Skólinn
Eldri fréttabréf

Fréttabréf Mýrarhúsaskóla, september 2002

Fréttabréf skólans í september 2002 print E-mail

Ágætu foreldrar! Skólastarf hefur farið vel af stað í haust og sendum við ykkur til gagns og gamans nokkra fréttapunkta.

Vettvangsferðir og útivera
Ágæt tækifæri hafa gefist til vettvangsferða og útiveru undanfarnar vikur. Hluti 4.bekkinga og 5. og 6. bekkingar hafa farið í Gróttu og fræðst þar um staðinn og gildi hans fyrir Seltjarnarnesið. Fóru bekkirnir ásamt kennurum sínum en fræðslan var í traustum höndum Hrafnhildar Sigurðardóttur umsjónarmanns fræðaseturs.
Enduðu ferðirnar með því að krakkarnir fóru ásamt kennara í litlum hópum upp í vitann.

Umferðarfræðsla með ýmsu sniði hefur verið hjá
1. - 3. bekkingum. Konur frá kvennadeild Slysavarnafélagsins á Seltjarnarnesi heimsóttu skólann og afhentu öllum nemendum endurskinsmerki.

Nemendur í 2. bekk fór í Ölfusrétt (urðu reyndar að koma heim klukkutíma fyrr en ella þar sem það hellirigndi).

Nemendur 6. bekkja fóru nýverið árlega ferð sína í Reykholt. Komið var á staðinn í blíðskaparveðri og eftir að hafa fengið hressingu var hópnum boðið til kirkju þar sem séra Geir Waage hélt snjallt erindi um Snorra Sturlusson og Sturlungaöldina.
Sú kynning sem krakkarnir fengu í þessari ferð í Reykholt kemur sem ágæt bakgrunnsfræðsla fyrir heimildaritgerð sem 6. bekkingar vinna í bókasafnstímum í vetur.

Í þessari viku ljúka 6. bekkingar ferðum í Húsdýragarðinn. Þar fá þeir tækifæri til að annast um dýrin auk þess sem þeir munu fræðast um ýmislegt í tengslum við íslensk húsdýr. Hefur allur skóladagur barnanna farið í þessa ferð.

Farsímar, hlaupahjól og línuskautar.
Að gefnu tilefni þykir rétt að minna á að farsímar, hlaupahjól og línuskautar eru bönnuð tæki hér í skólanum. Nokkur truflun hefur verið af þessu að undanförnu og eru foreldrar minntir á að gæta þess að börn þeirra fari ekki með neitt af þessu í skólann.

Foreldradagur
Starfsdagur kennara verður þann 15. okt. nk. og foreldradagur daginn eftir eða miðvikudaginn 16. okt. Á foreldradegi gefst foreldrum tækifæri til að ræða námið og frammistöðu nemenda við kennara skólans. Foreldrar verða boðaðir með börnum sínum til umsjónarkennara þegar nær dregur.

Skólaíþróttir hjá 1. - 3. bekk.
Nemendur í 1. - 3. bekk hafa verið í útileikfimi í september. Þeir hafa m.a verið að æfa sig fyrir skólahlaup Mýrarhússkóla sem er nú haldið í fyrsta sinn.
Í hlaupinu taka allir nemendur þátt og verða að hlaupa ákveðna lámarksvegalengd en geta þó valið að hlaupa lengra ef þau óska þess.
Allir sem ná að klára lágmarksvegalengdina fá viðurkenningarskjal.

Hlaupið fer fram í íþróttatíma og hlaupa nemendur á hlaupabraut malarvallar sem er 400m.
1. bekkur hleypur lágmark 2 hringi = 800m 2. bekkur hleypur lágmark 3 hringi = 1200m 3. bekkur hleypur lágmark 5 hringi = 2 km

Þeir sem hafa þegar lokið hlaupinu hafa allir staðið sig vel. Hafa nemendur verið að hlaupa allt upp í 15 hringi eða 6 km.

Nemendur hafa einnig verið að læra ýmsa hópleiki eins og, stórfiskaleik, krókódíll- krókódíll, eitur í flösku og skotbolta.

