Skólinn
Eldri fréttabréf

Fréttabréf Mýrarhúsaskóla, desember 2000

Fréttabréf skólans í desember 2000 print E-mail
Með þessu bréfi viljum við upplýsa ykkur um skólastarfið í jólamánuðinum.

Jólaundirbúningur

Hinn árlegi laufabrauðsdagur foreldrafélagsins markar gjarnan upphaf jólaundirbúnings í Mýrarhúsaskóla. Mikill fjöldi mætti hér laugardaginn 25. nóvember og þótti dagurinn takast vel.

Vikan 27. - 3.des. er árleg eldvarnarvika og fengu 3. bekkingar heimsókn frá slökkviliðinu. Í síðustu viku var eldvarnaræfing hér í skólanum, en það hyggjumst við framvegis gera árlega, í fyrstu viku desember.

Í desembermánuði leggjum við áherslu á kyrrð og rólegt yfirbragð til þess að sporna gegn þeim hraða og streitu sem oft vill fylgja undirbúningi jólanna. Við gerum samt ýmislegt til hátíðabrigða eins og að syngja jólalög á sal undir stjórn tónmenntakennara.
Af öðrum tónlistarviðburðum í desember má nefna að við fáum hingað í heimsókn góða listamenn, tríóið "Rússneskir virtúósar" sem munu leika fyrir nemendur 4., 5. og 6. bekkja.

Forskólatónleikar 6 ára nemenda verða í Mýrarhúsaskóla fimmtudaginn 7. desember kl. 18:00 og hvetjum við foreldra eindregið til þess að mæta.


Dagana 15. og 18. desember verða heimsóknir í Tónlistarskólann og þriðjudaginn 19. desember í Seltjarnarneskirkju.

Nú verða "litlu jól" og skemmtanir í sal felldar inn í venjulegan skóladag nemenda miðvikudaginn 20. desember, sem er síðasti skóladagur fyrir jól.
Þetta verðum við að gera til þess að fullnægja ákvæðinu um 170 skóladaga nemenda. Börnin mega að sjálfsögðu koma spariklædd þennan dag, en þau þurfa jafnframt að vera klædd þannig að þau geti farið út og viðrað sig í frímínútum.

Skóli hefst svo aftur að afloknu jólaleyfi fimmtudaginn 4. janúar 2001. Skipting hópa í sérgreinum verður frá og með 15. janúar 2001.

Þrettándabrenna foreldrafélagsins er áætluð 6. janúar kl. 17:00 - 19:00.

Dagur íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur í skólanum. Nemendur í 5. og 6. bekkjum fluttu dagskrá sem þau höfðu undirbúið um Jónas Hallgrímsson og verk hans. Verðlaun voru veitt í ritgerðasamkeppni en þau hlutu: Barði Theódórsson í 6. bekk og Guðrún Nielsen í 5. bekk. Fengu þau bókina Leikur á borði eftir Ragnheiði Gestsdóttur.
Í ljóðasamkeppni 4. bekkja var það Sólrún Guðjónsdóttir sem hlaut bókina Óðfluga eftir Þórarinn Eldjárn fyrir besta ljóðið.
Þá voru bekkjum veittar viðurkenningar fyrir lestrarspretti. Hver bekkur fékk viðurkenningarskjal sem verður hengt upp í kennslustofunni. Nemendur 3. bekkja æfðu framsögn og lásu ljóð eftir Þórarinn Eldjárn. Nemendur 1. bekkja sömdu ljóð sem birt eru á heimasíðu skólans ásamt verðlauna- ritgerðum og ljóðum nemenda í 4.- 6. bekk.

Niðurstöður samræmdra prófa

Niðurstöður úr samræmdum könnunarprófum liggja nú fyrir. Það gefur tilefni til að óska bæði foreldrum og nemendum til hamingju með góða frammistöðu. Normaldreifð einkunn skólans er 5.5 í íslensku og 5.3 í stærðfræði.
Til samanburðar má geta þess að í skólum í Reykjavík eru sömu einkunnir 5.2 og 5.0 Frekari upplýsingar um einkunnir er að finna á vefsíðu RUM og foreldrum er bent á að þar geta þeir séð prófin www.rum.is. Samkvæmt 45. grein grunnskólalaga hafa foreldrar-/forráðamenn rétt til að skoða úrlausnir barna sinna. Beiðni um slíkt þarf að berast skriflega til RUM eigi síðar en tveimur vikum eftir að nemandanum hefur borist vitnisburðurinn. Eyðublað er fáanlegt á heimasíðu RUM. ÞRÓUN INNRA STARFS SKÓLANS

Á þessu skólaári hefur verið tekin upp nýbreytni í tónmenntakennslu 6. bekkinga. Kennslustundir í tónmennt fara nú fram í tölvuveri, hálfur bekkur í senn. Í þeim tilgangi voru keypt hljómborð sem tengd eru við tölvur. Nemendur vinna með tónlistarforrit og semja eigin tónlist með aðstoð þess. Kennari þeirra er Guðbjörg Ragnarsdóttir og sótti hún námskeið í þessum fræðum í sumar og hefur hug á að þróa kennsluna enn frekar í þessa veru. Þó ekki sé komin löng reynsla er óhætt að segja að nemendur kunna vel að meta þessar breytingar.

Heimsóknir út fyrir skóla

Nemendur 5. bekkja heimsóttu Norræna húsið og fræddust um gang himintunglanna.
Nemendur 4. bekkja brugðu undir sig betri fætinum í byrjun mánaðar og fóru í Möguleikhúsið. Þar sáu þeir leikritið Lóma sem fjallar um tröllastelpu sem lendir í því að vera strítt í skóla. Efni leikritsins tengist námsefni bekkjarins í lífsleikni og þótti hið besta innlegg í umræðu nemendanna um það að vera öðruvísi.
Grandi hf. bauð í sína árlegu heimsókn þann 24.nóv. Nemendum 6. bekkja fóru að skoða fiskvinnsluna. Mjólkursamsalan bauð 6. bekkingum að kynnast starfsemi fyrirtækisins. Nemendur 6.B fóru í Húsdýragarðinn og notuðu þar eina morgunstund í umhirðu dýranna.
Aðrir bekkir eiga eftir að fara í slíka heimsókn.
Í desember fara allir 6. bekkir í Norræna húsið til að kynna sér jólahald á Norðurlöndum. Nemendur 1. bekkja fóru í heimsókn í leikskólann sinn. Þar var vel tekið á móti þeim og var þetta hin besta skemmtun.
Í desember munu 1. bekkingar heimsækja Árbæjarsafnið og kynnast jólahaldi í gamla daga. Þá hafa nemendur verið að æfa Þúsund alda ljóðin og ætla að flytja þau fyrir foreldra fimmtudaginn 7. desember Nú í svartasta skammdeginu viljum við minna enn og aftur á endurskinsmerkin og varkárni í umferðinni.

Með þessu bréfi vill starfsfólk skólans senda jólakveðjur inn á öll heimili.

Skólastjóri.