Skólinn
Eldri fréttabréf

Fréttabréf Mýrarhúsaskóla í okt. 2005

Seltjarnarnes 27.10.2005

 

Ágætu foreldrar !

 

 

Sundkennsla

Sundlaug  Seltjarnarness verður lokuð frá og með 1. nóvember nk. vegna breytinga eins og áður hefur verið tilkynnt.  Sundkennsla fellur því öll niður frá þeim tíma þar til sundlaugin verður opnuð aftur þann 1. apríl 2006.

Umsjónarkennarar í 1. – 3. bekk taka  við kennslu  í þeim kennslustundum. 

Nemendur í 4. – 6. bekk sem voru í sundi fara nú í tölvukennslu ásamt bekkjarfélögum sínum í nýju, stórglæsilegu tölvuveri.

Nemendur í 1. – 3. bekk sem fengu  sundkennslu í öðrum íþróttatímanum  fara aftur í sinn íþróttatíma samkvæmt stundaskrá.

 

Klæðnaður nemenda

Að gefnu tilefni viljum við beina þeim tilmælum til foreldra að  gæta þess að börnin  komi  vel klædd í skólann svo  þau geti notið þess að vera úti í frímínútum og leikið sér.

 

Tölvuver

Nýtt og stórgæsilegt tölvuver hefur verið tekið í notkun í stofu 108 í Mýrarhúsaskóla. Þar eru 23 nýjar tölvur með flatskjá, auk skjávarpa. Nýja tölvuverið er viðbót við minna tölvuver skólans þar sem eru 14 tölvur og ritþjálfastofu, þar sem hægt er að vinna með 24 börn samtímis í ritþjálfum.

Mikill fengur er að nýja stóra tölvuverinu sem rúmar heila bekki, hægt er t.d að vinna þar  gagnvirk verkefni í íslensku, stærðfræði og fleiri greinum með allan bekkinn samtímis.

 

Vetrarleyfi

Vetrarleyfi verður í skólanum 31.okt., 1.og 2. nóvember. Skólaskjólið verður þó opið allan daginn fyrir þau börn sem þar eru og hafa skráð sig sérstaklega allan daginn.

 

Tónlist fyrir alla.

Fimmtudaginn 3. nóvember koma í heimsókn á skólatíma tónlistarmennirnir KK og Guðmundur Pétursson og fræða nemendur um tónlist á Íslandi fyrr á öldum.

Dagskráin heitir “Þýtur í stráum”, íslenski tónlistararfurinn. Öllum nemendum Mýrarhúsaskóla verður boðið í sal skólans til að fræðast og njóta.

 

Með góðri kveðju,

skólastjórnendur