Söfnun fyrir Namazizi skólann í Malaví
Í þorpinu Chirombo við Apaflóa í Malaví brosa allir breitt þegar minnst er á ICEIDA (Þróunarsamvinnustofnun Íslands) eða Mýrarhúsaskóla. Þessar tvær íslensku stofnanir eru frægari þar en Sameinuðu Þjóðirnar.
Fyrir meira en áratug hóf Þróunarsamvinnustofnun Íslands að aðstoða Malavíbúa á sviði fiskveiða. Frá þeim tíma hafa bæst við ný verkefni, t.d. var Namazizi skólinn byggður, heislugæslustöð er í byggingu og nýjasta verkefnið er fullorðinsfræðsla.
Íbúar Chiromboþorps sem og aðrir íbúar Malaví eru mjög fátækir. Lágmarkslaun í Malaví samsvara um það bil 800 íslenskum krónum á mánuði.
Vorið 1999 stóð Mýrarhúsaskóli fyrir söfnun á notuðu skóladóti sem sent var Namaziziskólanum. Nemendur hér brugðust vel við og fóru um 40 kassar fullir af gagnlegu skóladóti.
Þessum hlutum var, að sögn starfsfólks, réttlátlega skipt milli nemenda og kom að miklu gagni.
Hér á landi er hlutum hent sem geta komið að gagni í fátækari löndum. Þegar við fréttum af öðrum gámi á leið til Malaví gátum við í Mýrarhúsaskóla ekki látið það tækifæri fram hjá okkur fara og ákváðum því að efna á ný til söfnunar fyrir börn í Namaziziskólanum.
Söfnunin er nýhafin og hafa undirtektir nemenda strax verið góðar.
|