Leikvöllur við enda malarvallar hefur einnig notaður fyrir 1. bekkinga.

Í október munu nemendur byrja í innileikfimi og eiga þá allir að koma með leikfimiföt (bol og buxur) og innistrigaskó (ekki með svörtum botni).

Allir nemendur nema 1.bekkingar eiga að hafa með sér handklæði og fara í sturtu eftir leikfimitímana.

Skólahlaup UMSK
Árlegt skólahlaup UMSK fer fram á Kópavogsvelli, föstudaginn 4. október nk. og hefst kl. 15.00. Þennan dag verða liðin 80 ár frá því UMSK var stofnað árið 1922 og verður umgjörð hlaupsins sérlega glæsileg í tilefni af afmælinu.

Allir nemendur í 4.-10. bekk á sambandssvæði UMSK hafa rétt til þátttöku í hlaupinu.
Þátttakendur frá Mýrarhúsaskóla munu hlaupa í eftirfarandi flokkum drengja og stúlkna:
4. bekkur 400 metrar
5. bekkur 400 metrar
6. bekkur 800 metrar

Veittir verða verðlaunapeningar fyrir fyrsta, annað og þriðja sæti í hverjum aldursflokki drengja og stúlkna. Einnig munu allir sem taka þátt í hlaupinu fá viðurkenningarskjal.

Sá skóli sem kemur með hlutfallslega flesta keppendur fær bræðrabikarinn til vörslu í eitt ár. Er þess skemmst að minnast að árið 2001 var það Mýrarhúsaskóli sem vann bræðrabikarinn.

Þeir nemendur sem hafa hug á að skrá sig í hlaupið gera það hjá íþróttakennara. Væntanlegir keppendur fá svo miða með sér heim þar sem nánari upplýsingar um mótið koma fram.
Foreldrar eru velkomnir á skólahlaupið en þurfa þá að koma á eigin vegu

Boðgreiðslur
Með tilkomu samnings Seltjarnarnesbæjar við Visa og Europay á Íslandi geta foreldrar nú greitt m.a. gjöld fyrir skólamáltíðir, skólaskjól og heimanámsaðstoð með boðgreiðslum.

Við hvetjum foreldra til að nýta sér þessa þjónustu því með henni sparast mikil fyrirhöfn og ekki síður fjármunir.
Ef breytingar verða á þeim samningum sem foreldrar hafa gert við skólann þarf að tilkynna þær fyrir 10. hvers mánaðar og mun starfsfólk skólans sjá um þær eftir eðli samnings hverju sinni.

Skólafærni
Námskeið fyrir foreldra 6 ára barna var haldið tvö kvöld í ágústlok og byrjun september. Á námskeiðinu var skólastarfið kynnt og sú þjónusta sem skólinn veitir börnum og foreldrum þeirra. Fyrirlestrar voru um þroska barna, læsi og samskipti. Þátttaka var mjög góð á námskeiðinu og tóku foreldrar virkan þátt í umræðum. Foreldrafélagið bar hitann og þungan af veitingum. Formaður foreldrafélagsins, Erlendur Gíslason, stjórnaði seinna kvöldinu. Hér með er komið kærum þökkum til allra sem lögðu hönd á plóginn svo að skólafærninámskeiðið yrði að veruleika.

Skólahlaup Mýrarhússkóla Skólamethafi drengja í 3. bekk: Vilhjálmur Geir Hauksson 3B, 15 hringir = 6 km
Skólamethafi stúlkna í 3. bekk: Ingunn Ósk Erlendsdóttir 3A, hljóp 12 hringi = 4,4 km.

Skólamethafi drengja í 2. bekk: Vilhjálmur Gunnar Arthúrsson 2C, 13 hringir = 5,2 km
Skólamethafi stúlkna í 2. bekk: Emma Soffía Helgudóttir 2C, 7 hringir = 2,8 km

Skólamethafi drengja í 1. bekk: Arnar Þór Helgason 1C, 7 hringir = 2,8 km
Skólamethafi stúlkna í 1. bekk: Sylvía Guðrún Tómasdóttir 1C, 6 hringir = 2,4 km

Með kveðju, starfsfólk Mýrarhúsaskóla