Skólinn
Eldri fréttabréf

Fréttabréf Mýrarhúsaskóla, desember 2003

Fréttabréf skólans í desember 2003 print E-mail

Ágætu foreldrar


Það styttist í jólin og kærkomið frí nemenda. Að venju verður ýmislegt til
tilbreytingar síðustu dagana fyrir jól. Dagana 16. og 17. desember heimsækja
nemendur Tónlistarskóla Seltjarnarness og hlusta þar á tónleika. Þriðjudaginn 16.
verða í Mýrarhúsaskóla þrjár sýningar á leikritinu Jólarósir í boði foreldrafélags
skólans. Heimsóknir í kirkjuna verða fimmtudaginn 18. des. og þann dag verða líka litlu jólin í stofu hvers bekkjar fyrir sig. Jólaskemmtanir skólans verða svo
föstudaginn 19. des. skv. eftirf.: B-bekkir kl. 10:00 - 11:15, C-bekkir kl. 11.30 -
12.45, D-bekkir kl. 13.00 - 14.15 og A-bekkir kl. 14.30 - 15.45. Þess er vænst að nemendur komi saman prúðbúnir í bekkjarstofu og fari svo með kennara sínum niður í sal.


Kennsla hefst svo samkvæmt stundaskrá að loknu jólaleyfi, mánudaginn 5. janúar.

Skák og fleira skemmtilegt
Föstudaginn 14. nóvember s.l. var öllum fjórðu bekkingum Mýrarhúsaskóla boðið til
skákkennslu að Hótel Loftleiðum af Skákfélaginu Hróknum. Síðast liðinn vetur fengu sömu börn bókargjöf frá Hróknum en það var bókin "Skák og mát".
Krakkarnir fóru til að byrja með í skákkennslu sem Smári Rafn Teitsson sá um. Að því loknu fengu þau að tefla fjöltefli við nokkra erlenda stórmeistara sem staddir voru á Íslandi, í tengslum við skákeinvígi Friðriks Ólafssonar og Bent
Larsen.
Það þarf vart að taka það fram að krakkarnir stóðu sig mjög vel og voru sjálfum sér og skólanum til sóma.


Mánudaginn 24.nóvember lögðu 6.bekkingar leið sína í Reykholt. Ferðin var farin til að fræðast um Snorra Sturluson, því nemendur eru um þessar mundir að skrifa ritgerð um Snorra. Séra Geir Waage tók á móti hópnum og fræddi þau mikið. Að heimsókn lokinni hrósaði hann nemendum fyrir gott hljóð og sagði þau til fyrirmyndar á allan hátt.


Þann 6. nóv. var dagskrá í skólanum um Jónas Hallgrímsson í tilefni af degi
íslenskrar tungu.

Leikararnir Felix Bergsson og Þórdís Arnljótsdóttir ásamt
píanóleikara fluttu nemendum dagskrá um skáldið.


Mánudaginn 8. des. tókust 1. bekkingar ferð á hendur í Árbæjarsafn til að kynna
sér fornt jólahald á jólasýningu safnsins.
Í Árbæ tók á móti þeim starfsmaður
safnsins sem fræddi börnin um það sem fyrir augu bar og ýmislegt úr gamalli
hjátrú. Farið var í gamla bæinn og kirkjuna þar sem þau sungu Jólastjörnuna
(Bjart er yfir Betlehem). Börnin voru áhugasöm, hlustuðu af athygli og báru upp góðar spurningar. Þau voru á allan hátt þeir góðu sendiherrar skólans sem
skólastjóri þeirra hafði falið þeim að vera.


