Skólinn
Eldri fréttabréf

Fréttabréf Mýrarhúsaskóla, október 2001

Fréttabréf skólans í október 2001 print E-mail

Námsefniskynningar

Í byrjun skólaársins voru námsefniskynningar haldnar að venju í heimastofum nemenda. Áður höfðu nemendur haft með sér heim upplýsingar um námsefni vetrarins. Góð þátttaka var af hálfu foreldra í kynningunum og gafst kennurum tækifæri til að svara ýmsum spurningum viðvíkjandi námi og skólastarfi.
Ennfremur kusu foreldrar sér bekkjarfulltrúa og er vetrarstarf foreldrafélagsins þar með komið af stað.

Viðurkenning

Páll Ásgeir Torfason, nemandi í 6.-A fékk nýverið viðurkenningu vegna þátttöku í Nýsköpunarkeppni grunnskóla fyrir göngugrind með sæti sem hann hannaði. Óskum við honum til hamingju með árangurinn.

Ferðir og útivera

Veður hefur verið mjög gott það sem af er haustinu og hefur það gefið tilefni til ferða í nágrenni skólans. Verkefni hafa verið unnin í tengslum við fjöruferðir, ferðir í Gróttu og á Valhúsahæð og hefur það gefið góða tilbreytingu í skólastarfið.

Í tengslum við sögunám hafa allir sjöttu bekkir farið á söguslóðir í Reykholtsdal.

Einn sjötti bekkur hefur verið úti í Gróttu yfir nótt en þar er mjög góð aðstaða fyrir bekk til gistingar.
Ferð fyrir næsta hóp hefur verið ákveðin. Þessar næturgistingar eru að frumkvæði foreldra og hafa gengið ljómandi vel.

Gönguferðir með nemendum hafa orðið starfsfólki tilefni til umræðu um bágt úthald margra barna. Við viljum því eindregið styðja átakið "Börnin gangi í skólann" bæði út frá sjónarmiði hreyfingar og útiveru sem og þeirri staðreynd að akstur foreldra með börn í skólann skapar mestu umferðarógnina fyrir börnin.
Telji foreldrar samt nauðsynlegt að aka þeim, má benda á að það er stax betra að aka þeim aðeins áleiðis. Foreldrum skal bent á að setja börnin úr bíl, t.d. við íþróttahús eða aðra staði þar sem gönguleiðir eru öruggar.

Sending frá Apaflóa í Malaví

Nýverið barst Mýrarhúsaskóla sending frá Namazizi-barnaskólanum við Apaflóa.
Þar eru skólanum færðar þakkir fyrir allt það sem sent var héðan á sínum tíma og ljóst af bréfunum sem fylgja sendingunni að hún hefur sannarlega komið í góðar þarfir. Bækur, möppur, blöð, skriffæri og litir hefðu leyst mörg vandamál hjá þeim og hefðu orðið til þess að gefa kennurum og nemendum aukna og meiri möguleika.

Möguleikar barna í Namazizi-skóla og barna í Mýrarhúsaskóla eru varla sambærilegir. Í skólanum við Apaflóa er ekkert rafmagn og þar með hafa kennarar afar fá hjálpartæki til að styðjast við. (Skólastjórinn afsakar að bréfin frá þeim séu handskrifuð en þau hafi engar ritvélar eða ljósritunarvélar.)

Í bréfi sem kennari fimmtu bekkinga skrifar kemur fram að mörg börn hafi horfið frá námi þar sem þau eigi ekki föt til að vera í. Próf eru haldin í júlímánuði og eru það aðeins þau börn sem ná háum einkunnum sem hafa möguleika á að halda áfram í öðrum skólum.

Gjafir kennara og nemenda Namazizi skóla til Mýrarhúsaskóla eru margar og fjölbreytilegar. Myndir barna og ýmsir handgerðir munir voru sendir skólanum og eru þeir til sýnis á 2. hæð skólahússins. Auk teikninga nemenda má sjá þar útskorin dýr og fugla og hvers kyns hatta og mottur. Fólk er hvatt til að skoða munina hér í skólanum eða á myndum sem er að finna á heimasíðu skólans: http://www.myrarhusaskoli.is/gjafirmalavi.htm

Hlaupahjól, hjólabretti o.fl.

