Skólinn
Eldri fréttabréf

Fréttabréf Mýrarhúsaskóla, desember 2002

Fréttabréf skólans í desember 2002 print E-mail

Ágætu foreldrar!

Í síðustu viku fengum við góðan gest í heimsókn. Hrafn Jökulsson kom og færði öllum 3. bekkingum eintak af bókinni Skák og mát eftir Anatolij Karpov, auk þess sem skólasafnið fékk nokkur eintök.
Vonumst við til að bókin verði til að efla skákáhuga nemenda. Það er skákfélagið Hrókurinn sem stendur að þessari gjöf ásamt Eddu miðlun sem gefur bókina út. Takk fyrir okkur!

Þá fékk skólinn heimsókn frá Sögusvuntunni, leikhúsi Hallveigar Thorlaciusar. Nemendum var boðið upp á leikgerð af jólasögunni Jesúbarnið eftir Leó Tolstoj í flutningi Hallveigar, við hörpuleik Marion Herrera.
Var hér á ferð afar falleg sýning um gamla skósmiðinn Panov sem fær óvæntar heimsóknir á jóladag. Sýning sem nemendur í öllum bekkjum hrifust af.

Jólaundirbúningur er nú hafin í skólanum þótt mestur skólatími fram til þessa hafi farið í hefðbundið nám. Seinustu vikuna, þ.e. 16.-20. desember, gerum við okkur dagamun og brjótum upp starfið með föndri, söng, leikritum og heimsóknum.

Mánudaginn 16. des. og þriðjudaginn 17. fara allir nemendur skólans í heimsókn í Tónlistarskóla Seltjarnarness og hlusta á hljóðfæraleik jafnaldra sína.

Fimmtudaginn 19. des. fara svo allir nemendur til kirkju. Þann sama dag mega nemendur koma með í skólann gos (0,5 l ) og smákökur, þó ekki sælgæti.

Föstudagurinn 20. des. verða jólaskemmtanir í sal skólans frá kl.10:00 til 16:00. Nemendur fá heim með sér upplýsingar um það hvenær skemmtun hvers bekkjar er.
Ætlast er til að nemendur komi spariklæddir á jólaskemmtanir.
Foreldrum er að sjálfsögðu velkomið að koma og taka þátt í skemmtunum með okkur; væri sannarlega mikill stuðningur af foreldrum við dans í kringum jólatréð. Að jólaskemmtunum loknum eru nemendur komnir í jólaleyfi.

Kennsla hefst að nýju að leyfi loknu, mánudaginn 6. janúar 2003.

Foreldrakynningar á stefnu og straumum í stærðfræðinámi eru svo fyrirhugaðar í annarri og þriðju viku í janúar og verða kynningarnar auglýstar þegar nær dregur. Við þökkum foreldrum ánægjulegt samstarf á árinu og óskum Seltirningum öllum gleðilegra jóla, árs og friðar.

Starfsfólk Mýrarhúsaskóla

Í síðasta fréttabréfi birtum við ljóð eftir nemanda úr 6. bekk.

Okkur þykir við hæfi að birta að þessu sinni sögur eftir nemendur úr fimmta bekk.

Einu sinni var strákur sem hét Jón. Hann átti heima í Lindarhverfi í Kópavogi. Hann var í Lindaskóla og í 3 A. Í fjölskyldunni hans Jóns eru pabbinn, mamman, Jón og litla systir Jóns hún Eva. Eva var fimm ára og í leikskólanum Grænalind. Eva litla var þroskaheft. Í bekknum voru þrettán strákar og átta stelpur. Kennarinn þeirra hét Ingibjörg.

Ingibjörg var mjög góður kennari, t.d. tók hún mjög hart á því ef hún vissi að einhverjum væri strítt. Ingibjörg var dugleg að fara með krökkunum í leiki og hún hjálpaði líka þeim sem áttu erfitt með að læra.

Stelpurnar í bekknum voru mikið saman og engin var lögð í einelti. En það var ekki alveg eins með strákana því Jón var lagður í einelti. Jón nefnilega kom nýr í bekkinn í fyrra og þar að auki var Eva þroskaheft. Í gamla bekknum höfðu allir verið vinir en núna var Jón hafður útundan. Þannig að honum var strítt útaf Evu og stundum sögðu strákarnir: "Heyrðu ert þú kannski líka þroskaheftur?" eða "Er systir þín með tómat í höfðinu?" Jón var líka oft laminn úti í frímínútum og á leiðinni heim úr skólanum.

Einn daginn kom nýr strákur í bekkinn. Hann hét Víðir og allir vildu vera vinir hans. Hann tók þátt í að leggja Jón í einelti. Einn daginn bauð Jón Víði heim til sín. Hann sagði: "Ég er eiginlega að fara í gítar en eftir gítaræfingu þá get ég kannski komið heim til þín." En hann kom ekki.

