Eldri fréttabréf
Fréttabréf Mýrarhúsaskóla, apríl 2004
FRÉTTABRÉF MÝRARHÚSASKÓLA - APRÍL 2004 Ritstjóri: Árni Árnason—Ábyrgðarm.: Regína Höskuldsdóttir Sími: 5959200— Netfang: myrarhus@seltjarnarnes.is Heimasíða: www.myrarhusaskoli.is
Arthúr Ólafsson 1940-2004 Í janúar sl. lést Arthúr Ólafsson fyrrum myndmenntakennari hér við skólann. Hann varð kennari við Mýrarhúsaskóla árið 1961, strax og hann lauk kennaranámi. Hér starfaði hann í nokkur ár og gat sér fljótt gott orð meðal kennara, nemenda og foreldra. Arthúr hafði brennandi áhuga á starfi sínu og átti auðvelt með að hrífa nemendur með sér. Hann notaði frekar óhefðbundnar aðferðir við kennslu sína en það sem einkenndi kennslu hans öðru fremur var hversu mjög honum var í mun að nemendur fengju notið sköpunargleði sinnar í námi. Þetta átti ekki aðeins við í myndmennt heldur gat það átt við í öllum námsgreinum. Þessu kynntist ég mjög vel þar sem hann var ýmist umsjónarkennari minn eða myndmenntakennari þegar ég var nemandi í Mýrarhúsaskóla á aldrinum tíu til þrettán ára. Arthúr var mjög trúaður á gildi listarinnar í menningu þjóða jafnt sem í lífi og starfi hverrar manneskju. Hann þreyttist aldrei á því að miðla sjónarmiðum sínum í þeim efnum og átti mjög auðvelt með að tengja þau ýmsum námsgreinum. Hann kynnti okkur börnunum helstu málara listasögunnar og sýndi okkur mörg þekkt verk úr heimslistinni og hvað nemendum viðvék átti hann létt með að sannfæra þá um hæfileika þeirra og sköpunarkraft. Hann innleiddi hér í skólann hvers kyns liti, blýanta, krítar, pensla og verkfæri til myndvinnslu í hin ólíkustu efni. Hann stóð fyrir því að á laugardögum voru í skólanum sérstakir tímar handa þeim sem vildu mála og teikna. Áhugasamir nemendur fengu svo að skreyta veggi skólans undir hans handleiðslu og má líta sum þessara verka á veggjum skólans enn í dag. Í þessum verkum voru það hugmyndir nemenda sjálfra sem réðu ferðinni í en Arthúr kom meira að sem ráðgefandi um tækni og útfærslu. Veggmyndirnar sem nemendur gerðu í skólanum í hans tíð spurðust víða og enn þann dag í dag er nafn Arthúrs vel þekkt í hópi íslenskra myndlistarkennara þótt margir áratugir séu frá því hann yfirgaf þennan vettvang. Mér er það sérstaklega minnisstætt hversu jákvæður og prúður hann var sem kennari. Hann bar virðingu fyrir nemendum sínum og kenndi með þeirri ró, glaðværð og festu sem þarf til þess að skapa góðan bekkjaranda, og tiltrú nemenda á viðfangsefnum sínum. Fyrir mér var Arthúr einstakur kennari og góð fyrirmynd öðrum kennurum. Sem kennari ber ég djúpa virðingu fyrir því starfi sem hann vann hér við skólann og er honum þakklátur fyrir það vegarnesti sem hann gaf mér ungum. Megi minningin um hann lifa björt meðal þeirra sem áttu því láni að fagna að njóta samveru með honum.
Árni Árnason Þemadagar Nýafstaðnir þemadagar fóru vel fram og urðu nemendum til tilbreytingar og gleði. Nemendur fóru vítt og breitt um vegi vatnsins, fjölluðu um vatnið í margvíslegum verkefnum í skólanum, vettvangsferðum og leikjum í sundlauginni. Veggir skólans eru prýddir fjölmörgum fallegum myndverkum sem nemendur sköpuðu á þessum dögum og hvetjum við foreldra til að ganga um skólann og kynna sér þau verk sem börnin hafa gert í tengslum við vatnið á þessum dögum. Önnur verk sem unnin voru, s.s. dagbækur og rituð verkefni ýmis konar eru ekki eins sýnileg að ekki sé minnst á ljóðin sem nemendur gerðu. Hér á eftir koma ljóð sem nemendur í fjórða bekk gerðu. Vatn, það besta í heimi er Allavega finnst það mér. Tjarnarvatn, vatn í sjó Neytum vatns, ég hef af því nóg. Stefanía Bergljót Stefánsdóttir 4 – C Vatnsberi, vatnsberi vatnið ber, Aftur og aftur í húsin fer. Tunnan geymir vatnið kalt Núna drekk ég það allt. Stefanía Hanna Pálsdóttir 4 – C Vatnið er kalt og gott Alltaf er það hollt Tært vatn drekk ég, já Nú vilja allir það fá.
