Skólinn
Eldri fréttabréf

Fréttabréf Mýrarhúsaskóla, janúar 2002

Fréttabréf skólans í janúar 2002 print E-mail

Nýárskveðjur

Starfsfólk Mýrarhúsaskóla sendir nemendum og foreldrum þeirra óskir um gleðilegt nýtt ár og þakkar samfylgdina á liðnu ári. Vonum við að nýja árið verði okkur öllum til hagsældar, að skólinn megi dafna og að starfslið og nemendur eigi góðan tíma framundan í leik og starfi.

Skipulagsdagur/Foreldradagur

Á næstu tveimur vikum verða miðsvetrarpróf í skólanum.
Prófað verður í helstu greinum eins og kynnt var í námsáætlunum sem lagðar voru fram í haust.
Dagana 28. og 29. janúar nk. fellur niður kennsla í skólanum. 28. jan. verður skipulagsdagur hjá kennurum en foreldraviðtöl fara fram daginn eftir.

Farið verður yfir framvindu náms það sem af er vetri, vitnisburður afhentur og skipulag til sumars kynnt. Þess er vænst að nemendur komi með foreldrum í viðtölin þann 29.

Tónlistin hljómar á ný

Kennsla í Tónlistarskóla Seltjarnarness hófst af krafti um leið og verkfall tónlistarskólakennara leystist. Þessu fögnum við og jafnframt vilja kennarar yngstu nemenda Mýrarhúsaskóla þakka þeim foreldrum barna í 1. bekk, sem sinntu nemendum á meðan á verkfallinu stóð.

Öskudagur

Í dagatali skólans fyrir þetta starfsár urðu þau leiðu mistök að öskudagur var skráður þann 27. febrúar nk. Þetta er alrangt. Öskudagurinn er miðvikudaginn 13. febrúar og leiðréttist það hér með.

Öskudagur er að sjálfsögðu frídagur hjá nemendum. Biðjumst við velvirðingar á þessum mistökum.

Söfnun fyrir Namazizi skólann í Malaví

Í þorpinu Chirombo við Apaflóa í Malaví brosa allir breitt þegar minnst er á ICEIDA (Þróunarsamvinnustofnun Íslands) eða Mýrarhúsaskóla. Þessar tvær íslensku stofnanir eru frægari þar en Sameinuðu Þjóðirnar.

Fyrir meira en áratug hóf Þróunarsamvinnustofnun Íslands að aðstoða Malavíbúa á sviði fiskveiða. Frá þeim tíma hafa bæst við ný verkefni, t.d. var Namazizi skólinn byggður, heislugæslustöð er í byggingu og nýjasta verkefnið er fullorðinsfræðsla.

Íbúar Chiromboþorps sem og aðrir íbúar Malaví eru mjög fátækir. Lágmarkslaun í Malaví samsvara um það bil 800 íslenskum krónum á mánuði.

Vorið 1999 stóð Mýrarhúsaskóli fyrir söfnun á notuðu skóladóti sem sent var Namaziziskólanum. Nemendur hér brugðust vel við og fóru um 40 kassar fullir af gagnlegu skóladóti.
Þessum hlutum var, að sögn starfsfólks, réttlátlega skipt milli nemenda og kom að miklu gagni.

Hér á landi er hlutum hent sem geta komið að gagni í fátækari löndum. Þegar við fréttum af öðrum gámi á leið til Malaví gátum við í Mýrarhúsaskóla ekki látið það tækifæri fram hjá okkur fara og ákváðum því að efna á ný til söfnunar fyrir börn í Namaziziskólanum.

Söfnunin er nýhafin og hafa undirtektir nemenda strax verið góðar.