Forvarnardagurinn
Miðvikudaginn 21. nóvember er Forvarnardagur hjá 9. bekk í öllum grunnskólum landsins. Forvarnardagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík.
Íslenskar rannsóknir hafa sýnt að þeir unglingar sem verja í það minnsta klukkustund á dag með fjölskyldum sínum, eru síður líklegir til að hefja neyslu fíkniefna. Að sama skapi sýna niðurstöður að mun ólíklegra sé að ungmenni sem stunda íþróttir og annað skipulagt æskulýðsstarf, falli fyrir fíkniefnum. Í þriðja lagi sýna rannsóknirnar fram á, að því lengur sem ungmenni bíða með að hefja áfengisneyslu, þeim mun ólíklegra er að þau neyti síðar fíkniefna.
Við í Grunnskóla Seltjarnarness fengum góða gesti í heimsókn frá íþróttafélaginu Gróttu, Seltjarnarneskirkju, skátunum og Selinu. Frá bæjarstjórn komu Jónmundur og Sigrún Edda formaður skólanefndar. Hver bekkur horfði á mynd og ræddi síðan um forvarnir og það hvernig við getum varið meiri tíma með fjölskyldum okkar. Verkefnið gekk vel og var almenn ánægja með daginn.