Skólinn
Eldri fréttabréf

Fréttabréf Mýrarhúsaskóla, janúar 2001

Fréttabréf skólans í janúar 2001 print E-mail

Ágætu foreldrar
Við sendum bestu nýárskveðjur inn á öll heimili nemenda. Við viljum líka leyfa okkur að vera bjartsýn á að kjarasamningar kennara takist án þess að röskun verði á skólastarfi.


Skólastarfið er komið aftur á fullan skrið og regla að komast á nemendur.
Nú standa yfir próf hjá eldri nemendum og verða allir foreldrar boðaðir í skólann í byrjun febrúar til þess að taka á móti vitnisburði barnanna.
Að þessu sinni verður ekki um sérstakan foreldradag að ræða, heldur verða foreldrar boðaðir ásamt börnum sínum til viðtals að afloknum skóladegi, nú um mánaðarmótin janúar / febrúar.

BREYTINGAR Á SKÓLA STARFI
Nú hefur ný skipting í hópa í sérgreinum tekið gildi og allir vonandi áttað sig á því. Eftir áramót fækkaði bekkjardeildum í 2. bekk um eina þannig að þar eru nú fjórar deildir eins og í öðrum árgöngum skólans. Sú nýbreytni í skólastarfinu verður tekin upp samhliða þessari breytingu að mynda fimmta námshóp með nemendum þvert á bekkjardeildir í 2. bekk. Verða það verkefnatengdir hópar sem verið er að móta. Í upphafi verður farið af stað með tvo námshópa í stærðfræði sem og í hreyfingu en síðar bætast fleiri við. Ólafur Finnbogason mun annast verkstjórn í þessum hópum ásamt viðkomandi kennurum.

SKÓLASÁLFRÆÐINGUR
Margrét Ólafsdóttir sálfræðingur er í námsleyfi og leysir Berglind Brynjólfsdóttir sálfræðingur hana af. Viðtalstími Berglindar fyrir foreldra er á föstudögum kl. 9:00 - 11:00 og geta foreldrar náð í hana á þessum tíma í síma 5959100.

 

NIÐURSTÖÐUR SAMRÆMDRA PRÓFA Þegar við greindum frá góðri frammistöðu 4. bekkinga í samræmdum prófum í síðasta fréttabréfi nefndum við ekki frábæran árangur nemendanna sem útskrifuðust héðan í vor og eru nú 7. bekkingar í Valhúsaskóla. Normal-dreifðar einkunnir þeirra eru 5.8 í stærðfræði og 5.9 í íslensku og skipa þau sér þar með í raðir hæstu nemenda á landinu.
Viljum við óska öllum hlutaðeigandi til hamingju með árangurinn.

ÞRÓUN INNRA STARFS
Á haustmánuðum vann starfshópur stjórnenda skólans að innleiðslu gæðastarfs undir stjórn Einars Áskelssonar frá Rekstur og ráðgjöf á Akureyri.
Hélt hann námskeið um hugmyndafræði gæðastarfs og kynnti ýmis verkfæri við mat á skólastarfi. Jafnframt var unnið með eitt tilraunaumbótaverkefni er laut að heimanámi tveggja elstu árganga skólans.
Niðurstaða hópsins varðandi sjálfsmat skólans var að matslíkanið Grunn-skólarýnir sem gefinn er út af Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri myndi henta best við innra mat á skólastarfinu. Því var Benedikt Sigurðarson frá RHA fenginn til þess að koma hér í desember og kynna matslíkanið fyrir kennurum.

Nemendum Mýrarhúsaskóla sem hafa átt erfitt uppdráttar í frímínútum hefur á þessu skólaári verið boðið upp á markvissa samskiptaþjálfun hjá sérkennsluteymi skólans. Hér er um áhugaverða spennandi nýjung að ræða og verður foreldrum þeirra nemenda sem taka þátt í þjálfuninni sent sérstakt bréf með nánari upplýsingum.

Áður hefur komið fram að skólinn er áskrifandi að stærðfræðivef H&T.
Þar eru eru gagnleg stærðfræðiverkefni og bætast við ný verkefni reglulega, einkum ætluð 5. - 7 bekk. Foreldrar eru hvattir til að fara með börnum sínum inn á vefinn og glíma við þessi verkefni. Hægt er að fara inn á vefinn í gegnum heimasíðuna okkar. Notandi : rasmus40 - Leyniorð: lju70gum Sömuleiðis viljum við benda foreldrum enn og aftur á heimasíðuna okkar sem ávallt er verið að uppfæra. Nú síðast var verið að setja inn allar bekkjarskrár, stundaskrár o.fl. athyglisvert. Við erum svo að vona að næsta fréttabréf getum við sent til ykkar rafrænt.

Með kveðjum starfsfólks. Skólastjóri

JÓLAHALD
Að þessu sinni voru "litlu jól" og skemmtanir í sal felldar inn í venjulegan skóladag nemenda. Þetta urðum við að gera til þess að fullnægja ákvæðinu um 170 skóladaga nemenda.
Verði kjarasamningarnir samþykktir með þeim kerfisbreytingum sem þar eru boðaðar mun fást aukið svigrúm í skólastarfið. Þannig er gert ráð fyrir viðbótardögum sem hægt verður að ráðstafa til slíkra hátíðahalda, ferða og til þess að hafa sérstaka foreldradaga ef okkur sýnist það henta betur.
Skemmtanirnar tókust einstaklega vel og voru með menningarlegu yfirbragði. Eldri nemendur sem höfðu kynnt sér jólahald í öðrum löndum fluttu valdar kynningar þar. Sem dæmi má nefna sungu þau jólasöngva á erlendum tungumálum og buðu upp á jólabakstur eftir erlendum jólauppskriftum. Heimsókn tríósins "Rússneskir virtúósar" sem lék fyrir nemendur 4., 5. og 6. bekkja féll í góðan jarðveg og forskólatónleikar 6 ára nemenda sömuleiðis sem og reyndar allt annað sem boðið var upp á í jólamánuðinum. Vorum við nokkuð ánægð með hve tókst að halda allri spennu í lágmarki, þó auðvitað sé þetta erfiður tími fyrir marga

GENGIÐ Í SKÓLANN
Í síðasta tölublaði Nesfrétta hvetur Inga Hersteinsdóttir, bæjarfulltrúi foreldra til þess að láta börn sín ganga í skólann og minnka þannig sjálf slysahættu af umferð. Við viljum taka undir þetta sjónarmið og vara fólk sérstaklega við aðkeyrslunni við Ísbjarnarhúsin.
Þar hafa aðstæður breyst og vill skapast þar hættuástand þegar bílar eru að snúa við innan um gangandi börn í myrkrinu. Að sjálfsögðu eiga öll börn að vera með endurskinsmerki.

 

MÁLÞING
Foreldraráð og foreldrafélög Mýrarhúsaskóla og Valhúsaskóla ásamt skólastjórnendum og skólanefnd Seltjarnarnaness munu gangast fyrir sameiginlegu málþingi um framtíðarsýn í skólamálum. Málþingið verður haldið í Félagsheimili Seltjarnarness þriðju-daginn 30. janúar 2001 og hefst kl. 20:00. Auk erinda frummælenda mun einhver þátttakandi í ritgerðarsamkeppni grunnskólanemenda um sama efni lesa ritgerð sína. Einnig verða sýndar myndir eftir yngri nem