Skólinn
Eldri fréttabréf

Fréttabréf Mýrarhúsaskóla, desember 2004

Fréttabréf skólans í desember 2004 print E-mail

FRÉTTABRÉF MÝRARHÚSASKÓLA - DES. 2004
Ritstjóri: Árni Árnason—Ábyrgðarm.: Marteinn Jóhannsson Sími: 595 9200— Netfang: myrarhus@seltjarnarnes.is

Heimasíða: www.myrarhusaskoli.is

 

Ágætu foreldrar

 

Það styttist í jólin og að vanda verður ýmislegt til tilbreytingar gert síðustu dagana fyrir jól. Mánu­daginn 13. desember verður bókakynning fyrir nemendur og foreldra á Bæjarbókasafninu kl. 17:00 – 18:00. Þar munu höfundar lesa upp úr nýútgefn­um bókum. Dagana 14. og 15. desember heimsækja nemendur Tónlistarskóla Seltjarnarness og hlusta þar á tónleika. Heimsóknir í kirkjuna verða föstu­daginn 17. desember. Þann dag verða líka litlu jólin í stofu hvers bekkjar fyrir sig og mega nemendur taka með sér smákökur og litla gosflösku í skólann þann daginn.

 

Jólaskemmtanir

Jólaskemmtanir skólans verða mánudaginn 20. des. sem hér segir:

 

Kl. 10:00–11:15   1.A, 3.A, 4.A, 5.A og 6.A

Kl. 11:30–12:45    Allir B- bekkir

Kl.. 13:00–14:15  2.C, 3.C, 4.C, 5.C og 6.C

Kl. 14:30–15:45   1.C, 2.A, 3.D, 5.D og 6.D.

 

Þess er vænst að nemendur komi prúðbúnir í sína bekkjarstofu og fylgi síðan kennara sínum niður í sal.

 

Heimsókn frá Malaví

Í síðustu viku voru góðir gestir frá Malaví í heim­sókn í Mýrarhúsaskóla. Þar voru á ferð Jackson Gumbala skólastjóri Namazizi skólans sem er vinaskóli Mýrarhúsaskóla auk fræðslustjóra héraðs­ins Mr. Jali. Þeir áttu fundi með stjórnend­um skól­ans og þeim kennurum sem hafa átt í beinum sam­skiptum við kennara og nemendur Namazizi skól­ans. Heimsókn þeirra var hin ánægjulegasta og kom fram hjá þeim að þetta væri í fyrsta sinn sem þeir kæmu til Evrópu, m.a.s. hafði Gumbala ekki komið til höfuðborgar Malaví fyrr en hann fór úr landi. Þeir ræddu ýmis mál sem helst brenna á þeim og eru gjörólík því sem við þekkjum hér á landi, mikil fátækt og matarskortur, erfiðar samgöngur, rafmagnsleysi o.fl. Vinaskóli okkar hefur hátt í eitt þúsund nemendur en aðeins átta kennara. Það eru því rúmlega eitt hundrað nem­endur í hverjum bekk skólans. Kennaraskortur er mikill í landinu, ekki síst vegna þess hve meðalaldur er almennt lág­ur vegna eyðnifaraldurs sem fellir fólk í blóma lífsins.

     Í heimsókninni kom fram mikill áhugi þeirra Jali og Gumbala á kennslu og aðstöðu hér á Seltjarnar­nesi. Þeir heimsóttu ýmsa bekki í skólanum og sýndu nemendur þeim ýmislegt sem þeir eru að fást við. Var nemendum jafnt sem kennururm gefinn kostur á að spjalla við þá og spyrja, um vinaskól­ann og Malaví. Einnig heimsóttu þeir íþrótta­að­stöðu skólans, íþróttahús og sundlaug og jafn­framt var þeim boðið í Tónlistarskólann, í Valhúsaskóla og í heimsókn til bæjarstjóra  þar sem þeir voru leystir út með gjöfum.

     Í fram­haldi af þessari heimsókn væntum við þess að áframhaldandi samstarf nemenda og kennara í Namazizi verði áfram gefandi fyrir báða aðila þrátt fyrir mikla fjarlægð og ólíkar aðstæður.

 

Sálfræðingur

Nýr sálfræðingur, Guðný Magnúsdóttir, hóf störf við Grunnskóla Seltjarnarness 1. nóvember sl. Guðný tók við af Margréti Ólafsdóttur sem lét af störfum sl. vor. Um leið og við bjóðum Guðnýju velkomna til starfa þökkum við Margréti vel unnin störf í þágu skólans.

     Guðný er í 80% starfi og er tvo daga í Mýrar­húsa­­skóla og tvo daga í Valhúsaskóla. Símaviðtals­tími Guðnýjar er á fimmtudögum á milli kl 14:00 og 15:00. Síminn er 595 9141 eða 595 9259.

 

Annaskipti

Annaskipti eru alltaf á miðju skólaári og hafa þau venjulega verið í byrjun janúar ár hvert. Vegna verkfallsins flytjast annaskiptin aftur og verða að þessu sinni miðuð við 7. febrúar. Þá byrjar nýr nemendahópur í sundi, þeir sem voru í smíðum á haustönn færast yfir í hannyrðir, nýir hópar byrja í safnfræðslu o.s.frv.

 

Samræmd próf

Ráð var fyrir gert að samræmdu prófin í 4. og 7. bekk yrðu lögð fyrir 14. og 15. október á haustönn eins og boðað var á skóladagatali á heimasíðu skólans. Vegna verkfalls kennara hefur mennta­mála­ráðuneytið ákveðið að prófin verði haldin sem hér segir:

Fimmtudaginn 3. febrúar kl. 09:30 - 12:00 í íslensku og föstudaginn 4. febrúar kl. 09:30 - 12:00 í stærðfræði.

Ákvörðun ráðuneytisins var tekin að höfðu samráði við Námsmatsstofnun sem sér um framkvæmd prófanna.

 

Skólaskjólið

Skólaskjólið er lokað mánudaginn 20. des. vegna jólaskemmtana. Opið verður 21., 22., 27., 28., 29., og 30.des.

     Mánudaginn 3. jan. nk. er skipulagsdagur í skól­an­um og Skjólið opið allan daginn fyrir þá sem eru skráðir þar og óskað er eftir dvöl fyrir allan daginn. Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá að loknu jóla­leyfi þriðjudaginn 4. janúar.

 

Að lokum viljum við hvetja börn og fullorðna til að  nota endurskinsmerki sem mest í skamm­deginu.

     Með óskum um gleðilega hátíð og farsælt nýtt ár. Þökkum árið sem er að líða.

 

Starfsfólk Mýrarhúsaskóla