Skólinn
Eldri fréttabréf

Fréttabréf Mýrarhúsaskóla í janúar 2006

                                                         Grunnskóla Seltjarnarness

                                                            Mýrarhúsaskóla 26.1.06

 

Fréttabréf janúar

 

Starfsfólk Mýrarhúsaskóla sendir nemendum og for­eldrum þeirra bestu óskir um gleðilegt nýtt ár og þakkar samstarfið á liðnum árum. Við vonum að nýja árið verði okkur öllum til góðs og að skólastarfið megi blómstra og dafna með góðri samvinnu heimila og skóla

 

Starfsdagur og foreldradagur

Mánudaginn 30. janúar nk. er starfsdagur í skól­anum og fellur þá öll kennsla niður. Kennarar munu þá ljúka við úrvinnslu á náms- og stöðumati nemenda og undirbúa foreldraviðtöl sem verða daginn eftir, þriðjudaginn 31. janúar. Nemendur eiga að koma með foreldr­um í viðtölin.

Umsjónarkennari sendir upplýsingar um viðtalstíma  heim með nemendum. Reynt er að samræma tímasetningar fyrir þá foreldra sem eiga fleiri en eitt barn í skólanum.Viðtölin verða í heimastofu hvers bekkjar en sérgreina­kennarar verða til viðtals hver í sinni stofu en íþrótta­kennarar á skrifstofu skólans. Mæting foreldra í viðtalstímana hefur ávallt verið nær 100% og vonum við að svo verði áfram.

Við hlökkum til að sjá ykkur!

 

Samskipti og upplýsingar

Nú er komin nokkur reynsla á notkun forritsins “Mentor” í Grunnskóla Seltjarnarness.  Kennarar hafa birt heimavinnuáætlanir nemenda til að auðvelda foreldrum að halda utan um nám barna sinna.  Auk þess hafa foreldrar aðgang að dagbók og ástundun  barna sinna þannig að komi eitthvað upp á í skólanum geta foreldrar í flestum tilfellum fengið þær upplýsingar á Netinu.

Þegar þið, foreldrar góðir, komið í viðtal til umsjónarkennara langar okkur að biðja ykkur um að svara nokkrum spurningum til að gefa okkur hugmynd um það hvernig þetta fyrirkomulag hefur nýst ykkur til þessa. Spurningablaðið verður í litlum kössum framan við hverja stofu og gott væri að skilja það eftir útfyllt hjá umsjónarkennaranum eða í kassa framan við stofuna.

                                                                                                    

Malavisöfnunin

Nemendur okkar stóðu sig með prýði og foreldrar og aðrir ættingjar keyptu fallegar jólamyndir og jólakort. Nokkrir nemendur tæmdu sparibauka sína og komu með innihald þeirra í söfnunina. Hjá okkur söfnuðust kr.  230.000 og hefur söfnunarféð verið afhent Þróunarsamvinnustofnun Íslands sem kemur því á leiðarenda.

Við þökkum öllum sem lögðu sitt að mörkum í Malavisöfnuninni sem fram fór fyrir jólin.

 

 

 

Skráning fjarvista

Þegar nemendur eru fjarverandi vegna veikinda er áríðandi  að tilkynna það daglega til ritara með tölvupósti eða símtali.

 

 

Snjókast

Að gefnu tilefni viljum við vekja athygli foreldra og nemenda á því að snjókast er aðeins leyfilegt á fótboltavelli skólans . Bannað er að kasta snjóboltum að og frá skólanum. Við biðjum við foreldra að ræða þessa reglu við nemendur og einnig þá hættu sem getur fylgt því að kasta hörðum snjóboltum.

Þeir sem ekki vilja taka þátt í snjókasti skulu forðast þetta svæði því ef menn eru þar eru þeir sjálfkrafa þátttakendur.

 

Heimsókn bæjarstjóra

Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri, hélt fund með starfsfólki skólans s.l þriðjudag. Bæjarstjóri, sagði frá því helsta sem er á döfinni í málefnum bæjarins og svaraði spurningum starfsmanna.

Í máli hans kom m.a. fram að ljúka á við í sumar endurnýjun á allri efstu hæð skólans og sumar 2007 veður lokið við endurnýjun á kjallaranum öllum.

Á komandi sumri verður útbúinn upphitaður vel afgirtur gervigrasvöllur þar sem fótboltavöllur skólans er núna. Árið 2007 og 2008 verða öll húsgögn nemenda og búnaður í kennslustofum endurnýjaður.

 

 

Bestu kveðjur,

skólastjórnendur.