Skólinn
Eldri fréttabréf

Fréttabréf Mýrarhúsaskóla, mars 2002

Fréttabréf skólans í mars 2002 print E-mail

Til umhugsunar

Nemendur okkar búa við mjög misjafnar og breytilegar aðstæður sem oft hafa veruleg áhrif á dagleg störf þeirra og líðan.
Því þætti okkur sem daglega störfum með þeim vænt um að fá að vita ef breytingar verða á högum nemenda sem kunna að hafa áhrif á líðan þeirra.
Við bendum jafnframt á að farið er með slíkar upplýsingar sem trúnaðarmál.
Aldrei er of varlega farið þegar viðkvæm mál eru rædd í návist barna s.s. skilnaður eða andlát.

Rafrænt fréttabréf.

Við útsendingu seinasta fréttabréfs, sem var það fyrsta á rafrænu formi frá skólanum, kom í ljós að margir foreldrar höfðu skipt um netföng og því full ástæða til að uppfæra netfangaskrá skólans. Vonumst við því til að enn betur takist til með sendingu þessa fréttabréfs og að um 70% foreldra taki við rafræna bréfinu. Öll fréttabréf frá skólastjórn verða eftirleiðis send á rafrænu formi og munu sífellt fleiri umsjónarkennarar senda bréf sín á sama hátt. Að sjálfsögðu munu þeir sem ekki geta tekið á móti símpósti fá bréfin áfram heim með nemendum.

www.rasmus.is

Í seinasta fréttabréfi kynntum við fjölskylduvef Mentors. Margir foreldrar höfðu samband við skólann og lýstu yfir ánægju sinni með þessa nýjung, sem við erum sannfærð um að muni styrkja samband heimilis og skóla í framtíðinni.

Nú þykir okkur rétt að benda aðstandendum nemenda á stærðfræðivefinn www.rasmus.is sem getur hjálpað mörgum að ná meiri þjálfun og færni í stærðfræði. Vefurinn er læstur öðrum en áskrifendum en Mýrarhúsaskóli er áskrifandi að stærðfræðivefnum og hefur þar með rétt til að dreifa lykilorðum til þeirra nemenda og aðstandenda sem vildu nýta sér vefinn.

Notendanafn Mýrarhúsaskóla er rasmus40 og lykilorðið lju70gum

Hér er á ferðinni kennsluvefur í stærðfræði og upplýsingatækni og eru um þessar mundir um þrjú ár liðin frá því að vefurinn fór í almenna notkun í skólum hér á landi.
Viðtökur hafa verið góðar og eru nú um 200 skólar áskrifendur.

Ljóst er að þeir sem ná tökum á því námsefni sem kynnt er á stærðfræðivefnum ættu að standa mjög vel að vígi á samræmdu prófi í stærðfræði.Þeir sem nýta sér tölvulæsisvefinn geta bætt færni sína verulega. Stærðfræðivefurinn tekur á öllum helstu námsmarkmiðum grunnskólans í stærðfræði.

Tölvulæsisvefurinn tekur á alþjóðlegum hæfnikröfum um tölvulæsi. Nýjungar á vefnum eru m.a.: tölfræði, námundun, vaxtareikningur og nýtt stærðfræðiefni fyrir 1.-4. bekk. Efni um rætur er væntanlegt fyrir unglinga.

Námsefni á vef

Vert er að geta þess hér að hjá Námsgagnastofnun eru komið út námsefni á vef sem þykir heppilegt fyrir nemendur annars vegar á yngsta stigi og hins vegar nemendur á miðstigi.

Námsefni þetta styður mjög vel við grunnnámsefni í stærðfræði sem notað er almennt í skólum fyrir þessa aldurshópa.

Eru þetta gagnvirk æfingadæmi sem nálgast má á vef Námsgagnastofnunar: www.namsgagnastofnun.is Samlagning og frádráttur fyrir 1.-4. bekk. Hér geta nemendur þjálfað sig í einfaldri samlagningu og frádrætti. Framsetning efnisins er ákaflega einföld og skráð er hve mörg dæmi eru leyst hverju sinni.

Reyndu þig við hnitakerfið fyrir 5.-7. bekk. Eins og áður sagði er hér á ferð gagnvirkt efni sem þjálfar færni nemenda í hnitakerfinu.

Verkefni eru tvenns konar. Annars vegar þarf að finna hnit fyrir gefinn punkt og hins vegar að finna punkt þegar hnit er gefið. Í hverjum flokki eru þrjú þyngdarstig.

Skóladagur allra barna hefjist á sama tíma

Í framhaldi af skoðanakönnun foreldraráðs um upphaf skóladags, hefur ráðið lagt til að skóladagur allra barna hefjist kl. 8:20.

Við þessari ósk munum við verða og gera tilraun næsta skólaár. Skóladegi yngri nemenda mun því ljúka kl. 13:30 og Skólaskjólið taka við frá þeim tíma, fyrir þá sem þess þarfnast.

Svigrúmið sem skapast í lok skóladags munum við reyna að nota til þess að minnka kennslu í hádeginu sem óhjákvæmilega hefur rekist á við heitar máltíðir.

Foreldraráðið er einnig að beita sér fyrir því að aðkeyrsla að skólanum verði löguð þannig að ekki skapist umferðaröngþveiti hér á morgnana, þegar allir, nemendur og starfsfólk eru að mæta til vinnu á sama tíma. Skólaskjólið mun áfram opna kl. 7:45 fyrir þá sem þurfa gæslu fyrir skólabyrjun.

Innritun nýrra nemenda

Innritun sex ára barna (f. 1996) fer fram í Mýrarhúsaskóla laugardaginn 16. mars n.k. kl. 10:00 - 12:00 á skrifstofu skólans.

Innritun í heilsdagsvistun í Skólaskjól Mýrarhúsaskóla fer einnig fram á sama stað og sama tíma.
Innritun nemenda sem flytjast frá öðrum bæjarfélögum fer fram í Mýrarhúsaskóla og Valhúsaskóla mánudaginn 18. mars og þriðjudaginn 19. mars kl. 10:00 - 15:00.

Alþjóðlegur barnaleikhúsdagur

Miðvikudaginn 20. mars er alþjóðlegur barnaleikhúsdagur og verður nemendum í 1. - 3. bekk af því tilefni boðið upp á leiksýninguna Loðinbarða. Sýningin verður í sal skólans.

Eldri nemendum var hins vegar boðið að sjá uppfærslu Valhúsaskólanemenda á Rocky Horror.

Rétt er að geta þess hér að sýningar Möguleikhússins á Völuspá sem haldnar voru í skólanum að frumkvæði og í boði foreldra tókust í alla staði mjög vel.

Páskaleyfi

Páskaleyfi hefst frá og með mánudeginum 25. mars og eiga nemendur að koma aftur í skólann miðvikudaginn 3. apríl.

Með bestu kveðju,

Skólastjórn