Skólinn
Eldri fréttabréf

Fréttabréf Mýrarhúsaskóla, apríl 2003

Fréttabréf skólans í apríl 2003 print E-mail

Ágætu foreldrar!


Þetta er annað fréttabréfið sem við sendum heim á árinu. Viljum við í bréfinu minnast nokkurra viðburða úr skólalífinu jafnframt því að fjalla um það helsta sem framundan er. Úr skólalífinu

Dagana 24. og 28. mars sl. fóru fjórðu bekkingar ásamt kennurum sínum í heimsókn í Sæfiskasafnið í Höfnum. Er þessi ferð farin í tengslum við náttúrufræðinám barnanna. Börnin nutu þess að koma í safnið. Þarna eru þau í meiri nálægð við ýmislegt úr lífríki sjávarins og fjörunnar. Þykir gott að koma þangað enda er safnið vel upp sett og vandað í alla staði.

Nýverið fóru nemendur úr 1.-4. bekk á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Háskólabíói. Hljómsveitin flutti Pétur og úlfinn eftir Prokofféf undir stjórn Bernharðs Wilkinsonar. Stefán Karl Stefánsson leikari kynnti verkið fyrir hlustendum sem hlustuðu vel og skemmtu sér hið besta.

Kannanir á líðan nemenda í 3.-6. bekk hafa verið lagðar fyrir. Úrvinnsla úr þessum könnunum stendur nú yfir og komi eitthvað fram í þeim sem þörf er á að skoða nánar þá verður það gert. Kristín Sverrisdóttir námsráðgjafi hefur umsjón með þessum könnunum.

Kennarar og stjórnendur Mýrarhúsa- og Valhúsaskóla hafa nýverið fundað vegna nemenda sem fara í Valhúsaskóla í haust. Í framhaldi af því mun námsráðgjafi Valhúsaskóla heimsækja sjöttu bekkinga dagana 22. og 23. apríl og 25. og 28. apríl nk. munu sjöttu bekkingar svo heimsækja Valhúsaskóla ásamt umsjónarkennurum sínum.

Skóladagatal 2003-2004
Nýtt skóladagatal fyrir 2003-2004 hefur litið dagsins ljós og verður sett á heimasíðu skólans um helgina. Dagatalið er unnið í samráði við Valhúsaskóla og leikskólana. Það hefur farið til umsagnar hjá skólanefnd og foreldraráði Mýrarhúsaskóla og hlotið samþykki beggja aðila. Eru foreldrar sérstaklega beðnir um að kynna sér hvenær starfsdagar og vetrarfrí eru á næsta starfsári.

Gróttudagur
Laugardaginn 5. apríl var Gróttudagur haldinn í annað sinn. Vitinn var opinn og í honum sýning á myndverkum barna úr Mýrarhúsaskóla. Boðið var upp á kaffi og vöfflur í fræðasetri, þar sem aðstaðan var til sýnis jafnframt því sem myndband um fuglalíf á Seltjarnarnesi var sýnt. Margir nýttu sér tækifærið til að koma í Gróttu áður en svæðið verður lokað almenningi á næstunni vegna fuglavarps. Var stöðugur straumur fólks í Gróttu á milli 13 og 16 þrátt fyrir vind og úrkomu.

Nýr starfsmaður
Nýverið tók stil starfa nýr starfskraftur á skrifstofu skólans, Margrét Kristín Jónsdóttir íþróttafræðingur. Hún tekur við starfi ritara af Ragnheiði Láru Jónsdóttur sem flytur ásamt fjölskyldu sinni til Noregs. Bjóðum við Margréti velkomna til starfa um leið og við þökkum Láru ánægjulegt samstarf.

Vorpróf og vordagar
Prófum lýkur föstudaginn 23. maí í vor. Prófum verður að mestu komið við í vikunum tveimur næst á undan. Í sjötta bekk verður prófum dreift á þrjár vikur og munu umsjónarkennarar sjöttu bekkja kynna foreldrum þetta í byrjun maí. Kennsla þá daga sem eftir eru til sumarleyfis nemenda verður með óhefðbundnu sniði.

Dagarnir 26.-28. maí verða þemadagar þar sem gera má ráð fyrir að nám krakkanna fari fram á mun fleiri stöðum í skólanum en þau eiga að venjast. Þessa daga verður í skólanum fræðsla, verkstæðisvinna og annað sem allt mun tengjast lífi í Afríku með ýmsum hætti. Nýtt myndband um Namazizi-skólann verður sýnt og í lok þriðja þemadags verður svo slegið upp hátíð hér í skólanum. Verður dagskrá þemadaga kynnt nánar þegar nær dregur.

Dagana 2.-3. júní má búast við því að nemendur verði meira útivið en aðra daga og er þá brýnt að allir komi í skólann klæddir í samræmi við veðrið hverju sinni. Hvetjum við því foreldra til að fylgjast vel með veðurspánni þegari líður að lokum skólaárs.

Skólaslit verða 5. júní nk. og er það degi fyrr en gefið var upp á skóladagatali, vegna námsferðar kennara til Serbíu.
Skoðaðir verða skólar í Belgrad og nágrenni og stofnað til kynna við nemendur og kennara í þeim skólum. Væntum við þess að kennarar og nemendur Mýrarhúsaskóla hafi hag af ferðinni með ýmsu móti.

Páskafrí
Páskafrí hefst að loknum skóladegi föstudaginn 11. apríl og lýkur þriðjudaginn 22. apríl þegar kennsla hefst aftur skv. stundaskrá. Vonumst við til þess að allir eigi gott páskafrí og að nemendur og starfsfólk komi endurnærðir í skólann aftur að fríi loknu.

Óskum við nemendum og aðstandendum gleðilegra páska. Starfsfólk Mýrarhúsaskóla