Skólinn
Eldri fréttabréf

Fréttabréf Mýrarhúsaskóla, janúar 2005

Fréttabréf skólans janúar 2005 print E-mail

FRÉTTABRÉF MÝRARHÚSASKÓLA - JAN. 2005
Ritstjóri: Árni Árnason—Ábyrgðarm.: Marteinn Jóhannsson

    Sími: 595 9200— Netfang: myrarhus@seltjarnarnes.is

Heimasíða: www.myrarhusaskoli.is

 

 

Kæru foreldrar og forráðamenn

 

Starfsfólk Mýrarhúsaskóla sendir nemendum og for­eldrum þeirra bestu óskir um gleðilegt nýtt ár og þakkar samstarfið á liðnum árum. Vonum að nýja árið verði okkur öllum til góðs og að skólastarfið megi blómstra og dafna með góðri samvinnu heimilis og skóla.

 

Starfsdagur

Mánudaginn 24. janúar nk. er starfsdagur í skól­anum og fellur þá öll kennsla niður. Kennarar munu þá ljúka við úrvinnslu á náms- og stöðumati og undirbúa foreldraviðtöl sem verða daginn eftir, 25. janúar. Nemendur eiga að koma með foreldr­um í viðtölin. Nánari upplýsingar um viðtalstímana  sendir umsjónarkennari hverjum og einum. Reynt er að samræma tímasetningar fyrir þá foreldra sem eiga fleiri en eitt barn í skólanum.Viðtölin verða í heimastofu hvers bekkjar en sérgreina­kennarar verða til viðtals hver í sinni stofu en íþrótta­kennarar á skrifstofu skólans. Mæting foreldra í viðtalstímana hefur ávallt verið nær 100% og vonum við að svo verði áfram.

Á foreldradaginn biðjum við foreldra að taka þátt í viðhorfa könnun sem er samkvæmt áætlun einn liður í sjálfsmati skólans. Stýrihópur innan skólans hefur undirbúið um 60 spurningar á rafrænu formi sem við biðjum foreldra að svara þegar þeir hafi lokið viðtali við kennara. Svörunin fer fram í tölvuverum skólans og ætti ekki að taka meira en  5-10 mín. Annað tölvuverið er í kjallara, stofa 004, hitt er á annarri hæð, stofa 106.         

Vonumst við eftir góðri þátttöku svo niður­stöður verði sem áreiðanlegastar.

 

Ný stjórn foreldrafélags

Á aðalfundi foreldrafélagsins í desember sl. var kjörin ný stjórn félagsins og er stjórnin nú skipuð skv. eftirf.:

 

Hannes Richardson, gjaldkeri                            hannes@exis.is
Kristján Þór Árnason, meðstjórnandi               vgj@simnet.is
Sólveig Magnúsdóttir, meðstjórnandi              solly@vortex.is
Sjöfn Þórðardóttir, formaður                             larussjofn@simnet.is
Valgerður G. Johnsen, ritari                               vgj@simnet.is

 

Við þökkum fráfarandi stjórn gott samstarf um leið og við bjóðum þá nýju velkomna til starfa.Viljum við einnig þakka góða gjöf sem skólanum barst frá foreldrum s.l haust, einstaklega falleg leiktjöld fyrir leiksviðið í sal skólans.Tjöldin gögnuðust vel við allar sýningar á jólaskemmtunum auk þess sem þau dempa hljóð í salnum og gefa honum góðan svip. Stjórnendur hafa þegar fundað með nýjum for­manni og ritara nýrrar stjórnar og farið yfir þau verkefni sem framundan eru og skipst á skoðunum um skólastarfið.

 

Samræmd próf

Samræmd próf voru flutt vegna verkfalls af haust­önn yfir á vorönn og verða lögð fyrir sem hér segir:

Fimmtudaginn 3. febrúar kl. 09:30 - 12:00 í íslensku

föstudaginn 4. febrúar kl. 09:30 - 12:00

í stærðfræði

Nemendur eiga að vera í skólanum samkvæmt stundaskrá báða prófdagana.

Öskudagurinn

Rétt er að minna á að öskudagurinn er   starfsdagur í grunnskóla samkvæmt skóladagatali og eiga nemendur þá frí í skólanum. Foreldrafélagið stendur fyrir skemmtun í Félags­heimilinu á öskudaginn fyrir nemendur í 1.-6. bekk og verður dagskrá send út þegar nær dregur.

 

GSM símar

Foreldrar eru beðnir að sjá til þess að nemendur hafi ekki gsm-síma meðferðis í skólann. Símarnir geta valdið truflun í kennslustundum og eru því best geymdir heima.

 

Íþróttadagurinn

Samkvæmt skóladagatali skólans var fyrirhugaður íþróttadagur 22. febrúar nk. Ákveðið hefur verið að fella daginn niður að þessu sinni vegna þeirrar rösk­unar sem orðið hefur á skólastarfi þetta skóla­árið. Aftur á móti verður árlegt skólahlaup og sunddagur í maí.

 

Nýr skólaritari

Margrét Kristín Jónsdóttir skólaritari fór í árs  barn­eignarleyfi um síðustu áramót. Laufey Bjarna­dóttir leysir Margréti af í leyfinu og bjóðum við hana vel­komna til starfa.

 

Afmæli Mýrarhúsaskóla

Mýrarhúsaskóli á 130 ára á þessu ári. Ákveðið hefur verið að halda upp á afmælið í vor með þemavinnu og sýningu á vinnu nemenda í handavinnu, dansi, söng og íþróttum. Nánar verður greint frá afmælishaldinu með vorinu.

 

Mötuneytið 

Nú hefur mötuneytið  verið starfandi  í  sex mánuði og nokkur reynsla komin á. Undirtektir hafa verið mjög góðar og borða daglega um 370 börn í mötu­neytinu. Virðast þau flest ánægð með matinn. Á foreldradaginn verður heitt á könnunni í mat­salnum og er foreldrum boðið að skoða aðstöðuna og ræða við matráðinn. Einnig viljum við hvetja foreldra til að skoða matseðilinn sem er á heima­síðu skólans og ræða hann við börn sín. Sum börn eru ekki nógu dugleg að borða þann mat sem er í boði og þá sérstaklega grænmeti. Við köllum því eftir sam­vinnu við foreldra við að stuðla að jákvæðu við­horfi barnanna til þess að borða hollan mat. Við hvetjum svo foreldra til að líta við á virkum dögum og sjá hvernig þetta gengur fyrir sig.

     Bestu kveðjur og óskir um áframhaldandi gott samstarf.

Jóhannes Már, matreiðslumeistari

 

c

Að lokum hvetjum við enn og aftur börn og full­orðna til að nota endurskinsmerki sem mest í skamm­deginu.

Starfsfólk Mýrarhúsaskóla