Skólinn
Eldri fréttabréf

Fréttabréf Mýrarhúsaskóla desember 2005

Fréttabréf í desember 2005

Ágætu foreldrar!

 

Jólaundirbúningur

 

Óðum styttist í jól og að venju verður ýmislegt gert til tilbreytingar með nemendum seinustu dagana fyrir jólafrí.

Fimmtudaginn 8. desember verður bókakynning á vegum foreldrafélagsins á Bæjarbókasafninu kl. 17-18:00.  Þremur barnabókahöfundum verður boðið í heimsókn og þeir munu lesa úr bókum sínum fyrir börnin. Boðið verður uppá drykk, piparkökur og hlýlega jólastemningu.   

Dagana 15. og 16. desember heimsækja nemendur Tónlistarskólann og hlýða á árlegra jólatónleika nemenda.

Prestarnir í Seltjarnarneskirkju taka á móti nemendum í kirkjunni mánudaginn 19. desember. Þann dag verða líka litlu jólin í stofum hvers bekkjar fyrir sig og mega nemendur taka með sér smákökur og litla gosflösku í skólann þann dag.

Þriðjudaginn 20. des. verða jólaskemmtanir. Nemendur mæta prúðbúnir hver í sína stofu 15 mínútum fyrir neðangreindan tíma og fara svo í sal skólans með umsjónarkennara sínum. Að lokinni skemmtun fara nemendur aftur í stofurnar og síðan fljótlega heim. 

Jólaskemmtanirnar verða á eftirfarandi tímum og mæta nemendur einungis á sína skemmtun þennan dag:

 

Kl. 10:00 – 11:15                       6.C, 5.C, 4.C, 2.C, 1.A

Kl. 11:30 – 12:45                       6.B, 4.D, 3.A, 2.A,1.B

Kl. 13:00 – 14:15                       6.D, 5.B, 4.B, 3.C, 1.C

Kl. 14:30 – 15:45                       6.A, 5.A, 4.A, 3.B, 2.B

 

 

Námskeið um einstaklingsmiðað nám og kennsluhætti

 

Skólaskrifstofa Seltjarnarness og Grunnskóli Seltjarnarness fengu skólaþróunarstyrk úr Endurmenntunarsjóði grunnskóla til að halda námskeið fyrir alla kennara skólans. Námskeiðið hófst í ágúst 2005 og stendur til vors 2006.

 

Markmið námskeiðsins er m.a. að kennarar:

·         efli skilning sinn á hugmyndum um einstaklingsmiðað nám og fjölbreytta kennsluhætti

·         styrki kennslufræðilegan grunn og fagvitund sína um nám og kennslu

 

Námskeiðið skiptist í fyrirlestra, kynningar, lestur og verkefnagerð. Gert er ráð fyrir að kennarar prófi og þrói þær nýjungar sem kynntar verða. Í lok námskeiðsins, í júní, verða verkefnin kynnt á málstofu í skólanum.

 

 

 

 

Niðurstöður samræmdra prófa

 

Nemendur í 4. og 7. bekkjum Grunnskóla Seltjarnarness hafa nú fengið niðurstöður úr samræmdum prófum sem þeir tóku í október.

Árangur nemenda var góður eins og sjá má:

Meðaleinkunn í 4. bekk var 6,9 í stærðfræði og 7,0 í íslensku. Meðaleinkunn á landsvísu var 6,8 í stærðfræði og 6,9 í íslensku.

Meðaleinkunn í 7. bekk var 7.5 í stærðfræði og 7,8 í íslensku.

Meðaleinkunn í 7. bekk á landsvísu var 6,9 í stærðfræði og 7,3 í íslensku.

Þeir foreldrar sem það vilja, geta á vef Námsmatsstofnunar

http://namsmat .is, sótt um að fá að skoða úrlausnir barna sinna.

 

 

Annaskipti - Skólaskjól

 

Kennsla eftir jólafrí hefst miðvikudaginn 4. janúar skv. stundaskrá.

Annaskipti verða að þessu sinni mánudaginn 9. janúar.  Þá byrja nýir  nemendahópar í sérgreinum. Þessar breytingar verða útskýrðar fyrir nemendum í skólanum.

Skólaskjólið verður að venju lokað 20. desember vegna jólaskemmtana.

Opið verður 21., 22., 27., 28., 29. og 30. des.

Á nýju ári verður Skólaskjólið opnað mánudaginn 2. desember. Foreldrar þurfa að sækja um dvöl í skjólinu á nýrri önn.  Innritun hefur þegar farið fram. Hafi það farið fram hjá einhverjum er nauðsynlegt að hafa sem fyrst samband við forstöðumann Skólaskjóls, Rut Bjarnadóttur í síma 595-9200.

 

Fréttabréf og samskipti

 

Fréttabréfin frá skólanum eru nú færri en áður, í stað þeirra hefur verið valin sú leið að birta oftar fréttir á heimasíðunni af því sem efst er á baugi hverju sinni í skólanum, auk þess sem umsjónarkennarar senda fréttir hver frá sinni bekkjardeild í gegnum Mentor. Hvetjum við því foreldra til að fylgjast vel með heimsíðu skólans, upplýsingum á Mentor og tölvupósti frá skólanum.

Við óskum foreldrafélögunum til hamingju með Foreldrahandbókina og hvetjum alla foreldra til að kynna sér hana. Bókin er góður leiðarvísir um starfsemi foreldraráðs og foreldrafélaganna og um samskipti milli heimila og skóla.

Að lokum þökkum við öllum foreldrum fyrir þann mikla stuðning sem þeir sína skólanum á margan hátt t.d. með því að taka þátt í námsefniskynningum, foreldrafundum, bekkjarkvöldum, vettvangsferðum, kynningu nemenda á vinnu sinni o.fl. Ennfremur þökkum stjórnum foreldrafélags og foreldraráðs góðan stuðning við skólastarfið og ágæta samvinnu.

 

Við sendum ykkur öllum bestu ósk um gleðilega jólahátíð og farsæld á nýju ári. Megi gleði og helgi jólanna verða okkur öllum leiðarljós á nýju ári.

 

Skólastjórnendur.