Skólinn
Eldri fréttabréf

Fréttabréf Mýrarhúsaskóla, mars 2004

Fréttabréf skólans mars 2004 print E-mail


Fréttabréf

 

MÝRARHÚSASKÓLA  SELTJARNARNESI - MARS 2004

Ritstjóri: Árni Árnason  -  Ábyrgðarm.: Regína Höskuldsdóttir  -  Sími: 5959200
Netfang: myrarhus@seltjarnarnes.is  .  Heimasíða: www.myrarhusaskoli.is


Ágætu foreldrar

Þemadagar verða dagana 16.-18. mars. Á þemadögum verður kennslutilhögun með öðru sniði en venjulega. Hefðbundin kennsla víkur fyrir skapandi verkefnum af ýmsum toga. Fjallað er um vatnið á ýmsa vegu og tengist sú umfjöllun m.a. því að sl. ár var alþjóðlegt ár vatnsins. Umfjöllunin nær til flestra námsgreina með einhverjum hætti. Unnið verður með vatn á margvíslegan hátt. Fjallað verður um vatn og hreinlæti, heita vatnið, ferskvatn, hringrás vatnsins, sjó, líf í vatni og veður (snjór, rigning, ís). Önnur viðfangsefni má nefna s.s. tilraunir með vatn, dans og hreyfingu, handverk og sköpun. Nemendur halda dagbækur um þau verkefni sem gerð eru, semja ljóð og sögur og teikna myndir.

Allir bekkir fara í skemmti- og vettvangsferðir; 1. bekk­ir fara í sund, 2. bekkir á skauta, 3. bekkir í Laugardal (á skauta), 4. bekkir í Gvendarbrunna, 5. bekkir á Nesja­velli. 6. bekkir fara í kynnisferð í Skolpu, hreinsi- og dælustöð Reykjavíkur.

Margar bekkjardeildir skólans verða leystar upp og nýir hópar myndaðir með börnum úr bekkjum árgangs. Á þetta þó einkum við eldri bekkina. Krakkarnir verða þó yfirleitt stutta stund í heimastofu á hverjum degi, ýmist í upphafi dags eða við lok skóladags. Á föstudaginn er svo fyririrhuguð sýning á afrakstri vikunnar.
      Vonum við að þessi nýbreytni komi til með að skapa jákvæða tilbreytingu í skólastarfinu. En sveigjanleiki, aðlögunarhæfni og færni í félagslegum samskiptum eru meðal þeirra mikilvægu mannkosta sem við viljum hlúa að hjá nemendum okkar. Á allt þetta reynir þegar út í lífið er komið. Þar af leiðandi viljum við leggja áherslu á þessa þætti í skólastarfinu. Við að endurraða í bekki kynnast nemendur fleiri einstaklingum og getur slíkt skapað ný vináttutengsl og komið í veg fyrir klíkumyndanir. Einnig erum við sannfærð um að tilbreyting af þessu tagi geti skapað jákvæðara og uppbyggilegra námsumhverfi og betri anda í skólanum.

 

Ný heimasíða Mýrarhúsaskóla
Um nokkurt skeið hefur verið unnið að nýjum vef Mýrar­húsaskóla. Þá hefur nýtt merki skólans verið tekið í notkun og prýðir það nýju síðuna. Merkið er teiknað af Hjördísi Ólafsdóttur myndmenntakennara skólans. Mýrarhúsaskóli hefur haldið úti vefsíðu frá því í apríl 1998. Nú var tekið í notkun vefumsjónarkerfi sem auðveldar mjög alla vinnu við vefinn. Enn er verið að bæta efni inn á nýja vefinn, færa gamalt efni á milli og setja inn nýtt. Við höfum meðal annars sett inn umsóknareyðublað um skammtímaleyfi fyrir nemendur sem hægt er að prenta út og senda nemanda með í skólann. Það er fljótlegt í þessu kerfi að smella á “Póstur til skólans” og velja þar t.d. að tilkynna veikindi í stað þess að hringja. Þá erum við komin með  myndaalbúmið okkar í gott skipulag þar sem verið er að flokka og setja inn gamlar og nýjar myndir. Við hvetjum alla til að skoða vefinn og við tökum vel við öllum ábendingum um þennan nýja vef okkar.

Heimsóknir listamanna
Þann 20. febrúar fengum við í Mýró góða dansgesti í heimsókn. Fyrrverandi nemandi skólans, Jónatan Arnar Örlygsson og dansfélagi hans Hólmfríður Björns­dóttir komu og sýndu alla helstu Suður-Amerísku dans­ana, Rúmbu, Samba, Paso Doble, Cha Cha Cha og Jive. Heimsóknin vakti mikla og verðskuldaða hrifningu nemenda og ekki dró það úr aðdáun strákanna að vita að Jónatan æfir fótbolta með Gróttu.

Þá var yngri nemendum skólans boðið upp á tónlistar­dagskrána Tvær flautur og gítar. Guðrún S. Birgisdóttir og

Martial Nardeau flautuleikarar og Pétur Jónasson gítar­leikari fluttu nemendum í 1. - 4. bekk fjölbreytta tónlist sem sniðin er að áheyrendahópnum. Efnisskráin spannar helstu tímabil tónlistarsögunnar, frá evrópskri barokk­tónlist og spænskri gítartónlist, til íslenskrar nútíma­tónlistar og popptónlistar.  Jafnframt því að fræða börnin um tónlist leitast listamennirnir við að fá þau til liðs við sig og síðast en ekki síst, að skemmta þeim. Tóku börnin þessum listamönnum ákaflega vel.

Ný forrit á vefnum
Rétt þykir að benda foreldrum á ný forrit á vef Náms­gagna­stofnunar. Um að ræða nýtt vefefni í íslensku handa yngstu nemendunum, slóðin er

 http:/www.nams.is/krilla/index.htm

Einnig má nefna eyðufyllingaverkefni í stafsetningu á slóðinni www.nams.is/stafsetning/index.htm

Þá skal minnt á nýja viðbót við Geilsa, almenn brot, á slóðinni:
http://www.namsgagnastofnun.is/geisli/geisli.htm



Með kærri kveðju,

Starfsfólk Mýrarhúsaskóla