Skólinn
Eldri fréttabréf

Fréttabréf Mýrarhúsaskóla, maí 2002

Fréttabréf skólans í maí 2002 print E-mail

Kennaranemar


Dagana 4.- 17. apríl sl. voru kennaranemar í æfingakennslu hjá okkur í Mýrarhúsaskóla. Nemarnir voru tólf, allir á fyrsta ári í KHÍ og voru þeir í kennslu í 4. og 6. bekkjum. Kennarnanemarnir voru þrír saman í hverjum bekk. Áður höfðu þeir komið í heimsókn þar sem þeir kynntu sér skólastarfið í heild og síðan voru þeir í fjóra daga í áheyrn hjá sínum móttökukennara. Eftir það tók við tveggja vikna kennsla sem þau höfðu undirbúið af mikilli kostgæfni. Það var samdóma álit þeirra kennara sem tóku á móti nemunum að vel hafi tekist til með kennslu þeirra og voru nemendur einnig mjög ánægðir. Á sama tíma var einn þriðja árs nemi í æfingakennslu í handmennt og tókst það einnig mjög vel.

Kengúrustökk
Þann 8. apríl tók 71 nemandi í 6. bekk Mýrarhúsaskóla þátt í Kengúrustökkinu svokallaða en það er stærðfræðikeppni sem á rætur sínar að rekja til Frakklands. Markmiðið með keppninni er að hvetja til þátttöku og efla almennan áhuga nemenda á stærðfræði. Nærri 2200 nemendur frá 32 skólum tóku þátt í keppninni. Keppnin tókst vel í alla staði og vonum við að hún sé komin til að vera. Stærðfræðin hrífur sá um framkvæmd keppninnar hér á landi. Hægt er að sjá umfjöllun um kengúrustökkið á vefsíðu skólans www.myrarhusaskoli.is og á http://staerfraedin-hrifur.khi.is.

Tekið á móti nýjum nemendum
Eitt af skemmtilegri embættisverkum skólastjóra er að taka á móti væntanlegum nemendum í heimsókn hingað í skólann á vorin. Börnin koma í litlum hópum með leikskólakennara og tekur skólastjóri á móti þeim í Skólaskjólinu þar sem spjallað er stuttlega við þau áður en þeim er sýndur skólinn. Þessar heimsóknir standa yfir dagana 2. - 8. maí. Vikuna 13. - 17. maí koma þau aftur í heimsókn og þá til að sitja eina kennslustund í fyrsta bekk, borða nesti og fara út í frímínútur. Nánar er sagt af þessum heimsóknum frá leikskólunum og verður vafalítið mikil eftirvænting af þessum sökum meðal þessara væntanlegu nemenda okkar. Tilgangur heimsóknanna er einkum tvíþættur: að byggja upp jákvæðar væntingar barnanna til skólans og slá á eðlilegan kvíða fyrir hinu óþekkta með því að gefa þeim kost á að koma hingað og fræðast örlítið um skólastarfið. Foreldrar nýrra nemenda eru boðaðir til fundar hér í sal skólans fimmtudaginn 16. maí kl 16:00. Á meðan á fundinum stendur verða börnin í kennslustund með væntanlegum kennurum sínum. Á fundinum verður foreldrum kynnt skólaganga barnanna sem í vændum er og hvernig þeir gætu unnið með okkur að því að undirbúa börnin best sem nemendur í grunnskóla. Sömuleiðis gefst foreldrum kostur á bæði að spyrja og setja fram þær óskir sem þeir kunna að hafa. Á fundinum verður einnig kynnt skólafærninámskeið sem haldið hefur verið fyrir foreldra 1. bekkinga á haustin. Námskeið þessi hafa verið þróuð á undanförnum árum og leggjum við mikla áherslu á að allir foreldrar sæki þau. Okkur finnst afar mikilvægt að allir foreldrar 1. bekkinga komi á þennan fyrsta fund og sýni þar með áhuga á skólagöngu barnsins í verki. Því biðjum við foreldra um að taka frá þennan tíma til fundar í Mýrarhúsaskóla.

Af 6. bekkingum


Undirbúningur fyrir skólaskiptin er nú hafinn hjá 6. bekkingum. Þessi breyting er bæði spennandi og kvíðvænleg. Námsráðgjafinn í Valhúsaskóla hefur nú þegar heimsótt alla 6. bekki til að ræða við nemendur um skipulagið í skólanum. Það var mikið spáð og spekúlerað. Mestan áhuga höfðu nemendur á að heyra um punktakerfi og mötuneyti. Í byrjun maí fara bekkirnir í heimsókn í skólann. Þar hitta þeir skólastjórnendur og fulltrúa úr nemendaráði og skoða skólann. Vonumst við til að þetta komi í veg fyrir óþarfa áhyggjur vegna skólaskiptanna.

 

Tölvuleikir
Það ætti ekki að koma neinum á óvart að tölvuleikir ýmis konar eru mjög vinsælir meðal nemenda í Mýrarhúsaskóla. Svo fremi tölvuleikir séu miðaðir við aldur barnanna og ekki sé of miklum tíma varið í að leika þá er ekki nema gott eitt um þá iðju að segja. En ef leikirnir eru ætlaðir stálpuðum unglingum eða fullorðnu fólki þá er tæpast heppilegt að börn á miðstigi skemmti sér við leikina. Eitthvað hefur borið á því að drengir skiptist á leikjum sem þeir eiga eða hafa fengið að láni og jafnvel dæmi um að nemendur í 5. bekk skiptist á leikjum sem eru skýrt merktir að eru bannaðir yngri en átján ára, m.a. vegna ofbeldis sem kemur fram í leikjunum. Við hvetjum foreldra til að fylgjast vel með þeim leikjum sem börn hafa undir höndum og tryggja það að tölvuleikirnir sem þau eru í hæfi aldri þeirra og þroska

 

Hjámurinn skiptir höfuðmáli
Nú er runninn upp sá tími þegar börnin taka fram reiðhjólin. Sem betur fer hefur það færst í vöxt á undanförnum árum að fólk geri sér grein fyrir mikilvægi þess að nota öryggishjálma sér til varnar gegn slysum. En því miður er hjálmanotkun barna mjög ábótavant, sérstaklega hjá þeim eldri. Foreldrar eru því eindregið hvattir til að fylgjast með því að börnin noti hjálma og einnig að hjálmurinn sé vandaður og rétt notaður. Foreldrar þurfa jafnframt að meta hvort börnin hafi þroska til að nota reiðhjól sem farartæki og hvort umferðaraðstæður séu þannig að þau geti bjargað sér án fylgdar. Það þarf að fylgjast með því að börnin kunni umferðarreglurnar og kunni að fara eftir þeim. Samkvæmt ábendingum lögreglu og umferðarráðs er ekki æskilegt að börn undir 10 ára aldri hjóli í umferðinni.

Starfsfólk Mýrarhúsaskóla óskar nemendum skólans og aðstandendum þeirra gleðilegs sumars.