Leiðbeiningar fyrir bekkjarfulltrúa

Leiðbeiningar fyrir  bekkjarfulltrúa

Leiðbeiningar fyrir bekkjarfulltrúa                                          Hlutverk bekkjarfulltrúa er að stuðla að auknu samstarfi foreldra, kennara og nemenda innan hvers bekkjar. Bekkjarfulltrúar eru kosnir af foreldrum eða tilnefndir í samráði við fyrri bekkjarfulltrúa. Æskilegt er að bekkjarfulltrúar séu minnst tveir fyrir hvern bekk og að einungis sé skipt um annan bekkjarfulltrúann í hvert sinn, þannig að þeir sitji tvö ár í senn.

• Hann kallar saman foreldra barnanna í bekknum eigi sjaldnar en tvisvar á ári, í fyrra skiptið í upphafi skólaárs, eigi síðar en í lok septembermánaðar.

 

Þá ræðir hann við foreldra um markmið og framkvæmd bekkjarstarfs á komandi vetri. Fyrir þann fund undirbýr hann kosningu eftirmanns síns, hafi hann ekki verið kosinn á síðasta fundi að vori.

 

Hlutverk bekkjarfulltrúa er að efla og styrkja samstarf foreldra/forráðamanna og nemenda auk þess að leitast við að treysta samband heimila og skóla innan hverrar bekkjardeildar.

 

• Bekkjarfulltrúar eru tengiliðir foreldra við umsjónarkennara og koma sjónarmiðum foreldra á framfæri þegar þess er þörf. Í samvinnu við kennara skipuleggja þeir í upphafi skólaárs almennan fund með foreldrum (á eftir námsefnisfundi) þar sem bekkjarstarf vetrarins er skipulagt. Bekkjarfulltrúi og umsjónarkennari leggja fyrir foreldrasáttmála Heimilis og skóla.

 

• Bekkjarfulltrúar fylgjast með því að foreldrastarfið sem ákveðið er í bekknum sé framkvæmt, t.d. bekkjarkvöld, umræðufundir og heimsóknir. Æskilegt er að skipta foreldrum bekkjarins í 2-5 manna hópa til að skipuleggja einstök verkefni vetrarins. Er þá eitt foreldri hópstjóri og tengiliður við bekkjarfulltrúa. Æskilegt er að eldri nemendur séu hafðir með í ráðum þegar bekkjarstarf vetrarins er skipulagt. Stefnt skal að því að halda a.m.k. þrjár uppákomur/skemmtanir á hverjum vetri.

 

• Bekkjarfulltrúar ræða við umsjónarkennara um skólastarfið og gang mála í bekknum og miðla upplýsingum til annarra foreldra t.d. á fundum eða með dreifibréfum/ tölvupósti í samvinnu við umsjónarkennara.

 

• Bekkjarfulltrúar eru tengiliðir bekkjarins við foreldraráð og skólaráð og sitja í fulltrúaráði foreldrafélagsins sem fundar a.m.k. þrisvar á vetri.

 

• Bekkjarfulltrúar safna í bekkjarmöppu gögnum um það sem gert hefur verið í foreldrastarfi í bekknum til dæmis myndum og öðru sem gaman er að eiga sem og ýmsum öðrum gögnum, t.d. frá skólanum, foreldrafélaginu og skólayfirvöldum. Bera ábyrgð á að mappan fylgi bekknum og fari eftir útskrift nemenda á skólabókasafnið.

 

• Bekkjarfulltrúar reyna að hlusta eftir sjónarmiðum nemenda varðandi andann í bekknum, bekkjarstarfið og störf foreldra í bekknum.

 

• Bekkjarfulltrúar aðstoða kennara við að skipuleggja þátttöku foreldra í skólastarfinu eftir því sem við á, t.d. í tengslum við vettvangsferðir, starfskynningar og heimsóknir foreldra í bekkinn.

 

• Bekkjarfulltrúar kjósa eftirmenn sína að vori og tilkynna breytingu til stjórnar. Þeir miðla upplýsingum til nýrra bekkjarfulltrúa og afhenda bekkjarmöppu.

 

• Bekkjarfulltrúar aðstoða stjórn foreldrafélagsins við framkvæmd einstakra stærri viðburða s.s. jólaföndur og vorhátíð.

 

• Bekkjarfulltrúar í 7. – 10. bekk bera ábyrgð á að manna foreldrarölt þau kvöld sem bekknum er úthlutað. Æskilegt er að foreldrar skrái sig á röltvaktir vetrarins að hausti. Bekkjarfulltrúar sjá til þess að minna fólk tímanlega á röltvaktir t.d. með SMS.

 

• Bekkjarfulltrúar skulu gæta þess að hafa velferð nemenda, foreldra og kennara að leiðarljósi í bekkjarstarfinu og virða trúnað um persónulega hagi nemenda og foreldra.


 

 


  Foreldrar