Sálfræðiþjónusta

Sálfræðiþjónusta Grunnskóla Seltjarnarness

Hvernig má nálgast skólasálfræðing?

Æskilegt er að foreldrar hafi samráð við umsjónarkennara þegar þeir hyggjast leita eftir sálfræðiaðstoð fyrir barn sitt. Ákvörðun um sálfræðiathugun er tekin í nemendaverndarráði skólans. Tengiliðir skólans við sálfræðing eru  Helga Kristín Gunnarsdóttir og Ólína Thoroddsen, aðstoðarskólastjórar. Óski foreldrar eftir því að hafa samband beint við sálfræðing án milligöngu skólans hafa þeir samband við Baldur Pálsson fræðslustjóra hjá Seltjarnarnesbæ.

Hlutverk skólasálfræðings

Hlutverk skólasálfræðings er að veita sálfræðilega ráðgjöf og stuðning til starfsfólks skólans varðandi einstaka nemendur og hópa sem og ráðgjöf til foreldra og nemenda. Sálfræðingur vinnur í samvinnu við skólann með nemendum með fötlun, geðræna-, námslega-, samskiptalega- og/eða hegðunarlega erfiðleika þar sem þessir erfiðleikar hafa áhrif á nám og aðlögun í skóla. Vandamálin geta komið fram á ýmsan hátt, t. d. sem námsörðugleikar, feimni, prófkvíði, stríðni, einelti, lágar einkunnir, leiði, skapvonska eða vímuefnaneysla.

Inngrip sálfræðings getur m.a. falið í sér athugun og mat á þroska, hegðun og líðan nemandans. Matið er gert samkvæmt niðurstöðum úr viðtölum, sálfræðilegum prófum, og atferlisathugunum. Sálfræðingur situr fundi nemendaverndarráðs og gerir tillögur til úrbóta og áætlanir um aðstoð við einstaka nemendur í samvinnu við fulltrúa í nemendaverndarráði, kennara og foreldra. Í einstaka tilfellum getur skammtímameðferð komið til greina.

Sálfræðingur er bundinn þagnarskyldu og má því alls engum segja frá því sem um er rætt í viðtali nema með leyfi viðkomandi. Ef ekki er unnt að nota umsaminn viðtalstíma er þess vænst að sálfræðingur sé látinn vita fyrirfram svo hægt sé að nota tímann fyrir aðra.


 

 

 Stoðþjónusta