Skólinn
Eldri fréttabréf

Fréttabréf Mýrarhúsaskóla, maí 2001

Fréttabréf skólans í maí 2001 print E-mail

Ágætu foreldrar
Þá er senn komið að lokum
þessa skólaárs og er þetta því
síðasta fréttabréfið sem við
sendum
ykkur heim að sinni.

Breyttur skóladagur

Verið er að vinna að breyttu skipulagi á skóladegi nemenda næsta skólaár. Nánar verður greint frá þessum breytingum í haust þegar öll kurl verða komin til grafar. Engu að síður finnst okkur rétt að undirbúa forelda strax með það að við ráðgerum að allir nemendur byrji á sama tíma í skólanum eða kl. 8 : 20 næsta skólaár.

Gjöf frá foreldrum

Skólanum hafa borist veglegar gjafir frá foreldrafélagi Mýrarhúsa-skóla : Stórt rafknúið sýningartjald í salinn, fartölva og peningagjöf til kaupa á nýjum leirbrennsluofni. Fyrir þessar gjafir erum við að sjálfsögðu afar þakklát og viljum koma því hér með á framfæri.

Breytt röðun í bekki

Eins og öllum er kunnugt er gunnskólanum ætlað að veita nemendum undirbúning fyrir lífið, auk þess sem grunnskólanám er stór hluti af sjálfu lífi barnanna, meðan á því stendur. Sveigjanleiki, aðlög-unarhæfni og færni í félagslegum samskiptum eru meðal þeirra mikilvægu mannkosta sem við viljum hlúa að hjá nemendum okkar. Á allt þetta reynir þegar út í lífið er komið. Þar af leiðandi viljum við leggja mikla áherslu á þessa þætti í skólastarfinu. Víða erlendis er nemendum endurraðað í bekki á hverju ári, þannig að þau kynnist fleiri einstaklingum og til þess að forðast klíkumyndanir. Hjá okkur er engin hefð fyrir þessu fyrr en nemendurnir flytjast yfir í Valhúsaskóla. Nú höfum við ákveðið að mynda nýjar bekkjar-deildir í verðandi 5. bekkjum og hafa nemendur farið heim með nýja bekkjarlista. Langflestir foreldrar hafa tekið þessari viðleitni okkar afar vel. Nokkrir hafa komið með gagnlegar ábendingar en sumir foreldrar eru að vonum kvíðnir. Við erum sannfærð um að þessar breytingar verði til góðs og væntum þess að geta skapað með þessum hætti jákvæðara og uppbyggilegra námsumhverfi og betri bekkjar-anda. Í þessu máli sem og öðru sem að okkur snýr, veltur mikið á jákvæðum stuðningi foreldra, hvernig til tekst. Börnin verða í kennslustofum hlið við hlið, hafa sameiginlegar frímínútur, búa skammt frá hvert öðru og hafa því alla möguleika á að viðhalda góðum vináttutengslum.

Vordagar

Ýmsar breytingar eru gjarnan gerðar á skólastarfinu síðustu daga skólaársins, bæði til tilbreytingar og til þess að njóta veðurblíðu. Foreldrar eru því beðnir að veita eftirfarandi atriðum sérstaka athygli. Minnt er á að föstudagurinn 25. maí er skipulagsdagur og er því enginn kennsla þann dag. Mánudaginn 28. maí mæta 6. bekkingar kl. 8:20 en aðrir kl. 9: 00. Þriðjudaginn 29. maí mæta allir nemendur kl. 9 : 00 þar sem farið verður í vettvangsferðir. Nemendur þurfa að koma klæddir eftir veðri og hafa með nesti. Miðvikudaginn 30. maí er mæting einnig kl. 9: 00. Sá dagur er að mestu skipulagður af foreldrafélagi og endar með leikjum og grilli. Því þurfa nemendur tæplega nesti þann dag. Allir foreldrar eru að sjálfsögðu velkomnir að slást í hópinn með nemendum: 1.-3.
bekkja kl. 10 :20 úti við Bakkavör. Foreldrar 4. - 6. bekkinga geta komið á leiksvæðið við Vallarbraut, einnig kl. 10 : 20. Skólaslit verða fimmtudaginn 31. maí. Þá mæta nemendur í 1. - 3. bekk kl. 9: 30 og 4. og 5. bekkir kl. 10 : 00. Verður þá örstutt athöfn í salnum. Síðan fara nemendur í kennslustofur, fá umsagnir og einkunnir og kveðja kennara sinn. Útskriftarnemendur (6. bekkingar) mæta í salinn kl. 14 : 00 til útskriftarathafnar og eru foreldrar að sjálfsögðu velkomnir.

Skólabyrjun í haust

Með þessu bréfi fylgir skóladagatal næsta skólaárs sem þið að sjálfsögðu geymið. Þar kemur m.a. fram að nemendur mæta til skólasetningar föstudaginn 24. ágúst. Þá mæta þau á mismunandi tímum sem auglýstir verða í Morgunblaðinu sunnu-daginn 19. ágúst. Um leið og við óskum öllum góðs sumarfrís vonum við að öllum fjölskyldum gefist kostur á að njóta rólegra samverustunda saman. Við kveðjum með verðlaunaljóði eins nemanda skólans en ljóðið birtist í ljóðabókinni Vetur, sumar, vor og haust. Óskum við Sunnu Maríu innilega til hamingju með árangurinn og minnum á í leiðinni að að loknu hverju sumri kemur nýtt haust og nýtt skólaár !

HAUST

Laufin þeytast um heima og geyma.
Það er komið haust.
Golan fýkur, trén rugga alveg endalaust.
Margra metra öldur falla á ströndina svörtu.
Það er komið haust
Það er komið haust

Sunna María Helgadóttir
9 ára

Með sumarkveðjum frá starfsfólki skólans. Skólastjóri