Skólinn
Eldri fréttabréf

Fréttabréf Mýrarhúsaskóla, maí 2003

Fréttabréf í maí 2003 print E-mail

Ágætu foreldrar!


Senn líður að lokum þessa skólaárs. Við sendum ykkur því seinasta fréttabréfið í bráð. Vorprófum lauk föstudaginn 23. maí og eru kennarar að ljúka við að meta niðurstöður prófanna og afrakstur vinnunnar í vetur.

Þemadagar
Þessa vikuna stóð yfir fræðsla og verkstæðisvinna sem á margvíslegan hátt tengist menningu þjóða í Afríku. Á mánudag kom Gísli Arnkelsson fyrrverandi kennari skólans í heimsókn.
Gísli starfaði í 10 ár í Eþíópíu á árunum 1961 til 1971. Kom hann með ýmsa gripi sem hann eignaðist á meðan dvölinn stóð ytra og sýndi nemendum ásamt myndum við mikinn fögnuð nemenda. Hafði Gísli frá mörgu fróðlegu og skemmtilegu að segja, og sýndu nemendur þessu mikinn áhuga.

Tveir dansarar úr Kramhúsinu komu og sýndu Afró-dans. Þetta voru þær Dröfn Jóhannsdóttir fyrrverandi nemandi skólans og Álfheiður Pétursdóttir. Voru þær með dansnámskeið á þemadögum fyrir nemendur í 6. bekk.
Aðrir nemendur fengu ýmis konar fræðslu og verkstæðisvinnu, bjuggu til grímur, gerðu skartgripi, smíðuðu hljóðfæri eða settu saman blað um þemadagana.

Þemadagar enduðu svo á hátíð á miðvikudeginum 28. þar sem mátti sjá afrakstur daganna ásamt skemmtilegum söng og dansatriðum.

Skólaslit
Skólaslit verða fimmtudaginn 5. júní. Skólaslitadaginn mæta nemendur í 1. - 5. bekk hver í sína stofu kl 10:00, fá einkunnir og umsagnir og kveðja kennara sinn .

Útskriftarnemendur (6.bekkingar) mæta til útskriftarathafnar í sal skólans kl 14:00 og hvetjum við sérstaklega foreldra nemenda sem kveðja skólann til að koma með börnum sínum.

Óskilamunir
Fatnaði sem skilinn hefur verið eftir í skólanum í vetur verður komið fyrir á ganginum við aðalinngang frá mánudeginum 2. júní. Vonumst við til að foreldrar líti þar við því nokkuð er af verðmætum flíkum sem þyrftu að komast til eigenda sinna fyrir skólalok.

Bækur
Foreldrar eru beðnir að minna börn sín á að skila í skólann kennslubókum sem þau þurfa ekki að nota lengur og eins eru þeir sem eiga eftir að skila bókum á skólasafn minntir á að gera það hið bráðasta. Best væri að skila hvoru tveggja á bókasafn skólans.

Aðlögun nýrra nemenda
Aðlögun nemenda sem hefja nám í fyrsta bekk næsta haust hefur farið fram skv. áætlun frá áramótum.
Leikskólabörn frá Mánabrekku og Sólbrekku heimsóttu Skólaskjól Mýrarhúsaskóla í janúar sl. Þar var þeim kynnt starfsemi skólans og fengu þau að leika sér um stund á eftir.
Þá heimsóttu börnin úr þessum leikskólum bókasafn skólans í hópum frá því í byrjun febrúar og fram í byrjun mars. Skólastjórar Mýrarhúsaskóla hittu börnin í maíbyrjun og um miðjan mánuðinn komu þau í heimsókn í fyrsta bekk skólans, sátu eina kennslustund, borðuðu nesti og fóru svo í frímínútur. Hafa þessar heimsóknir gefið góða raun og virðast börnin laus við kvíða og mjög tilbúin að koma í skólann í haust og hefja þar nám. Bjóðum við alla nýja nemendur hjartanlega velkomna.

Miðvikudagurinn 4. júní er seinasti dagurinn sem skólaskjól er opið. Við lok þessa skólaárs færum við öllum nemendum og aðstandendum okkar bestu kveðjur og þakkir fyrir samveruna og óskum við öllum gleðilegs sumar.

Starfsfólk Mýrarhúsaskóla

Sundmót og vettvangsferðir
Föstudaginn 30. maí er sundmót Rotary haldið í Sundlaug Seltjarnarness og eru keppendur úr 3. - 6. bekk.

Dagana 2., 3. og 4. júní verður mikið um vettvangsferðir og ýmis útilífsverkefni á vegum skólans.
Nemendur eiga að mæta í skólann kl 9:00 þessa þrjá daga nema þeir fái önnur skilaboð frá bekkjarkennara. Vorhátíð Vorhátíð á vegum foreldrafélagsins verður haldin miðvikudaginn 4. júní.
Þá eiga 5. og 6. bekkingar að mæta kl 9:00 í skólann og verður þá strax farið í Fjölskyldugarðinn.
Boðið verður upp á grillaðar pylsur og drykk í ferðinni.
Nemendur þurfa ekki að hafa peninga meðferðis. Komið verður til baka um kl 12:30 og fara nemendur þá heim.

Nemendur í 1., 2., 3. og 4. bekk mæta út í Bakkavör kl 11:30 og verða þar til kl. 13:00 en þá lýkur dagskrá dagsins. Í Bakkavörinni verða leiktæki og foreldrafélagið býður gillaðar pylsur og drykk með.
Geta nemendur svo farið heim þaðan ef þeir hafa haft töskurnar með sér á staðinn. Nemendur geta líka komið upp að skóla og farið þaðan heim ef það hentar betur.