Fréttabréf Mýrarhúsaskóla, maí 2005
FRÉTTABRÉF MÝRARHÚSASKÓLA - MAÍ 2005 Sími: 595 9200 Netfang: myrarhus@seltjarnarnes.is Heimasíða: www.myrarhusaskoli.is
Kæru foreldrar og forráðamenn
Árlegt skólahlaup UMSK fer fram á Kópavogsvelli föstudaginn 27. maí. Nemendur skólans hafa oft áður tekið þátt í hlaupinu og borið sigur úr býtum s.l. þrjú ár. Íþróttakennarar hafa haft samband við þá nemendur sem taka þátt í hlaupinu í ár og verða það um 120 börn í 4.-6. bekk. Rúta fer frá skólanum að kennslu lokinni um kl 14:15 og verður komið til baka að skólanum að hlaupi loknu um kl 16:30 Gott væri að nemendur sem hlaupa komi klæddir íþróttafötum eða léttum fötum og góðum skófatnaði í skólann þennan dag svo þau þurfi ekki að fara í búningsklefa fyrir hlaupið.
Höfuðhjálmar Kiwanisfélagar komu færandi hendi s.l. þriðjudag og færðu öllum 1. bekkingum reiðhjólahjálm að gjöf. Rétt er að benda foreldrum 1. bekkinga á að stilla þarf nýju hjálmana fyrir hvern og einn. Áður höfðu hjúkrunarfræðingur og kennarar frætt nemendur um það öryggi sem hjálmurinn veitir. Viljum við eindregið hvetja foreldra til að fylgjast með því að öll börn noti hjálm þegar þau hjóla og minnum á að samkvæmt ábendingum lögreglu og umferðarráðs er ekki æskilegt að börn yngri en 10 ára hjóli í umferðinni.
Fjársöfnun Í aprí sl. gengu 5. bekkingar í hús á Seltjarnarnesi og söfnuðu peningum fyrir ABC hjálparstarf, börn hjálpa börnum. Söfnunin gekk vel og söfnuðust kr 160,000. Söfnunarféð rennur til styrktar munaðar- og heimilislausum börnum á Indlandi.
Skil á bókum Foreldrar eru beðnir að minna börn sín á að skila í skólann kennslubókum í eigu skólans sem fyrst. Eins eru þeir sem eiga eftir að skila bókum á skólasafn minntir á að gera það hið bráðasta. Best væri að skila hvoru tveggja á bókasafn skólans.
Vordagar Dagana 3., 6., 7. og 8. júní verður hefðbundið skólastarf brotið upp með vettvangsferðum, útilífskennslu, trjágróðursetningu, fuglaskoðun, sýningum og afmælishaldi. Riðlast þá hefðbundin stundaskrá nemenda sérstaklega ef farið er í lengri ferðir. Standi ferðirnar fram yfir hádegi fá þeir nemendur sem eru í mataráskrift nestispakka frá mötuneytinu með sér í ferðina. Nemendur þurfa að taka með sér nesti fyrir morgunfrímínútur alla daga nema 9. júní en þá verða nemendur aðeins eina stund í skólanum. Seinasti dagur sem matur er frá mötuneyti er þriðjudagur 7. júní en 8. júní eru pylsur í boði foreldrafélagsins.
Afmælis- og vorhátíð Miðvikudaginn 8. júní verður afmælis og vorhátíð í tilefni af 130 ára afmæli Mýrarhúsaskóla. Hátíðin hefst með danssýningu í íþróttahúsinu kl. 08:30. Íþróttasýning verður í eldri salnum kl 09:30. Skemmtun yngri nemenda í 1.-3. bekk verður í samkomusalnum kl 10:30. Skemmtun eldri nemenda 4.-6. bekk verður í samkomusalnum kl 11:30. Sýning á handavinnu og myndlist nemenda ásamt gömlum og nýjum ljósmyndum og kvikmyndum úr skólastarfinu. Sýningin verður opnuð kl 09:00 í skólanum og verður hún opin til föstudags kvölds. Þeir nemendur sem eiga muni eða myndir á sýningunni mega vitja þeirra á mánudeginum 13. júní milli kl 09:00 og 12:00. Foreldrafélagið kemur fyrir leiktækjum á skólalóðinni og býður öllum nemendum, foreldrum og gestum upp á pylsur úti á lóð frá kl 11:00. Skólanefnd býður uppá köku og drykk í matsal starfsmanna frá kl 11:30. Vonumst við til að sem flestir foreldrar komi á sýningarnar og sjái hluta af glæsilegum afrakstri vetrarins.
Skólalok fimmtudaginn 9. júní Skólastjóri og kennarar kveðja nemendur og einkunnir afhentar sem hér segir:
Nemendur í 1. og 2. bekk mæta í samkomusalinn kl 10:00. Nemendur í 3., 4.og 5. bekk mæta í samkomusalinn kl:11:00. Nemendur 6. bekkja mæta kl 13:00.
Allir foreldrar velkomnir en foreldrar 6. bekkinga sérstaklega hvattir til að mæta.
Skóladagatal Skóladagatal skólaársins 2005-2006 er að finna á heimasíðu skólans. Við útfærslu á dagatalinu hefur verið haft samráð við leikskólana, Tónlistarskólann, foreldraráð grunnskólans og síðast en ekki síst var tekið mið af könnun sem lögð var fyrir foreldra og starfsfólk skólans þegar tímasetning vetrarleyfis var ákveðin.
Skólabyrjun í ágúst Skólinn verður settur aftur að loknu sumarleyfi mánudaginn 22.ágúst, nánar auglýst síðar á heimasíðu skólans og í dagblöðum. a Að lokum óskum við foreldrum og nemendum gleðilegs sumars og þökkum gott samstarf á skólaárinu sem er að líða. Starfsfólk Mýrarhúsaskóla
|
||