Ágætu foreldrar
Með þessu fréttabréfi viljum við minna á að senn hefst skólastarf að afloknu sumarleyfi. Einnig viljum við gera grein fyrir nokkrum helstu breytingum sem fyrirséðar eru á nýju skólaári. Þar ber fyrst að telja að Marteinn M. Jóhannsson, aðstoðarskólastjóri verður í 6 mánaða námsleyfi og mun Ólína Thoroddsen kennari leysa hann af á meðan.
|
Námsefniskynningar
Námsefniskynningar þar sem umsjónarkennarar kynna foreldrum fyrirhugað starf skólaársins og fara yfir bekkjarnámskrár, eru fastir liðir í viðleitni skólans til að minna foreldra á mikilvægi ábyrgrar þátttöku í námi barna sinna. Námsefniskynningarnar hafa alla jafna verið vel sóttar af foreldrum. Þær fara fram á skólatíma nemenda og er skólaskjólið opið öllum nemendum meðan á kynningum stendur.
Í ár verða námsefniskynningar sem hér segir:
6. bekkur miðvikud. 5. sept. kl. 8:20
5. bekkur fimmtud. 6. sept. kl. 8:20
4. bekkur föstud. 7. sept. kl. 8:20 3. bekkur mánud. 10. sept. kl. 9:00
2. bekkur þriðjud. 11. sept. kl. 9:00
Foreldar nemenda í 1. bekk munu fá námsefniskynningu á foreldra-námskeiðinu sem hefst þriðju-daginn 4. september og verður framhaldið miðvikudaginn 12. september. Námskeiðið verður auglýst sérstaklega með bréfi til viðkomandi foreldra.
|
Skólabyrjun
Undirbúningur skólastarfs er nú þegar í fullum gangi og munu kennarar verða hér á námskeiði og vinnu frá og með 20. ágúst. Nemendur mæta föstudaginn 24. ágúst sem hér segir: 6. bekkir kl. 9 : 00 5. bekkir kl. 9 : 30 4. bekkir kl. 10 : 30 3. bekkir kl. 11 : 00 2. bekkir kl. 13 : 00 Á fyrrgreindum tímum eiga nemendur að mæta í sal skólans þar sem skólastjóri tekur á móti þeim og fara þeir síðan ásamt kennurum til kennslustofu sinna.
Þar verða þeim afhentar stundaskrár og listi yfir þau gögn sem þeim er ætlað að kaupa. Gögnin geta nemendur síðan keypt í skólanum næstu daga eða í versluninni Hugföng á Eiðistorgi.
Kennsla hefst samkvæmt stunda-skrá mánudaginn 27. ágúst. Að sjálfsögðu munum við nýta gott veður ef gefst á haustdögum til útiveru og styttri vettvangsferða um nágrennið.
Nemendur 1. bekkja, ásamt foreldum, verða boðaðir skriflega til viðtals við kennara föstudaginn 24. ágúst.
Skóladagatal
Með síðasta fréttabréfi í vor fylgdi skóladagatal þessa skólaárs sem þið vonandi hafið geymt. Þar kemur fram hvernig skólaárinu verður háttað. Skóladagatalið er að sjálfsögðu ásamt fleiri upplýsingum inni á heimasíðu okkar. Einnig er hægt að nálgast það á skrifstofu skólans.
|
Breyttur skóladagur
Eins og getið var um í fréttabréfi í vor höfum við unnið að breyttu skipulagi á skóladegi nemenda fyrir þetta skólaár. Getið var um að ráðgert væri að allir nemendur byrjuðu á sama tíma í skólanum eða kl. 8 : 20. Þeirri hugmynd var ekki vel tekið af öllum og mæltist foreldraráð til að þessari ráðstöfun yrði frestað um sinn. Það verður því óbreytt að nemendur 1. - 3. bekkja munu áfram byrja skóladaginn kl. 9 : 00. Skóladagur nemenda mun hins vegar lengjast þar sem 20 mínútum var bætt við til að nemendur gætu matast, án þess að kennslutími þeirra yrði skertur. Skóladegi mun því ljúka kl. 14 : 10. Vegna þrengsla í sérgreinastofum þarf enn um sinn í nokkrum tilvikum að kenna í hádegi.
Nýtt starfsfólk
Við erum ánægð að geta sagt ykkur frá því að vel gekk að ráða í stöður umsjónarkennara hér fyrir þetta skólaár. Okkur tókst ekki, þrátt fyrir mikla leit að finna heimilisfræðikennara og mun kennsla í þeirri grein því falla niður á þessu skólaári. Sömuleiðis fékkst ekki smíðakennari fyrir eldri nemendur og verður áhersla lögð á upplýsingatækni hjá þeim í staðinn. Ásta Gísladóttir mun hins vegar kenna yngri bekkjum smíði. Nýir kennarar sem við bjóðum velkomna til starfa hjá okkur eru: Erlingur Már Karlsson, Mínerva Alfreðsdóttir og Júliana Gústafs-dóttur sem munu kenna íþróttir. Mun hún einnig verða með umsjón í 5.D en ekki Irena Kojic, eins og ráðgert hafði verið. Irena mun kenna bekknum á móti Júlíönu en verða aðallega í sérkennslu og kennslu nýbúa. Árni Árnason verður umsjónarkennari í 5. B, Kolbrún Þormóðsdóttir í 4. A og Steinunn Sigurþórsdóttir í 2. C.
Skólaskjól
Kristín Kristinsdóttir kennari kemur til okkar aftur úr Valhúsaskóla og mun taka við forstöðu í skólaskjóli af Svanhvíti Guðjónsdóttur. Með kveðjum frá starfsfólki skólans og von um gott samstarf á komandi skólaári.
Skólastjóri
|