Skólinn
Eldri fréttabréf

Fréttabréf Mýrarhúsaskóla, febrúar 2001

Fréttabréf skólans í febrúar 2001 print E-mail

Ágætu foreldrar


Við viljum í upphafi þessa fréttabréfs þakka foreldrum fyrir góða mætingu í foreldraviðtölin, en nú hafa væntanlega allir lokið við að hitta kennara barna sinna. Við minnum á að öskudagurinn er frídagur nemenda þar sem kennarar eru að skipuleggja skólastarfið. Foreldrafélagið mun að venju gangast fyrir skemmtun og grímuballi og verður það auglýst síðar. Að kvöldi öskudags, kl. 20:00 mun Guðjón Ólafsson, sérkennslu-fræðingur verða með erindi fyrir foreldra um einelti. Fundurinn verður í sal skólans

Á þessum árstíma er alltaf nokkuð um veikindi og höfum við í nokkrum tilvikum þurft að senda veika nemendur heim á miðjum degi. Yfirleitt bregðast foreldrar mjög vel við þeim óskum að sækja börn sín enda er ekki farið fram á slíkt nema brýna nauðsyn beri til. Nú getum við leyft okkur að fagna því að kjarasamningar kennara eru í höfn. Á aðalfundi foreldraráðs var örlítið komið inn á þær kerfisbreytingar sem samið var um og þá aðallega möguleikana sem nú opnast á vetrarfríum. Á hverju ári er sótt um leyfi fyrir fjölda nemenda til þess að fara með foreldrum sínum í frí og geta þá foreldrar skipulagt þær ferðir í vetrarfríi skólanna á næsta ári. Við munum innan tíðar kynna foreldraráði hugmyndir okkar, en umræða er þegar hafin meðal kennara um þessi mál og liggur fyrir tillaga frá skólastjórn um fjögurra daga vetrarleyfi í lok október. Eins og foreldrar hafa væntanlega áttað sig á bætast nú 10 skóladagar við skólaár nemenda sem munu falla bæði á ágúst- og júnímánuð. Hér er því um töluverðar breytingar að ræða. Foreldrum verður sent skóladagatal næsta skólaárs heim um leið og það liggur fyrir.

GÓÐIR GESTIR

Í tengslum við vinnu okkar við skólanámskrá í lífsleikni kom Erla Kristjánsdóttir, lektor við KHÍ í heimsókn til okkar og kynnti þessa nýju námsgrein í grunnskólum. Í samræmi við framkvæmdaáætlun okkar gegn einelti og ofbeldi höfum við boðið Ingibjörgu Markúsdóttur, hjúkrunarfræðingi til okkar á starfsdegi. Hún mun fræða starfsfólk um það hvernig við vinnum gegn einelti. Sömuleiðis mun Hafsteinn Karlsson, skólastjóri Selásskóla kynna okkur Skólatorgið og verður nánar sagt frá því næsta bréfi. Í lok febrúar verða kennaranemar hjá okkur í áheyrn og síðan í æfingakennslu í marsmánuði. Mýrarhúsaskóli hefur um árabil verið viðtökuskóli fyrir kennaranema og þykir okkur mikil ánægja að því að fá til okkar ungt fólk með ferska strauma. Nemarnir hafa gjarnan sett svip sinn á skólastarfið með ýmsum hætti á vormisseri. Föstudaginn 2. mars mun Margrét Þórisdóttir tannfræðingur koma til okkar aftur og hitta nemendur 1., 3. og 5.bekkja og spjalla við tvo bekki saman á sal og fræða nemendur um tannvernd og tannhirðu. Við höfum verið með samsöng í salnum á föstudögum eftir áramót okkur öllum til mikillar ánægju. Þar hafa nemendur troðið upp með fjöldasöng, hljóðfæraleik og dansi og stefnum við að því að auka slíkt. Sömuleiðis stefnum við að því að fá til okkar endrum og sinnum góða gesti á þessa föstudagstónleika. Ef einhverjir foreldrar hefðu áhuga á að koma í heimsókn með fróðleik eða listatriði sem ættu erindi inn á þessar samkomur, væri það vel þegið !

