Ágætu foreldrar!
Þetta er fyrsta fréttabréfið sem við sendum heim á nýju ári. Í mörgu hefur verið að snúast í skólastarfinu og mikil umsvif verið í foreldrasamstarfinu, eins og við viljum rekja í stórum dráttum hér.
Úr skólastarfinu
Segja má að árið hafi byrjað með miklum glæsibrag af hálfu foreldra þar sem þeir fjölmenntu á kynningu á stærðfræðikennslunni. Það er greinilegt að foreldrar eru áhugasamir um að setja sig inn í breyttar áherslur í stærðfræði. Við kunnum þeim Eddu Óskarsdóttur og Kristínu Kristinsdóttur bestu þakkir fyrir áhugaverða fræðslu.
Við viljum einnig lýsa yfir mikilli ánægju okkar með góða þátttöku foreldra 28. janúar sl. Sömuleiðis viljum við þakka þeim 299 foreldrum sem gáfu sér tíma til þess að koma við í tölvuverinu og svara könnuninni okkar.
Nú geta allir kynnt sér niðurstöður hennar á heimasíðu skólans. Niðurstöðurnar hafa einnig verið kynntar í skólanefnd og á aðalfundi foreldraráðs sem haldinn var hér í skólanum mánudaginn 10. febrúar.
Á þeim aðalfundi komu nýir fulltrúar til liðs við foreldraráð, þær Anna Margrét Hauksdóttir og Svana Helena Björnsdóttir. Bjóðum við þær velkomnar til starfa um leið og við þökkum Sæmundi Þorsteinssyni og Birnu Dís Traustadóttur fyrir gott samstarf.
|
Mýrarhúsaskóla var boðin þátttaka í þróunarverkefni á vegum Alþjóðahúss sem styrkt er af Evrópusambandinu (Comenius), ásamt Lækjarskóla í Hafnarfirði. Til grundvallar þessu starfi er lögð aðferð sem heitir CLIM (cooperative learning in multicultural groups) og er þróuð við háskólann í Gent í Belgíu.
Þar er lögð áhersla á fjölmenningarlega kennslu og þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum.
Allir kennarar í 4. – 6. bekkjum eru þegar byrjaðir á námskeiði með kennurum í Lækjarskóla til þess að tileinka sér þessar aðferðir. Við munum greina nánar frá þessu spennandi verkefni síðar.
Sömuleiðis hefur komið til tals að Mýrarhúsaskóli sæki um til Unesco að verða fyrsti skólinn hér á landi til þess að sameinast ASP skólaneti Unesco.
ASP-skólarnir hafa að markmiði að efla alþjóðlega hugsun nemenda og auka gæði kennslu.
Í undirbúningi er námsferð kennara í sumar til Serbíu (Júgóslavíu) þar sem m.a. verða heimsóttir nokkrir skólar.
Nú standa yfir umfangsmiklar bólusetningar barna gegn heilahimnubólgu og hafa þær gengið afskaplega vel fyrir sig. Viljum við þakka foreldrum fyrir góða þátttöku í þessu átaki.
Þegar þetta fréttabréf kemur út, 18. febrúar, er íþróttadagurinn hjá okkur með fjölda keppna og leikja í íþróttahúsinu, hálfan daginn á skólatíma.
|
Ef marka má niðurstöður könnunarinnar sem áður var nefnd verður ekki annað sagt en að foreldrar séu afskaplega ánægðir með skólann. Langflestir foreldrar telja að barninu líði vel hér í skólanum og er það gott fyrir okkur að vita. Þó er alltaf eitthvað sem betur má fara og fengum við góðar ábendingar um slíkt í textasvörum foreldra.
Matarmálin eru greinilega ofarlega á baugi enda tók foreldraráðið þau mál sérstaklega fyrir á aðalfundinum. Þeir Þorsteinn Magnússon, fulltrúi í foreldraráði og Pétur Orri Þórðarson, skólastjóri Hvassaleitisskóla fluttu báðir athyglisverð framsöguerindi og svaraði Pétur fyrirspurnum á eftir. Foreldraráð mun eflaust gera betur grein fyrir fundinum síðar en áhugasömum er bent á að erindi Þorsteins er að finna á heimasíðu okkar.
Í síðustu viku fengum við góðan gest í heimsókn, en það var Egill Ólafsson sem kynnti þróun dægurtónlistar hér á landi fyrir 5. og 6. bekkingum. Þetta framtak er liður í verkefninu „Tónlist fyrir alla“ sem grunnskólum stendur til boða.
Þann 17. mars munu svo 1. – 4. bekkir fara í Háskólabíó og hlýða á Pétur og úlfinn í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Okkur finnst ómetanlegt að geta boðið nemendum upp á listviðburði af þessu tagi.
Á döfinni
Starfsfólk Mýrarhúsaskóla hóf nýtt ár á umfjöllun um námsmat, en það er ásamt kennsluháttum til sérstakrar skoðunar hjá okkur í sjálfsmati skólans. Í janúar áttum við sameiginlegan skipulagsdag ásamt leiksskólunum hér á Seltjarnarnesi. Þar var farið yfir ákveðnar aðferðir í uppeldis- og agamálum.
Ráðgert er að bæði skólastigin eignist sama námsefni í lífsleikni sem heitir Stig af stigi og gekkst skólanefnd fyrir kynningu á efninu nú í febrúar.
|
Frækilegt afrek
Anna Kristín Jensdóttir nemandi í 5. – A keppti í sundi fyrir Íslands hönd á sundmóti fatlaðra í Svíþjóð. Anna Kristín stóð sig feikilega vel í 50 m bringusundi og hreppti bronsverðlaun.
Við óskum henni innilega til hamingju með afrekið.
Veikindatilkynningar Sökum mikils álags sem gjarnan vill verða á símakerfið á morgnana eru foreldrar minntir á að tilkynningum um veikindi nemenda má koma til okkar á myrarhusaskoli@seltjarnarnes.is
Vetrarleyfi
Það styttist í vetrarleyfið en það verður 5. - 7. mars. Við vonumst til að leyfið gefi sem flestum fjölskyldum möguleika á notalegri samveru. Pistill Að lokum viljum við vekja athygli ykkar á pistli Gylfa Gunnarssonar, skólastjóra í Njarðvík sem kominn er inn á heimasíðu skólans og nefnist: Lykillinn að góðum
|