Skólinn
Eldri fréttabréf

Fréttabréf Mýrarhúsaskóla, ágúst 2002

Fréttabréf skólans í ágúst 2002 print E-mail

Ágætu foreldrar!

Með þessu fréttabréfi viljum við minna á að senn hefst skólastarf að afloknu sumarleyfi. Einnig viljum við gera grein fyrir nokkrum atriðum sem snerta foreldra í upphafi skólaárs.

SKÓLABYRJUN

Undirbúningur skólastarfs er nú þegar í fullum gangi og munu kennarar verða hér á námskeiðum og við undirbúningsvinnu frá og með 15. ágúst.

Nemendur eiga að mæta miðviku-daginn 21. ágúst sem hér segir:
6. bekkir kl. 9 : 00
5. bekkir kl. 9 : 30
4. bekkir kl. 10 : 30
3. bekkir kl. 11 : 00
2. bekkir kl. 13 : 00

Nemendur 1. bekkja, ásamt foreldum, verða boðaðir skriflega til viðtals við kennara í kennslustofum sama dag, 21. ágúst.

Breyttur skóladagur
Eins og getið var um í fréttabréfi í vor verður breyting á upphafi skóladags yngri nemenda.

Allir nemendur skólans munu nú byrja
á sama tíma á morgnana eða kl. 8 : 20
.

Skóladegi nemenda í 1. til og með 3. bekkjum mun ljúka kl. 13 : 30 og tekur þá Skólaskjólið eða íþróttastarf við eftir atvikum.
Við höfum einnig ákveðið að bjóða þeim þriðju bekkingum sem ekki eru í Skólaskjóli upp á aðstoð við heimanám og fá þeir og aðrir sem námsverið stendur til boða tilkynningu um það síðar.

Skóladegi eldri nemenda lýkur eins og verið hefur kl. 14 : 10. Við höfum nokkrar áhyggjur af umferðarálagi umhverfis skólann á morgnana og viljum því eindregið hvetja til þess að sem flest börn gangi í skólann.

Við munum, alla vega í upphafi skólaárs, verða með nokkra gæslu við gangbrautir hér fyrir utan, auk þess sem lögreglan mun að venju fylgjast með umferð og leiðbeina skólabörnum. Eftir sem áður er frumábyrgðin ávallt foreldra og þess vænst að þeir muni fylgja börnum sínum fyrstu dagana eða þar til þeir sjálfir treysta börnunum til að ganga einum.

NÁMSEFNISKYNNINGAR

Námsefniskynningar þar sem umsjónar-kennarar kynna foreldrum fyrirhugað starf skólaársins og fara yfir bekkjarnámskrár, eru fastir liðir í viðleitni skólans til að minna foreldra á mikilvægi ábyrgrar þátttöku í námi barna sinna.

Námsefniskynningarnar hafa alla jafna verið vel sóttar af foreldrum. Þær fara fram á skólatíma nemenda, standa í um tvær kennslustundir og er Skólaskjólið þá opið öllum nemendum á meðan. Í ár verða námsefniskynningar sem hér segir:

6. bekkur mánud. 2. sept. kl. 8:20
5. bekkur þriðjud. 3. sept. kl. 8:20
4. bekkur miðv.d. 4. sept. kl. 8:20
3. bekkur fimmtud. 5. sept. kl. 8:20
2. bekkur föstud. 6. sept. kl. 8:20

Foreldrar nemenda í 1. bekk munu fá námsefniskynningu á foreldra-námskeiðinu sem hefst þriðjudaginn 27. ágúst og verður því framhaldið miðvikudaginn
4. september. Foreldranámskeiðið verður auglýst sérstaklega með bréfi til viðkomandi foreldra.

Okkur er það vel ljóst að margir foreldrar hafa fundið til vanmáttar þegar hefur komið að því að aðstoða börnin í stærðfræðinámi.

Nú eru breyttir tímar og aðrar áherslur sem ný aðalnámskrá setur. Því teljum við nauðsynlegt að standa fyrir sérstakri stærðfræðikynningu fyrir foreldra.

Við höfum því fyrirhugað að bjóða foreldrum fljótlega til fræðslu-fundar síðdegis eða kvöld þar sem þær Edda Óskarsdóttir og Kristín Kristinsdóttir kennarar munu taka að sér að upplýsa foreldra um þessar breytingar.

Þær stöllur hafa sótt sér mikla fræðslu á þessu sviði og eru m.a. nýkomnar frá Danmörku þar sem þær sátu námskeið um stærðfræðikennslu

Aðrir nemendur mæta á fyrrgreindum tímum í sal skólans þar sem skólastjóri tekur á móti þeim og fara þeir síðan ásamt kennurum til kennslustofa sinna.

Þar verða þeim afhentar stundaskrár og listi yfir þau gögn sem þeim er ætlað að kaupa. Gögnin geta nemendur síðan keypt í skólanum næstu daga eða í versluninni Hugföng á Eiðistorgi.

Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá fimmtudaginn 22. ágúst.

Að sjálfsögðu munum við nýta gott veður, ef gefst, á haustdögum til útiveru og styttri vettvangsferða um nágrennið.

Fyrirhugaðar eru nokkrar ferðir út í Gróttu og þurfa börnin því ávallt að vera klædd eftir veðri.

NÝTT STARFSFÓLK

Þrír nýir kennarar, Kirsten Lybæk Vangsgaard, Olga B. Þorleifsdóttir og Sigurður Þór Sigurðsson munu bætast í hóp okkar ágæta kennaraliðs.
Kirsten sér aðallega um kennslu í upplýsingatækni, Olga tekur við umsjónakennslu í 3. - C þar sem Steinunn Sigurþórsdóttir mun nú alfarið sinna sérkennslu á yngra stigi. Sigurður Þór er smíðakennari, þannig að nú getum við aftur boðið öllum nemendum upp á smíðakennslu.

Okkur tókst hins vegar ekki, þrátt fyrir mikla leit að finna heimilisfræðikennara og mun kennsla í þeirri grein því falla niður á þessu skólaári. Hildur Halldórsdóttir leikskólasérkennari mun fylgja eftir nemanda frá Mánabrekku og vera til aðstoðar í 1. - B. Þóra Huld Magnúsdóttir, B.A. í sálarfræði kemur til starfa sem stuðningsfulltrúi, aðallega í 3. - D.

Verið er að ganga frá ráðningu skólaliða og munum við greina frá þeim ráðningum síðar.

SKÓLADAGATAL

Skóladagatal þessa skólaárs er að finna á heimasíðu skólans, ásamt fjölmörgum öðrum gagnlegum upplýsingum. Þar kemur fram hvernig skólaárinu verður háttað.

Skóladagatalið er einnig hægt að nálgast á skrifstofu skólans. Með þessu bréfi fylgja matseðlar fram að vetrarfríi og eru foreldarar beðnir um að gera upp hug sinn varðandi heita matinn sem boðið verður upp á frá og með 26. ágúst.

Pöntunum þarf að skila á skrifstofu skólans í síðasta lagi föstudaginn 23. ágúst.

Með kveðjum frá starfsfólki skólans og von um gott samstarf á komandi skólaári.

Skólastjóri