Skólinn
Eldri fréttabréf

Fréttabréf Mýrarhúsaskóla, nóvember 2002

Fréttabréf skólans í nóvember 2002 print E-mail

Ágætu foreldrar


Nú styttist í aðventuna, jólaundirbúning og spennuna sem honum fylgir. Í desembermánuði leggjum við sem fyrr áherslu á kyrrð og rólegt yfirbragð til að sporna gegn þeim hraða og streitu sem oft vill fylgja undirbúningi jólanna. Engu að síður gerum við ýmislegt til hátíðabrigða og finnum því stað á síðustu dögunum fyrir jólafrí.

Brunaæfing
Föstudaginn 15. nóv. var haldin brunaæfing í skólanum. Afar vel tókst til og spillti ekki fyrir hve veðrið var gott. Æfing sem þessi er fastur liður í skólastarfinu og miðar að því að skapa aukið öryggi nemenda og starfsfólks ef til þess kæmi að rýma þyrfti skólann í flýti.

Farið er yfir rýmingaráætlanir og rifjað upp hvernig við þurfum að bera okkur að, ef vá ber að höndum. Slökkviliðið kemur svo í sína árlegu heimsókn til 3. bekkinga þriðjudaginn 26. nóv. Þess má geta að starfsfólki er einnig boðið reglulega upp á fræðslu um skyndihjálp og verður næst haldið slíkt námskeið 3. janúar.
Skólaskjólið mun því taka til starfa 6. janúar um leið og skóli hefst að afloknu jólaleyfi.

Dagur íslenskrar tungu
Þar sem fæðingardag Jónasar Hallgrímssonar bar að þessu sinni upp á laugardag var dagurinn haldinn hátíðlegur í skólanum föstudaginn 15. nóv.

Í 5. og 6. bekkjum var lestrarsprettur þar sem nemendur kepptust við að lesa sem mest á einni viku.

Þá var smásagnasamkeppni hjá 5. bekkingum og fengu átta nemendur, tveir úr hverri bekkjardeild viðurkenningu og einn nemandi, Sverrir Örn Pálsson fékk bókarverðlaun fyrir söguna sína Traustur vinur.

Verður hægt að lesa þessa sögu og fleiri á heimasíðu skólans.

Í 6. bekk fór fram ljóðasamkeppni og bárust mörg skemmtileg ljóð.
Ljóð eftir Júlíus Þóri Stefánsson var valið besta ljóðið í ár.
Hann fékk að launum ljóðabók eftir Þórarin Eldjárn, Óðfluga. Ljóðið heitir Sorg og gleði og er birt hér í fréttabréfinu.

Sorg og gleði

Ég er stundum glaður
og stundum sorgmæddur.
Þegar ég er glaður þá líður mér vel.
Þegar ég er sorgmæddur þá líður mér illa.
Þegar ég er glaður þá hef ég gert eitthvað sem mér finnst skemmtilegt
Þegar ég er sorgmæddur Þá hef ég gert eitthvað sem mér finnst ekki gaman. Þegar ég er sorgmæddur þá hef ég sært aðra sem eru nálægt mér eins og foreldra mína vini mína eða dýrin mín.
Þegar ég er glaður þá hef ég gert eitthvað gott við dýrin mín eða vini mína og ekki sært einhvern sem er við,
mig eða einhvern sem ég þekki.

Júlíus Þórir Stefánsson

Samræmd próf
Niðurstöður samræmdra prófa hafa nú borist og erum við að vonum ánægð með frammistöðuna.
Normaldreifðar einkunnir í íslensku og stærðfræði eru 5,3.

Það er ánægjulegt að geta sagt frá því að tveir drengir, þeir Björn Orri Sæmundsson og Bergur Þórisson fengu 10 í stærðfræði og er þeim og foreldrum þeirra óskað til hamingju með þessa frábæru frammistöðu.

Sömuleiðis erum við afar stolt af sjöunda bekknum sem fékk 5,8 í stærðfræði og 6,2 í íslensku. Þessi árgangur var með 5,6 í báðum greinum á samræmdu prófum fjórða bekkjar og sýnir því niðurstaðan nú að nemendur hafa tekið verulegum framförum frá því að þau próf voru tekin.
Það er einmitt ein af ástæðum þess að samræmd próf eru lögð fyrir að kennarar fái þannig vísbendingar og leiðsögn um kennslu. Við munum nú skoða niðurstöðurnar betur á næstu dögum og grípa til viðeigandi ráðstafana þar sem þörf krefur. Frekari upplýsingar um tilgang samræmdra prófa og niðurstöður þeirra má finna á heimasíðu námsmatsstofnunar namsmat.is.

Heimsókn í Mjólkursamsöluna Fimmtudaginn 7. nóv. fóru allir fjórðubekkingar skólans í heimsókn í Mjólkursamsöluna. Þar tók á móti þeim hópur fólks sem leiddi þau um staðinn og skýrði fyrir þeim vinnsluferlið.

Þar var líka töframaður sem útskýrði hegðun bakteria í mjólkinni. Börnin tóku mjög vel eftir og komu fram af prúðmennsku.

Eftir skoðunarferðina var þeim boðin hressing, sem þegin var með þökkum. Að lokum voru allir leystir út með gjöfum, fræðsluefni um mjólk og húfum.

 

 

 

 

 

Heimsókn í Borgarleikhúsið Miðvikudaginn 20. nóvember sl. var nemendum 4. bekkja boðið í Borgarleikhúsið.
Sú heimsókn var liður í fræðslustarfi sem leikhúsið stendur fyrir meðal grunnskólabarna.
Í fylgd leikhúsvarðar fóru þau um allt leikhúsið, hittu fyrir leikstjóra, leikara, förðunarmeistara o.fl.

Börnin hlustuðu vel og tóku vel eftir öllu sem fyrir augu bar. Þetta var einstakt tækifæri til að kynnast hinum fjölmörgu þáttum leikhússins. Það er ekki á hverjum degi sem hægt er t.d. að skyggnast bakvið stóra leiksviðið, skoða leikmuni, förðunardót og hárkollur, glæsileg föt leikaranna, kynnast hlutverki tæknimanna með ljósabúnað og hljóðáhrif, svo eitthvað sé nefnt.

Heimsóknin endaði á því að börnin fengu að sjá leikrit á Nýja sviðinu, sem var sérstaklega sett upp fyrir þessar heimsóknir og sátu nemendur þar og nutu þess að horfa á frábæran leik. Segja má að þessi ferð hafi heppnast einstaklega vel og var ákaflega vel tekið á móti börnunum okkar.

Börnin voru öll mjög stillt og prúð og skólanum okkar til sóma.

Heimsókn frá Borgarleikhúsinu
Felix Bergsson kom í heimsókn og kynnti fyrir 6, 7 og 8 ára nemendum gamansöngleikinn Honk! Ljóti andarunginn.

Söngleikurinn er sem kunnugt er byggður á einu þekktasta ævintýri heims, Ljóta andarunganum eftir H.C. Andersen. Leikarinn reyndi að opna augu nemenda fyrir afleiðingum eineltis og hvað það er að vera öðruvísi. Af hverju er ekki gott að vera öðruvísi og hvað það er að vera öðruvísi o.s.fr.

Leikaranum var vel tekið og lagði hann góðan grunn að áframhaldandi umræðu um samskipti framkomu og hegðun.

Kær kveðja, starfsfólk Mýrarhúsaskóla