Skólinn
Eldri fréttabréf

Fréttabréf Mýrarhúsaskóla des. 2006

Fréttabréf desember 2006

Ágætu foreldrar !

Jólaundirbúningur í Mýrarhúsaskóla

 

Óðum styttist í jól og að venju verður ýmislegt gert til tilbreytingar með nemendum seinustu dagana fyrir jólafrí.

Dagana 14. og 15. desember heimsækja nemendur Tónlistarskólann og hlýða á árlega jólatónleika nemenda skólans.

Þriðjudaginn 19. desember taka prestarnir okkar á móti nemendum í Seltjarnarneskirkju.  Sama dag verða litlu jólin í stofum hvers bekkjar og mega nemendur taka með sér smákökur og litla gosflösku í skólann þann dag.

Miðvikudaginn 20. desember verða jólaskemmtanir í skólanum.  Nemendur mæta prúðbúnir hver í sína stofu 15 mínútum fyrir neðangreindan tíma og fara úr stofunni í sal skólans með umsjónarkennara sínum.  Að skemmtun lokinni fara nemendur aftur í stofurnar og síðan fljótlega heim.

Jólaskemmtanirnar verða á eftirfarandi tímum og mæta nemendur einungis á sína skemmtun þennan dag :

Kl. 10:00 – 11:15             1.A, 2.C, 3.B, 4.A, 5.B, 6.A

Kl. 11:30 – 12:45             1.B, 2.A, 3.C, 4.B, 5.C, 6.B

Kl. 13:00 – 14:15             1.C, 2.B, 3.A, 4.C, 5.A, 5.D, 6.C

 

Frímínútnagæsla í Mýró

Fyrir u.þ.b. hálfum mánuði var gerður samningur við 6. bekkinga sem felur það í sér að þeir taka að sér til skiptis að hvetja yngri nemendur til þátttöku í leikjum og hafa eftirlit og aðstoða þá á vellinum eftir þörfum.

Samtals eru sex  6. bekkingar í gæslunni hverju sinni klæddir gulum vestum og eru saman tveir og tveir.  Fyrir gæsluna í eina viku í senn  fá þeir að launum að vera inni tvennar frímínútur vikuna á eftir, spila borðtennis, tefla eða spila á spil.  Tilraunin var kynnt fyrir foreldrum 6. bekkinga, starfsfólki skólans og nemendum.  Íþróttakennarar skólans rifjuðu upp með nemendum leiki sem þeir geta leikið með yngri skólafélögum.  Flestir 6. bekkingarnir axla ábyrgðina í fullri alvöru og sýnist okkur að þeim takist vel upp með að liðsinna og leika við yngstu skólasytkini sín.  Fari fram sem horfir munum við halda áfram til vors á svipuðum nótum, en þó breyta og bæta eftir reynslu og góðum ábendingum.

Menningar- og listviðburðir

            Ýmislegt hefur á dagana drifið í menningar- og listviðburðum í   Mýrarhúsaskóla nú í haust.  Hér á eftir er yfirlit um helstu viðburðina

·        Þjóðminjasafn Íslands bauð nemendum 1., 3. og 5. bekkja í heimsókn í nóvember.  Börnin fengu fræðslu um lífið í gamla daga og um var að ræða sérstakt viðfangsefni  fyrir hvern árgang:  ”Fyrrum átti ég falleg gull” fyrir 1. bekki, ”Tíminn og skórnir” fyrir 3. bekki og ”Í spor landnámsmanna” fyrir 5. bekki.  Auk þess gafst 1. bekkjum kostur á að heimsækja Árbæjarsafn nú í byrjun desember og skoða þar árlega sýningu safnsins um hvernig jólin voru haldin í gamla daga.  Þessar heimsóknir tókust mjög vel.  Var bæði fræðandi og skemmtilegt fyrir börnin að kynnast menningararfi okkar, skoða fortíðina og upplifa lífið áður fyrr og hvaða siðir eru enn við lýði og hvað hefur breyst.

·        Tónlist fyrir alla (TFA) er verkefni þar sem skipulagðar eru heimsóknir í grunnskóla landsins með tónlistarviðburð af e-u tagi.  Í nóvember kom Ólafur Elíasson píanóleikari og hélt tónleika fyrir börnin okkar í Seltjarnarneskirkju.  Hann spjallaði við börnin og sagði þeim frá starfi sínu auk þess sem börnin fengu að hlusta á nokkur af stórfenglegustu píanóverkum sem samin hafa verið.  Píanóleikurinn var stórglæsilegur og má með sanni segja að það er ekki á hverjum degi sem tækifæri gefst til að upplifa og hlusta á svo stórbrotinn tónlistarflutning.

·        Þrymskviða og Iðunnareplin er nýtt leikrit sem sýnt var fyrir 2. og 3. bekki í sal skólans í lok nóvember.  Þetta leikrit tengist námsefni barnanna.  Eggert Kaaber leikari, kom á vegum Stoppleikhópsins og lék hann einleik.  Hann fór á kostum og náði vel til barnanna og þau virtust skemmta sér konunglega.  Börnin voru líka vel undirbúin og þekktu efnið vel.  Einn nemandi sagðist eftir á ”bara aldrei hafa séð eins skemmtilegt leikrit” og var leikarinn að vonum glaður með lofið.

·        Þjóðleikhúsið v/Hverfisgötu bauð nemendum 5. bekkja að koma í heimsókn í október.  Þar var afskaplega vel tekið á móti börnunum okkar og þeim sýnt allt hátt og lágt.  Komu þau uppnumin til baka og fannst mjög merkilegt að uppgötva hversu stórt leikhúsið var og hve fjölbreytt starfsemi fer þar fram.

·        Dagur íslenskrar tungu var haldinn 16. nóvember.  Þennan dag er venja að börnin vinni sérstök verkefni með kennara sínum tengd menningu og móðurmálinu.

·        Lögreglan kom í árlega heimsókn til 3.bekkinga í nóvember.  Börnin fengu m.a. heilmikla fræðslu um umferðarreglur og hvernig eigi að haga sér í umferðinni auk þess sem brýnt var fyrir börnunum að nota endurskinsmerki nú í skammdeginu.

·        Slökkviliðið kom einnig í árlega heimsókn í 3. bekki í tilefni Eldvarnarviku í lok nóvember.  Börnin voru frædd um eldvarnarmál og mikilvægi þess að fara varlega með kerti og eld nú þegar aðventan gengur í garð og jólahaldið byrjar.  Börnin fengu tækifæri til að skoða slökkviliðsbíl og sjúkrabíl sem þeim þótti nú aldeilis fengur í.

Skólaskjólið er lokað miðvikudaginn 20. desember vegna jólaskemmtana.

Skjólið er opið 21., 22., 27., 28. og 29. desember og 2. og 3. janúar.

 

Miðvikudaginn 3. janúar er skipulagsdagur í skólanum.  Starfsmenn nota daginn til að undirbúa vorönn.

Nemendur mæta aftur að loknu jólaleyfi fimmtudaginn 4. janúar samkvæmt stundatöflu.

Þrettándafagnaður

Árlegur þrettándafagnaður á vegum foreldrafélagsins verður 6.janúar kl 17:00

Mæting við aðalanddyri Mýrarhúsaskóla og gengið að brennunni. Nánar auglýst síðar á heimasíðunni Nesforeldrar.is

Bestu óskir um gleðilega jólahátíð og farsæld á nýju ári.  Þökkum foreldrum ánægjulegt samstarf á árinu sem er að líða.  Megi gleði og helgi jólanna verða okkur öllum leiðarljós á nýju ári.

Skólastjórnendur