En daginn eftir kom hann og ætlaði að biðjast afsökunar. Eva kom til dyra og þá allt í einu fattaði hann "Heyrðu til hvers að leggja Jón í einelti bara útaf henni, er það honum að kenna að hún sé þroskaheft?" Allt í einu kom Jón til dyra og spurði: "Hvað ertu að gera hér?" "Mig langaði til að biðja þig afsökunar ég átti ekki að koma svona fram við þig" sagði Víðir. "Komdu bara inn" sagði Jón.

Daginn eftir voru Víðir og Jón samferða í skólann. Og síðan í seinni frímínútunum spurðu strákarnir Víði, "ertu með í að stríða Jóni". Nei ekki er það honum að kenna þó að Eva sé þroskaheft og þar að auki er ekki ástæða til að stríða einhverjum þó að hann sé þroskaheftur. Þá föttuðu strákarnir að það þarf ekki að stríða honum. Þetta er ekki honum að kenna. Þeir spurðu þá Jón. "Getur þú nokkuð fyrirgefið okkur? Við vorum algjörir asnar að stríða þér. Þetta er alveg rétt hjá Víði. Þetta er ekki þér að kenna."

Smám saman fyrirgaf Jón þeim og Jón varð lang vinsælastur í bekknum.

Rán 5.-B

Vinátta

Hvað er vinátta? Vinátta er að vera góður vinur einhvers, að hugsa vel til hvors annars, sættast, eða einhver sem þú getur trúað hlutunum fyrir. Það er erfitt að hugsa sér heiminn án vináttu og ef enginn nennti að rétta öðrum hjálparhönd.

Því miður er það svo að til er slíkt fólk en sem betur fer eru margir tilbúnir að hjálpa þeim sem minna eiga eða þurfa á hjálp að halda. Það er ekki hægt að kaupa vináttu fyrir peninga nema tímabundið. Vinátta segir þann góða hug sem fólk ber til hvors annars. Hér á eftir er lítil saga um vináttu tveggja drengja.

Vinirnir Steven og Paul Dag einn voru tveir drengir í hjólatúr. Þeir áttu heima í New York í Ameríku. Annar þeirra hét Steven en hinn Paul Walker. Steven datt þegar þeir voru langt komnir. Hann grét rosalega. Paul hjálpaði honum upp en Steven gat ekki stigið í fótinn því hann datt svo illa á hann. Paul þurfti því að styðja við Steven og sagði við Steven að hann væri orðinn svangur, Steven sagði að hann væri líka orðinn mjög svangur. Sem betur fer höfðu þeir mikið nesti með sér, þeir settust niður og átu alveg þangað til að þeir urðu pakksaddir.

Þegar það fór að dimma sagði Paul: Foreldrar okkar hljóta að vera mjög hræddir um okkur. Já, svaraði Steven, þau hringja örugglega í lögregluna og hún leitar þá eflaust að okkur. Þeir sofnuðu að lokum undir tré. En um morguninn vöknuðu þeir og fengu sér aðeins af nestinu sínu. Þeir ákváðu síðan að ganga sína löngu leið en Steven batnaði ekkert í fætinum. Paul studdi hann ennþá. Það kom þeim á óvart hvað þeim fannst leiðin löng gangandi. Þeir urðu rosalega þreyttir í fótunum, sérstaklega Steven sem gekk aðeins á öðrum fæti. Allt í einu heyrðu þeir hljóð, það hljómaði eins og snákur. Allt í einu birtist risa snákur undan laufblöðunum sem lágu í hrúgu. Paul og Steven hrópuðu hástöfum: Hjálp, hjálp. Þeim leist ekki á blikuna, slangan hvæsti af reiði. Paul fann risa stein og sá slönguna vera að fara ráðast á Steven. Paul hljóp og hrópaði: Láttu Steven vera! Og grýtti steininum beint í hausinn á slöngunni. Steven þakkaði Paul fyrir að bjarga lífi sínu. Hún steindrapst, sagði Paul. Já, sagði Steven.

Loks komust þeir svo út úr skóginum. Svo fóru þeir heim til Steven. Steven var knúsaður og kysstur og það var hringt í foreldra Paul. Paul var þakkað fyrir að bjarga og styðja dyggilega vin sinn, Steven. Hann sýndi sanna vináttu. Steven fór síðan á spítala og komst að því að hann væri fótbrotinn.

Svona lýsir sönn vinátta sér til dæmis. Sumir hefðu verið eigingjarnir og skilið viðkomandi eftir einan.

Aron Freyr Lárusson 5.-B