Mýrarhúsaskóli tekur þátt í ASP-netinu
ASPnetið er alþjóðlegt samstarfsnet skóla sem vilja starfa í anda UNESCO. ASPnet stendur fyrir Associated Schools Project Network og um þessar mundir eru um 7000
skólar í 171 landi í þessu samstarfi, barnaskólar, unglinga- og framhaldsskólar. Við það að undirgangast þetta samstarf hafa skólarnir valið að taka þátt í fræðslu um frið í alþjóðlegu tilliti jafnframt því að skuldbinda sig til að taka upp eitt eða fleiri af fjórum temum ASP-netsins sem öll eiga það sammerkt að tengjast uppfræðslu um frið og lýðréttindi. Þessi fjögur temu snúast nánar um að veita fræðslu um
alþjóðasamstarf og hlutverk SÞ, mannréttindi og lýðræði, alþjóðleg umhverfismál og gildi ólíkra menningarverðmæta. Um markmið ASP-skólanna má almennt segja að sé að efla alþjóðlega hugsun nemenda,að örva og hvetja til samstarfs á þjóðlegum og
alþjóðlegum grundvelli, að auka gæði kennsluaðferða og innihalds kennslu og námsefnis.
Í ASP-netinu hafa skólarnir möguleika á að útfæra samstarfsverkefni sín í anda
þeirra tema sem áður voru nefnd í samstarfi innlendra skóla eða skóla í öðrum löndum. Sem þátttakendur í skólaneti UNESCO hafa skólarnir möguleika á: að taka
þátt í alþjóðlegum fræðsluverkefnum, að taka þátt í samkeppnum, að prófa nýtt námsefni, að miðla skoðunum og kennsluaðferðum við aðra skóla, að taka þátt í þjóðlegum og alþjóðlegum samkomum.
Nánari upplýsingar um ASP-verkefni er að finna á heimasíðu Mýrarhúsaskóla.


Umferðin
Við fengum nýverið kvörtun foreldris vegna bílaumferðar við Ræktina og viljum koma henni hér á framfæri í von um að þeir taki til sín sem eiga:
Ég er ein af þeim sem keyri barn mitt oftast (ekki alltaf þó) í skólann. Mér blöskrar hins vegar að sjá hvernig sumir sem það gera "ganga um" í aðkeyrslunni við Ræktina. Þeir keyra upp á gangstéttarnar (fyrst og fremst jeppafólkið sem jafnframt hefur lélegra útsýni á það sem er að gerast á jörðu niðri og litla
vegfarendur þar) yfir gangstéttarnar og inn á malarsvæðið fyrir innan og eru jafnvel að bakka á þessu svæði. Þessi lausn sem þarna var útbúin er mikil framför en þarna er áfram hætta af ökumönnum sem ekki virða að gangstéttar eru fyrir
gangandi.

Niðurstöður samræmdra prófa.
Nemendur í 4. og 7. bekk í Mýrarhúsaskóla og Valhúsaskóla hafa nú fengið niðurstöður
úr samræmdum prófum sem þeir þreyttu í október sl. Árangur nemenda er mjög góður og
er starfsfólk skólanna og Seltjarnarnesbæjar stolt af frammistöðu þeirra. Þeim
foreldrum sem hafa áhuga á að sjá prófúrlausnir barna sinna er bent á þann möguleika að fara inn á vef Námsmatstofnunar http://namsmat.is þar sem hægt er að sækja um
slíkt. Sömuleiðis má nálgast umsóknareyðublað í skólunum.
Meðaleinkunn í 4. bekk var 7.3 í íslensku og 7.8 í stærðfræði. Meðaleinkunn í íslensku á landsvísu er 6.6 og 7.0 í stærðfræði. Normaldreifð einkunn 4. bekkjar
í íslensku er 6.0 og 5.9 í stærðfræði. Aðeins einu sinni áður, árið 1997, hafa einkunnir í 4. bekk verið hærri, en þá voru þær 6.0 í báðum greinum.
Meðaleinkunn í 7. bekk var 7.9 í íslensku og 7.7 í stærðfræði. Meðaleinkunn í íslensku og stærðfræði á landsvísu er 7.5. í báðum greinum. Normaldreifð einkunn var 5.7 í íslensku og 5.2 í stærðfræði. Meðaltal á landsvísu er 5.0 þegar um normaldreifðar einkunnir er að ræða bæði í 4. og 7. bekk.
(Upplýsingarnar eru fengnar af vef Seltjarnarnesbæjar)

Við óskum okkur öllum til hamingju með þennan árangur um leið og við óskum nemendum
og foreldrum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.

Starfsfólk Mýrarhúsaskóla