Ágætu foreldrar!
Nú styttist óðum í skólalok og sendum við ykkur því hér síðasta fréttabréf skólaársins.
Vordagar
Þegar þetta er ritað er prófum nýlokið og kennarar að gera sér ljósar niðurstöður námsárangurs á starfsárinu. Allt lofar það góðu, enda hafa nemendur unnið sérlega vel í flestum tilvikum. Þessa síðustu kennsludaga skólaársins munum við nýta okkur góðviðrisdaga til útilífsverkefna og vettvangsferða.
Fyrstu bekkingar fóru í heimsókn í sveitina. Annar bekkur heimsótti Sorpu. Fimmtu bekkingar fóru á Þingvöll í einstakri veðurblíðu.
Fimmtu og sjöttu bekkingar enda skólaárið í Mýrarhúsaskóla með því að fara upp í Heiðmörk í boði foreldrafélagsinsins og þiggja þeir þar pylsur og kók.
Vegna vettvangsferða og útilífsverkefna eiga 4., 5. og 6. bekkingar að mæta í skólann kl 9:00 dagana 5., 6. og 7. júní en ljúka deginum á venjulegum tíma. Föstudagurinn 7. júní er að mestu skipulagður af foreldrafélaginu. Nemendur mæta þá í skólann kl 9:00 en 1.-4. bekkingar fara með kennurum sínum út í Bakkavör og er foreldrum að sjálfsögðu velkomið að slást í hópinn.
Við Bakkavör mun foreldrafélagið koma fyrir hopp kastala, trambólíni og rennibraut, en leiktækin hefur félagið tekið á leigu. Farið verður í leiki og boðið upp á pylsur og drykk í boði Bónuss.
|
Skólalok
Síðasti skóladagur nemenda verður 7. júní og skólaslit mánudaginn 10. júní. Skólaslitadaginn mæta nemendur í 1.-5. bekk hver í sína stofu kl 10:00 og fá einkunnir og umsagnir og kveðja kennara sinn.
Útskriftarnemendur
(6. bekkingar) mæta til útskriftarathafnar í sal skólans kl 14:00 og eru foreldrar að sjálfsögðu velkomnir. Að lokinni útskrift fá nemendur veitingar í skólanum í boði foreldrafélags.
Óskilamunir
Fatnaði sem skilinn hefur verið eftir í skólanum í vetur verður komið fyrir á ganginum við aðalinngang frá miðvikud. 5. júní.
Nokkuð er af verðmætum flíkum sem vonandi komast til eigenda fyrir skólalok.
Danssýningar
Heiðar Ástvaldsson danskennari hefur gengist fyrir danssýningum nokkur síðdegi fyrir foreldra nemenda í 1.-4. bekk. Flestir foreldrar hafa komið á sýningarnar og hafa þær mælst einstaklega vel fyrir. Skólanum hafa borist mörg þakkarbréf frá foreldrum þar sem þeir lofa skemmtilega stund og þann árangur sem þau telja Heiðar hafa náð í danskennslunni.
|
Breyttur skóladagur
Í vetur hefur verið unnið að breyttu skipulagi á skóladegi nemenda fyrir næsta skólaár. Kennsla yngri nemenda (1.-3. bekkur) mun í haust hefjast kl 8:20. Skólinn verður opnaður kl 8:00. Breytingar þessar eru til komnar vegna óska foreldra. Unnið hefur verið að breytingunum í samvinnu við íþróttafélagið Gróttu, framkvæmdastjóra íþróttahúss og forstöðumann skólaskjóls. Íþróttaæfingar flytjast fram og hefjast strax að lokinni kennslu yngri nemenda. Skólaskjólið opnar um leið og kennslu lýkur um 13:30. Tónlistarskólinn lagar sig að breytingunum. Reynt hefur verið að samræma aðgerðir svo breytingin megi takast sem best.
Svefn og hvíldartími barna
Að gefnu tilefni vilja skólahjúkrunarfræðingar benda foreldrum og forráðamönnum barna á hve mikilvægt er að skólabörn fái nægan svefn og hvíld. Fái þau ekki næga hvíld og svefn geta þau ekki notið þeirrar kennslu né sinnt því starfi, sem fer fram í skólanum, þau verða þreytt, þola illa langa setu á skólabekk og námsefnið fer fyrir ofan garð og neðan.
Hæfilegur svefntími er talinn skv. eftirf.:
5 - 8 ára börn u.þ.b. 10 - 12 klst. á sólarhring
9 - 12 ára börn u.þ.b. 10 - 11 klst. á sólarhring 13 - 15 ára unglingar u.þ.b. 9 - 10 klst. á sólarhring
|
Skólabyrjun í haust
Skóli verður settur að nýju í haust miðvikud. 21. ágúst og verður það tilkynnt nánar í dagblöðum helgina áður.
En í lok þessa skólaárs viljum við færa nemendum og foreldrum bestu þakkir frá öllu starfsfólki skólans fyrir ánægjulegt samstarf á skólaárinu sem er að líða. Sérstaklega viljum við þakka þeim foreldrum sem hafa verið bekkjarfulltrúar og stjórnum foreldrafélags og foreldraráðs fyrir óeigingjarnt starf í þágu skólans. Óskum við nemendum og foreldrum ánægjulegra samverustunda og gleðilegs sumars. Skólastjórnendur.
Við leyfum Vigdísi Ingibjörgu Pálsdóttur nemanda úr 6.-B að kveðja að þessu sinni með ljóði sem hún orti í vetur.
Ég á heiminn
Ég á höfin og fjöllin,
sólina og geiminn,
álfana og tröllin,
ég á allan heiminn.
Ég vil að höfin séu blá,
og moldin brún,
fjöllin eiga að vera blá,
og græn tún
|