Skólinn
Eldri fréttabréf

Fréttabréf Mýrarhúsaskóla, mars 2005

FRÉTTABRÉF MÝRARHÚSASKÓLA - MARS 2005
Ritstjóri: Árni Árnason—Ábyrgðarm.: Marteinn Jóhannsson

Sími: 595 9200— Netfang: myrarhus@seltjarnarnes.is

Heimasíða: www.myrarhusaskoli.is

Kæru foreldrar og forráðamenn!

 

Á foreldradegi, þriðjudaginn 25. janúar sl. var mjög góð mæting í viðtöl hjá kennurum. Þann sama dag var viðhorfakönnun lögð fyrir foreldra barna í Grunnskóla Seltjarnarness. Á starfsdegi, miðvikudaginn 9. febrúar, var sambærileg könnun lögð fyrir starfsfólk skólans. Við þökkum foreldr­um fyrir góða þátttöku. Niðurstöður þessara kannana liggja nú fyrir og er hægt að skoða þær á heimasíðum skólanna.

 

Bifreiðastæði starfsmanna

Vegna slysahættu viljum við beina þeim tilmælum til foreldra barna í Mýrarhúsaskóla að þeir noti ekki bílastæði starfsfólks til að hleypa börnum sínum úr bílunum eða leggi í stæðin á morgnana þegar þeir fylgja börnum sínum inn í skólann. Undanfarin ár hefur þetta skapað vandræði og slysahættu á morgnana, þar sem örtröð verður þegar starfsfólk, börn, foreldrar og bílar eru á þessu þrönga stæði. Við bendum á að mun heppilegra gæti verið að hleypa börnunum út á  horni Skólabrautar, beint inn á skólalóðina, eða nota hringakstur við Ræktina. Einnig má benda á að stæðin við kirkjuna eru alltaf laus á morgnana.

 

Tónmenntavefurinn

Nýlega gerðust Tónlistarskóli Seltjarnarness og Mýrarhúsaskóli áskrifendur af Tónmenntavefnum. Tónmenntavefurinn er alhliða tónlistarkennslu­svæði á internetinu. Vefurinn er ætlaður tónlistarskólum, leik-, grunn- og framhaldsskólum. Á þessu vefsvæði geta nemendur stundað sjálfsnám, en einnig geta þeir unnið verkefni undir handleiðslu kennara. Á vefnum er að finna lesefni um tónskáld ásamt mjög fullkomnum hljóðdæmum.

Nemendur eru hvattir til að kynna sér vefinn á slóðinni:

            tonmennt.is

Notendanafn er: seltjorn

Lykilorð: seltonmennt

Vefurinn er í sífelldri endurnýjun og bætist inn á hann jafnt og þétt. Góða skemmtun! 

 

Bæjarlistamaður í heimsókn

Föstudaginn 11.03. kom Auður Hafsteinsdóttir fiðluleikari og bæjarlistamaður Seltjarnarness í heimsókn í skólann. Með í förinni voru Geirþrúður Ása Guðjónsdóttir, fiðluleikari og fyrrverandi nemandi skólans og börn Auðar, Hafsteinn Atli og Anna Katrín sem bæði eru nemendur í skólanum.

Nemendur mættu  i salinn í þremur hópum og kynnti Auður sig fyrir þeim sem bæjarlistamann fræddi þau um fiðlu, fiðluleik og tónlist. Auður, Geirþrúður og Anna léku allar á fiðlu fyrir nem­endur og Hafsteinn á selló.

Það er skemmst frá að segja að nemendur hlustuðu með mikilli athygli og höfðu greinilega mjög gaman af heimsókninni.

Um leið og Auði er þökkuð heimsóknin óskum við starfsmenn skólans henni til hamingju með heiðurinn.

 

Afmæli

Mýrarhúsaskóli á 130 ára afmæli á þessu ári. Haldið verður upp á afmælið með ýmsum hætti á árinu. Daginn fyrir skólaslit fimmtudaginn 8. júní verður sýning á handavinnu og myndmenntavinnu nemenda að auki verða til sýnis gamlar myndir úr skólastarfinu. Sama dag verða danssýningar og íþróttasýning í íþróttahúsi, auk tónlistaratriða og leikrita í sal skólans. Nánar verður sagt frá þessari hátíð þegar nær dregur.

 

Könnun á líðan nemenda

Kannanir á líðan nemenda í 3.-6. bekk voru lagðar fyrir sl. þriðjudag. Úrvinnsla úr þessum könnunum stendur nú yfir og komi eitthvað fram í þeim sem þörf er á að skoða nánar þá verður það gert. Kristín Sverrisdóttir námsráðgjafi hefur umsjón með þessum könnunum og úrvinnslu þeirra.

 

Starfsmannabreytingar

Garðar Ingvarsson, kerfisstjórinn okkar í Grunn­skóla Seltjarnarness, hætti störfum í seinustu viku. Starfsfólk Mýrarhúsaskóla óskar honum vel­farnaðar í nýju starfi og eru honum jafnframt þökkuð vel unnin störf hér í skólanum. Unnið er að endurskipulagningu á allri þjónustu við skólana í tölvumálum með það að leiðarljósi að auka hagkvæmni og skilvirkni.

Íþróttakennarinn, Mínerva Alfreðsdóttir, kom fyrir skömmu aftur til starfa að loknu barneigna­leyfi. Hún tekur að fullu við kennslu af Björgvini Finnssyni að loknu páskaleyfi. Bjóðum við Mínervu velkomna um leið og við þökkum Björgvini fyrir vel unnin störf og óskum honum velfarnaðar í nýju starfi sem íþróttafulltrúi Gróttu.

 

Samræmd próf í 4. bekk

Samræmd próf í 4. bekk fyrir árið 2004 fóru fram 3. og 4. febrúar 2005. Niðurstöður eru komnar og

erum við mjög ánægð með árangurinn. Meðal­einkun skólans í stærðfræði er 7,4 og í íslensku 7,3. Meðaleinkunn skólans er yfir meðaltali allra ein­stakra landshluta en landsmeðaltalið í stærðfræði er 6,9 og í íslensku 6,8.

 

Páskaleyfi
Páskaleyfi hefst að loknum skóladegi föstudaginn 18. mars. Kennsla hefst aftur skv. stundaskrá miðvikudaginn 30. mars. Við vonumst til þess að allir njóti leyfisins og að nemendur og starfsfólk komi endurnærð í skólann aftur að leyfi loknu.

Óskum nemendum og aðstandendum gleðilegra páska.

 

Starfsfólk Mýrarhúsaskóla