Gunnar Birgisson 4 – C “Klimmið” Eins og áður hefur komið fram er Mýrarhúsaskóli þátttakandi í Evrópusamstarfsverkefni sem styrkt er af Comeniusaráætlun Evrópusambandsins. Verkefnið felst m.a. í því að stuðla að því að innleiða kennsluaðferð (CLIM) sem hentar í fjölmenningarlegu samfélagi. Yfirmarkmið kennsluaðferðarinnar er að nemendur verði fjölmenningarlega hæfir, þ.e. að þeir læri að meta fjölbreytileikann almennt í samfélaginu og að félagsþroski þeirra sé örvaður í gegnum samvirkt nám. Kennarar í 4., 5. og 6. bekkjum hafa undanfarið verið að vinna með fyrstu kennslueininguna sem heitir “Eigum við að skemmta okkur saman?” og gengur út á að nemendur undirbúa bekkjarskemmtun sem er undirbúin í viðkomandi bekk undir formerkjum kennsluaðferðarinnar. Til fróðleiks viljum við birta hér ummæli nokkurra nemenda í 4. bekk sem hafa glímt við verkefnið: Það var rosalega gaman að undirbúa þetta bekkjarkvöld því við fengum að gera allt sjálf, allir höfðu sitt hlutverk og allir tóku þátt í undirbúningnum. Bekkjarkvöldið okkar tókst frábærlega. Við unnum þetta verkefni á 7 vikum. Markmiðið var að undirbúa bekkjakvöld alveg ein og heppnaðist það mjög vel. Við lærðum mjög mikið á þessu og okkur fannst mjög gaman. Kennarinn skipti okkur í hópa og fengum við öll okkar hlutverk. Í hópunum gerðum við grímur, kort, matseðil og dans. Síðan sýndum við foreldrum okkar allt. Þegar við vorum í hópavinnunni gerðum við skreytingar, matseðil, grímur, dans og dagskrá. Af þessu lærðum við að vinna saman í hóp. Allir geta eitthvað, enginn getur allt. Sinfóníutónleikar Miðvikudaginn 31. mars fóru 5. og 6. bekkingar á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Háksólabíói undir stjórn Gunnsteins Ólafssonar. Á dagskrá voru hljómsveitarverk frá ýmsum tímabilum tónlistarsögunnar sem öll áttu það sameiginlegt að fjalla um drauga og kynjaverur. Danshópurinn Eldmóður kom fram og dansaði nornadans. Sögumaður var Jón Jósep Snæbjörnsson eða Jónsi, söngvari hljómsveitarinnar Í svörtum fötum. Hann söng og lagið Garún við undirleik hljómsveitarinnar. Var ekki annað á börnunum að heyra en að þeim hefði þótt þetta hin skemmtilegasta stund. Spilafaraldur Undanfarna daga hefur mjög borið á því að nemendur væru með Yugiuh eða Pokemon spil í skólanum. Hafa margir verið uppteknir af því að skipta á þessum spilum eða metast um þau sín í milli innan skólans sem í frímínútum. Iðulega hafa komið upp einhvers konar leiðindi vegna þessara spila og höfum við þar haft mestar áhyggjur af yngstu nemendunum. Á kennarafundi fyrr í vikunni var því ákveðið að banna áðurnefnd spil í skólanum. Úr skáklífinu
Þann 28. mars sl. fór fram Íslandsmót grunnskólasveita í skák í stúlknaflokki. Sigurvegari í ár var A-sveit Rimaskóla en í öðru sæti lenti nýstofnað lið frá Mýrarhúsaskóla og hlaut þar með silfurverðlaunin. Bronsverðlaunin hlaut B-sveit Rimaskóla. Óskum við stúlkunum okkar innilega til hamingju. Okkur hefur borist áskorun frá piltum úr 5. og 6. bekk sem eru í Hróknum. Þeir hafa mikinn áhuga á að við skólann verði til skáksveit. Þeir eru ekki nema þrír en þurfa þrjá í viðbót til að geta myndað sveitina auk varamanna sem nauðsynlegt er að hafa ef forföll verða á mótsdegi. Áhugasamir þurfa að hafa tekið þátt í móti og kunna að nota skákklukku. Þeir sem eru til í slaginn sendi tölvupóst til Jökuls í 6.-B (jokulljo@torg.is). Mótið verður í lok apríl. Páskafrí Páskafrí hefst í vikulokin. Kennsla hefst svo aftur skv. stundaskrá þriðjud. 13. apríl. Starfsfólk Mýrarhúsaskóla óskar nemendum og foreldrum gleðilegra páska, vonum við að allir eigi ánægjulegt páskaleyfi framundan.