru þrír yngri bekkir með tölvur í stofum sínum. Hluti þessarra tölva eru nettengdar. Í haust voru keyptir fleiri ritþjálfar og á skólinn nú bekkjarsett af þeim. Þeir eru notaðir frá 3.bekk til þess að þjálfa fingrasetningu. Í ritþjálfa er líka að finna stafsetningaræfingar, ensku og stærðfræði-æfingar.

Í haust var sett upp svokölluð netsía sem kemur í veg fyrir aðgang nemenda að óæskilegu efni. Í því sambandi viljum við hvetja foreldra til þess að leyfa ekki börnum sínum að vera eftirlitslaust á netinu. Þar er að finna efni sem er alls ekki við hæfi barna. Einnig er nauðsynlegt að brýna fyrir börnum að gefa ekki persónulegar upplýsingar né að hitta ókunnuga sem þau kynnast e.t.v. á spjallrásum.

Við í Mýrarhúsaskóla teljum að í vetur náist flest þau þrepa- og áfangamarkmið sem sett eru fram í Aðalnámskrá grunnskóla í upplýsinga og tæknimennt. Að vísu munum við þurfa að vega og meta hversu miklum tíma verður varið í hvert atriði, þar sem nemendur hafa ekki aðgang að tölvuveri nema hálfan vetur, en hugsanlegt er að tölvum fjölgi í skólanum í vetur þannig að ef og þegar það verður munum við endurskoða tímarammann.

Við höfum nú þegar hafið þátttöku í íslensku Kid-link verkefni. Það hefur að markmiði að nemendur kynni heimabyggð sína fyrir öðrum nemendum. Verkefnið er ætlað 5. bekkingum og er í formi vefsíðugerðar og tölvusamskipta. Þetta verkefni tengist markmiðum í landafræði, íslensku, samfélagsfræði og upplýsingatækni. Sjá nánar á heimasíðu skólans (http://myrarhusaskoli.ismennt.is). Nemendur í 5. bekkjum eru einnig að hefja tölvusamskipti við nemendur Þelamerkurskóla í Eyjafirði og hafa nemendur þegar sent kynningarbréf.
Skólinn er áskrifandi að stærðfræðivef H & T en þar er að finna mjög góð verkefni og próf sem nemendur í 5 og 6. bekk geta nýtt sér, bæði í skóla og heima. Við viljum hvetja foreldra barna í efstu bekkjunum sem eru nettengdir heima að fá aðgangsheimild hjá umsjónakennara barnsins. Á þann hátt geta foreldrar fylgst vel með framvindu barna sinna og notað stærðfræðivefinn til þess að átta sig á veikleikum þeirra og styrk. Skólinn hefur fyrir nokkru tekið í notkun nemendabókhalds-forritið Stundvísi og er það nú notað af öllum kennurum skólans.
Að lokum viljum við hvetja þá foreldra sem hafa netföng en hafa ekki látið skólann vita um þau, að senda okkur línu á netfangið: myrarhus@seltjarnarnes.is.
Við höfum áhuga á að sem flestar tilkynningar og einhver hluti samskipta við foreldra fari fram á rafrænan hátt. Því miður koma tæknileg vandamál í veg fyrir að rafræn samskipti hafi þegar hafist, en vonandi leysast þau mál fljótlega.

Við viljum benda á að flestir kennarar skólans eru með netföng á seltjarnarnes.is, sjá netfangaskrá á heimasíðu skólans.

SKÓLAREGLUR / Samskipti

Í nýrri Aðalnámskrá er skólinn skilgreindur sem samfélag þriggja aðila : Nemenda, starfsfólks og foreldra. Með síðasta fréttabréfi fylgdu skólareglur Mýrarhúsaskóla í þeirri von að foreldrar hafi farið yfir þær með börnum sínum Skólareglurnar eiga að endurspegla þann skólaanda sem við viljum að hér ríki og vonum við að allir aðilar skólasamfélagsins leggi sig fram um að svo megi verða.
Í því sambandi viljum við biðja foreldra um að vera jákvæða gagnvart vinahópastarfi bekkjanna en það starf höfum við séð að skilar sér í bættum samskiptum nemenda.

DAGUR ÍSLENSKRAR TUNGU

Fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar 6. nóvember hefur verið markaður sem dagur íslenskrar tungu. Kennarar nýta það tækifæri til þess að leggja sérstaka rækt við einn þátt móðurmálsins sem er vandaður upplestur og framburður. Allir nemendur skólans munu því vinna á margvíslegan hátt með móðurmálið og má auk upplestrar nefna sem dæmi: Lestrarspretti, smásagnasamkeppni og ljóðagerð. Degi stærðfræðinnar voru gerð góð skil í skólanum og fengust nemendur af því tilefni við ýmis nýstárleg verkefni.

ÖRYGGISMÁL

Nokkur blaðaskrif urðu í tilefni af því er handrið sem börn voru að riðlast á gaf sig. Sem betur fer urðu engin slys en engu að síður varð okkur nokkuð um þetta atvik.
Foreldrum til upplýsingar, skal þess getið að allir starfsmenn skólans sem eru á útivakt eru sér meðvitaðir um að eftirlitshlutverk þeirra felst jafnframt í því að fylgjast með og láta vita af skemmdum eða sliti sem verður á leiktækjum. Sömuleiðis yfirfer umsjónarmaður húsnæðis öll leiktæki reglulega. Í annan stað tekur heilbrigðisfulltrúi út bæði húsnæði og lóð á tveggja ára fresti.
Fyrir tveimur árum kom Herdís Storgaard slysafulltrúi barna hingað fyrir atbeina Slysavarnarfélagsins og gerði úttekt bæði innan skólans og utan og var boðið í framhaldi af því í heimsókn til þess að skoða þær endurbætur sem gerðar voru í samræmi við ábendingar hennar.
Allt starfsfólk skólans fékk námskeið í slysavörnum barna og skyndihjálp fyrir tveimur árum og laugardaginn 21. okt. var haldið hér annað slíkt námskeið fyrir nýja starfsmenn.
Vonum við að foreldrar skilji að þó aldrei sé hægt að fyrirbyggja öll slys, reynum við að uppfylla öll öryggisatriði sem við mögulega getum.

FÉLAGS- OG TÓMSTUNDASTARF

Félagsstarfið í samvinnu við Selið og undir stjórn Fanneyjar Rúnarsdóttur er nú farið af stað og er þar boðið upp á fjölmörg námskeið í samvinnu við Selið.

Þar sem einn tónmenntakennari skólans, Nanna Hlíf er í námsleyfi deilist kennsla hennar á þær Guðbjörgu og Sigríði. Það þurfti því að leita til Seltjarnarneskirkju um kórstarf og verður vonandi Barnakór Seltjarnarness stofnaður þann 31. október.

Fyrir hönd alls starfsfólks og með kveðjum.