Nauðsynlegt er að minna á að hlaupahjól og hjólabretti eru, líkt og línuskautar, ekki leyfileg í skólanum eða á lóð skólans.

Ennfremur má minna á að við mælum ekki með því að börn komi hjólandi í skólann eftir 15. október. Myrkur vex með hverjum degi og því brýnt að börn hafi endurskinsmerki á útifatnaði sínum.

Grunnskóli er skyldunám

Af gefnu tilefni skal á það minnt að grunnskólanám er skyldunám. Kennarar geta gefið nemendum sínum leyfi í einn dag ef því er að skipta en lengri leyfi þarf að sækja um skriflega til skólastjórnenda.

Við hörmum vissulega að sá tími sem börnum er boðinn til íþróttaiðkunar skuli skarast við skólatíma og vonum að slíkt endurtaki sig ekki. Við erum öll af vilja gerð til að leysa þetta núna en bendum foreldum á að af því hlýst veruleg truflun þegar nemendur eru að fara út úr kennslustundum í hópum. Sé það ósk foreldra að nemendur fari úr kennslu ber að tilkynna það skriflega á skrifstofu skólans.

Heimsóknir 1. bekkinga í leikskólana

Næstu daga eru fyrirhugaðar heimsóknir fyrstu bekkinga í leikskólana Mánabrekku og Sólbrekku hér á Seltjarnarnesi. Er þetta gert m.a. til þess að treysta samvinnu þessara tveggja skólastiga. Má vænta þess að fyrstu bekkingar hafi talsverðri lífsreynslu að miðla fyrrum félögum í þessum skólum.

Dagur stærðfræðinnar

Þann 27. september sl. var dagur stærðfræðinnar. Í tilefni dagsins glímdu nemendur á öllum aldursstigum við margvísleg verkefni tengdum stærðfræði. Má þar meðal annars nefna ýmis mælingaverkefni sem unnin voru bæði úti og inni, veggspjaldavinnu út frá tölum, myndavinnu með stærðfræðiformum o. fl. mætti nefna. Árangur dagsins má sjá bæði á veggjum í stofum og frammi á göngum.

Foreldraviðtöl Foreldraviðtöl með þátttöku nemenda verða haldin þann 10. október nk. Gert er ráð fyrir að viðtölin hefjist klukkan átta um morguninn og að þau standi fram eftir degi. Áætlaður tími fyrir barn og foreldri með kennara er 10-15 mínútur og verða foreldrar boðaðir skriflega. Farið verður yfir það hvernig skólastarf hefur farið af stað og hvernig starfið er áætlað á næstu vikum og mánuðum.

Gott tímarit um uppeldismál

Við viljum leyfa okkur að vekja athygli foreldra á tímaritinu UPPELDI, tímariti um börn og fleira fólk sem okkur þykir einstaklega gott. Að þessu sinni fylgir blaðinu viðauki sem heitir: "Að byrja í skóla".

Netfang tímaritsins er: > uppeldi@uppeldi.is

Norræna skólahlaupið

Föstudaginn 12. okt. fer fram hið árlega skólahlaup og verður að þessu sinni á Varmárvelli í Mosfellsbæ. Hlaupið hefst kl. 14:00 og þurfa þátttakendur að fara frá skólanum með rútum kl. 12:30. Okkur langar að mæta með myndarlegan hóp og að sjálfsögðu helst að vinna mótið! Þátttakendur verða fyrst og fremst úr 4. 5. og 6. bekkjum og mun íþróttakennari velja þá. Fjórðu og fimmtu bekkir keppa í 400 metra hlaupi og sjöttu bekkingar í 800 metra hlaupi. Veittir verða verðlaunapeningar fyrir fyrsta, annað og þriðja sæti og allir þátttakendur fá viðurkenningarskjal. Gott væri ef einhverjir foreldrar sæju sér fært að koma með hópnum og eru þeir sem það geta beðnir > um að láta vita af sér í íþróttahúsinu í síma: 562-1551