MÁLÞING

Foreldraráð og foreldrafélög Mýrarhúsa-skóla og Valhúsaskóla ásamt skóla-stjórnendum og skólanefnd Seltjarnarness gengust fyrir sameiginlegu málþingi um framtíðarsýn í skólamálum. Málþingið var haldið í Félagsheimili Seltjarnarness þriðjudaginn 30. janúar 2001 og var þingið vel sótt. Góður rómur var gerður að erindum frummælenda sem þóttu bæði frumleg og skemmtileg. Einna mesta lukku gerði þó þátttaka nemenda sem lásu upp ljóð sín og sýndu myndverk. Myndir nemenda Mýrarhúsaskóla prýða nú ganga skólans og eru foreldrar hvattir til að gefa sér tíma til að skoða þær betur.

ÞRÓUN INNRA STARFS

Skipulögð upplýsingasöfnun og rannsóknir á frammistöðu og líðan nemenda eru eðlilegur og nauðsynlegur hluti af skólastarfinu. Nú hefur lesskimunarpróf verið lagt fyrir alla nemendur í 1. og 2. bekk og framundan eru tvær aðrar lestrarkannanir í febrúar. Önnur er alþjóðleg könnun sem verður lögð fyrir alla 4. bekkinga á landinu. Hin er samanburðarkönnun á læsi sem gerð er á 10 ára fresti og mun starfsfólk RUM leggja hana fyrir hér. Sömuleiðis verður gerð eineltiskönnun meðal nemenda nú í febrúar. Við höfum fengið sálfræðinema úr Háskóla Íslands sem heitir Anna Þóra Kristinsdóttir til liðs við okkur og verður könnunin hluti af BA verkefni hennar. Nú eru að fara af stað starfshópar meðal kennara sem munu halda áfram vinnu við að aðlaga skólanámskrá Mýrarhúsaskóla að nýrri Aðalnámskrá. Á vormisseri munum við taka fyrir námsgreinarnar náttúrufræði og lífsleikni.

SAMSKIPTI

Þegar nemendur koma saman til samsöngs notum við tækifærið til þess að ýta undir samkennd meðal þeirra og minnum þau stöðugt á að þau eru skólasystkini. Í því sambandi langar okkur að biðja ykkur um að fylgjast með og vera vakandi fyrir því hvernig umræða barnanna er um bekkjarsystkinin. Hér fer á eftir brot úr bréfi eins kennara skólans, Rannveigar Oddsdóttur til foreldra :Mig langar líka að biðja ykkur að vera vakandi fyrir því hvernig umræðan um bekkjarsystkini barnanna er innan heimilanna. Ef þið verðið vör við að börnin ykkar (og ef til vill bekkjarsystkini sem eru í heimsókn) tala illa um skólasyst-kini sín verðið þið að gæta þess að taka ekki undir slíkt baktal með þeim, heldur reyna að komast að því hvað býr að baki slíku umtali og ræða málin við börnin. Okkur getur líkað misvel við fólk og við þurfum ekki að vera nánir vinir allra. En það þýðir samt ekki að við megum koma illa fram við viðkomandi, stríða honum og meiða eða jafnvel skemma möguleika hans á að eignast vini. Við höfum öll jafnan rétt á að láta okkur líða vel innan hópsins. Ef börnin tala um að einhverjir séu að stríða og jafnvel meiða verðum við fullorðna fólkið líka að passa okkur á því að dæma þá ekki sem vond börn. Á bak við slíka hegðun býr einhver skýring og þó hún afsaki ekki slæma hegðun verðum við samt að taka tillit til hennar. Við verðum því að reyna að útskýra það fyrir börnunum að viðkomandi barn geri þetta ekki vegna þess að hann/hún sé slæmur, heldur fyrir tilstilli tilfinninga eins og reiði, kvíða eða hræðslu eða vegna þess að hann/hún kunni ekki reglurnar eða eigi erfiðara með að hafa stjórn á sér en aðrir.

Með kveðju frá starfsfólki skólans Skólastjóri