Skólinn
Eldri fréttabréf

Fréttabréf Mýrarhúsaskóla, desember 2001

Fréttabréf skólans í desember 2001 print E-mail

Jólaundirbúningur

Jólaundirbúningur er í fullum gangi þessa dagana og dagskrá síðustu viku skólaársins komin í fastar skorður.
Kennt verður samkvæmt stundaskrá á mánudag, þriðjudag og miðvikudag en búast má við að starfið þessa daga mótist nokkuð af þeim jólaskemmtunum sem framundan eru.

Á miðvikudag fara allir bekkir í heimsókn í Seltjarnarneskirkju.
Þann dag mega nemendur koma með gos (1/2 l mest) og smákökur í skólann, þó ekki sælgæti.

Fimmtudaginn 20. des. verða jólaskemmtanir sem hér segir:
1. og 2. bekkur kl. 10:00 – 11:30,
3. – 4. bekkur kl. 12:00 – 13:30 og
5. og 6. bekkur kl. 14:00 – 15:30.

Nemendur mæti spariklæddir í sal skólans. Að skemmtunum loknum eru nemendur komnir í jólafrí.

Skólastarf hefst svo aftur föstudaginn 4. janúar. Þann 3. janúar er starfsdagur kennara í skólanum.

Niðurstaða samræmdra prófa

Nýlega bárust skólanum niðurstöður úr samræmdum prófum í 4. bekk.

Niðurstöður prófanna hjá okkur hér í Mýrarhúsaskóla eru heldur lakari en síðastliðin ár og geta ýmsar ástæður legið þar að baki. Þessar niðurstöður munum við skoða nánar.

Um árganginn í heild má segja að þetta eru einstaklega ljúfir, kurteisir og jafngóðir nemendur sem við væntum að eigi eftir að spjara sig vel í lífinu.
Af þessu tilefni skal minnt á hlutverk og markmið skóla eins og það kemur fram í almennum hluta Aðalnámskrár frá 1999 en þar segir á bls. 14:
Í grunnskólanum skal unnið að því í samvinnu við heimilin að búa nemendur undir líf og starf. Frumábyrgðin á uppeldi og menntun hvílir á foreldrum. Hlutur grunnskólans felst einkum í því að sjá nemendum fyrir formlegri fræðslu og taka þátt í félagslegri mótun þeirra.

Ný söfnun fyrir vinaskólann okkar í Malawi

Nú eru liðin næstum tvö ár frá því við söfnuðum skóladóti fyrir vinaskóla Mýrarhúsaskóla við Apaflóa í Malawi.

Nemendur Mýrarhúsaskóla brugðust vel við og sendu á milli 40 og 50 kassa af skólavörum til Malawi.
Af viðbrögðum sem við höfum fengið, vitum við að allt sem sent var kom í góðar þarfir og síðastliðið sumar sendu nemendur og kennarar Malawi skólans okkur fjölda handunnina muna í þakklætisskyni og hafa þeir verið til sýnis á gangi skólans.

Þróunarsamvinnustofun Íslands hefur byggt heilsugæslustöð í nágrenni skólans og sendir gám með vörum í stöðina í lok janúar nk. og getur söfnunardót frá okkur fengið að fljóta með án þess við berum af því nokkurn kostnað.

Við höfum ákveðið að safna aftur skóladóti, en þar að auki leikföngum og skóm. Þá vitum við að það vantar reiðhjól, til þess að bæði kennarar og nemendur geti sinnt ýmsum erindum.

Við höfum sama hátt á og síðast, pappakassar verða í kennslustofum fyrir þá muni sem nemendur koma með.

Söfnunin hefst stax í skólabyrjun 2002 og stendur til loka janúar.
Þeir sem vilja gefa reiðhjól, eru beðnir um að hafa samband við skólann.

Það sem við leitum helst eftir er:
Pappír, stílabækur, blýantar, pennar, strokleður, yddarar, litir, pennaveski, skólatöskur, möppur, boltar, sippubönd og önnur heilleg leikföng.
Þá biðjum við um nothæfa skó af öllum stærðum og gerðum, auk reiðhjóla.

Við viljum gjarnan láta ykkur vita strax af þessarri fyrirhuguðu söfnun, þannig að hlutum sem koma að notum í Malawi verði ekki hent í jólatiltektinni.

Dagur íslenskrar tungu

Þann 16. nóvember er dagur íslenskrar tungu. Þá er heiðruð minning Jónasar Hallgrímssonar og er óhætt að fullyrða að engir geri það betur en kennarar og nemendur í grunnskólum um land allt.

Nemendur 4. bekkja Mýrarhúsaskóla ortu ljóð sem þau fluttu í salnum og verðlaun voru veitt fyrir bestu ljóðin.
Í 5. og 6. bekkjum fór fram smásagnasamkeppni. Tvær bestu sögurnar úr hverjum bekk hlutu viðurkenningar en að auki hlaut sú besta úr hvorum árgangi verðlaun.

Verðlaunasöguna ásamt fleira efni að finna á heimasíðu skólans.

Leiksýning

Allir nemendur 1.- 4. bekkjar fóru á leiksýninguna Skuggaleikhús Ófelíu í boði skólanefndar.

Var það hin besta skemmtun og kunnum við skólanefndinni bestu þakkir fyrir.

Þess má geta að meðal höfunda Ófelíu eru Messíana Tómasdóttir, bæjarlistamaður Seltjarnarness og Lárus Grímsson kennari við Tónlistaskóla Seltjarnarness.

(Fréttabréfið er líka á heimasíðu skólans: www.myrarhusaskoli.is)

Starfslið Mýrarhúsaskóla óskar nemendum skólans og aðstandendum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.

Viðurkenning

Norræna skólahlaupið var haldið á Kjalarnesi fyrir nokkru.

Frá Mýrarhúsaskóla fór fjöldi þátttakenda og hlaut skólinn sérstaka viðurkenningu fyrir bestu þáttöku skólanna í hlaupinu.

Fjórðu bekkingar fengu einnig viðurkenningar, þar unnust sigrar í liðakeppni drengja og stúlkna en lið Mýrarhúsaskóla fengu þar flest heildarstig.

Drengir í 5. bekk unnu sömuleiðist í liðakeppni fimmtu bekkinga.