Skólinn
Eldri fréttabréf

Fréttabréf Grunnskóla Seltjarnarness í apríl 2006

Páskaleyfi

Páskaleyfi hefst að loknum skóladegi föstudaginn 7. apríl.

Kennsla hefst aftur skv. stundaskrá miðvikudaginn 19. apríl.

Við vonumst til þess að allir njóti leyfisins og komi endurnærðir í skólann aftur að leyfi loknu.

Möguleikhúsið í heimsókn

Föstudaginn 31. mars fengu nemendur úr 4. og 5. bekkjum að sjá hér í skólanum leiksýninguna Landið Vifra, sem er byggð á barnaljóðum Þórarins Eldjárns. Sýningin var í boði foreldrafélagsins.

Leikurum og leiksýningu var vel tekið og höfðu 5. bekkingar verið að kynna sér og vinna með ljóð Þórarins fyrir sýninguna.

 

Skólaárið 2006-2007

Undirbúningur fyrir næsta skólaár er nú í fullum gangi.

Skóladagatal næsta árs verður sett á heimasíðu skólans 11. apríl. Við frágang skóladagatalsins hefur nú sem fyrr verið haft samráð við foreldraráð leikskóla, Tónlistarskóla, kennara og skólanefnd.

Skólasetning verður 22. ágúst nk.

Nú er ljóst að fjórir af kennurum skólans verða í námsleyfi næsta vetur, Kristín Kristinsdóttir umsjónarkennari, Fjóla Höskuldsdóttir deildarstjóri yngsta stigs, Ólína Thoroddsen deildarstjóri miðstigs og Anna Birna Jóhannesdóttir, umsjónarkennari.

Framkvæmdir við endurnýjun á annarri hæð Mýrarhúsaskóla hefjast um leið og kennslu lýkur í vor. Verða gerðar sambærilegar endurbætur á húsnæði og lögnum og gerðar voru á fyrstu hæðinni s.l. sumar. Þá verður hafist handa við endurnýjun bókasafns Valhúsaskóla.

 

Upplestarmaraþon 10. bekkinga

Dagana 7. – 8. apríl  nk. munu unglingar í 10. bekk Valhúsaskóla standa fyrir upplestrarmaraþoni til styrktar ferðalagi eftir samræmdu prófin. Ferðalag þetta er farið á vegum Selsins, Valhúsaskóla og foreldrafélags Valhúsaskóla, og er það liður í því að unglingarnir geti      fagnað þessum áfanga á heilbrigðan og jákvæðan hátt. Farið verður af stað miðvikudaginn 10. maí, strax eftir að síðasta prófi lýkur (kl: 14:00). Til þess að sem flestir komist með í þessa ferð hafa unglingarnir ákveðið að efna til            upplestrarmaraþons og slá þar með tvær flugur í einu höggi , safna áheitum til styrktar ferðinni ásamt því að læra fyrir samræmd próf. Stefnt er að því að hópurinn læri samfleytt í heilan sólarhring en hópnum verður skipt niður á lærdómsvaktir. Við vonum það þið takið vel á móti unglingunum og sjáið ykkur fært að styrkja þau til þessarar ferðar.

 

Einstaklingsmiðað nám og kennsla

Fram hefur komið í fréttum frá skólanum að allir kennarar skólans hafa í vetur sótt endurmenntunar-námskeið hjá Meyvant Þórólfssyni, lektor í námskrárfræðum við Kennaraháskóla Íslands.

Þemað hefur verið einstaklingsmiðað nám. Það getur m.a. falið það í sér að bjóða nemendahópnum upp á mismunandi kennsluaðferðir og námsefni þar sem  hægt er að velja á milli. Mismunandi vinnufyrirkomulag er notað innan sama verkefnis, s.s. hópavinna þar sem bekkjum er blandað saman, paravinna, einstaklingsvinna o.m.fl. Kennarar hafa í tengslum við námskeiðið prófað margvíslegar kennsluaðferðir og unnið með nemendum sínum að ýmsum áhugaverðum verkefnum.

Foreldrum hefur verið boðið að koma í skólann og fylgjast með kynningum á mörgum verkunum. Mæting foreldra hefur verið mjög góð á yngri stigunum, allt upp í að foreldrar allra barna hafa komið!

Kennarar af öllum stigum og úr öllum árgöngum hafa komið saman og kynnt verkefnin og kennsluaðferðirnar á sameiginlegum fundum. Athygli hefur vakið fjölbreytni verkefnanna gæði starfsins og metnaður og áhugi allra hlutaðeigandi við að gera tilraunir til að auðga námsumhverfi nemendanna.

Sótt hefur verið um framhald á verkefninu í endurmenntunarsjóð grunnskóla. Þar er sjónum beint að námsmati í einstaklingsmiðuðu námi.

 

Snertitöflur

Keypt hafa verið í skólann ný kennslutæki sem kallast snertitöflur

Snertitafla er tengd við tölvu og  skjávarpa og gerir hún kennaranum kleift að stjórna og vinna í tölvu með því að snerta yfirborð töflunnar með fingrinum.

 

Taflan og hugbúnaðurinn sem henni fylgir gera kennurum unnt að setja námsefni fram á nýstárlegan og skemmtilegan hátt þannig að nemendur  taka virkan þátt í kennslunni ekki einungis með því að tala, heldur einnig með því að vinna við töflurnar.

Snertitöflurnar eru mjög vinsælar meðal nemenda. Mikill keppni er um að fá að koma upp á töflu og leysa verkefni.

Mikill kostur er meðal annars að allt sem hefur verið skrifað á töfluna er hægt að geyma í tölvu og nota aftur t.d. í upprifjun. Einnig er hægt að prenta út efni sem hefur verið skrifað á töflu. Þessi nýja tækni býður upp á fjölbreytta möguleika og eru kennarar byrjaðir að þjálfa sig í notkun snertitöflunnar í kennslu.

Stefnt er að því að kaupa smám saman fleiri snertitöflur í skólann og þegar endurbætur verða gerðar á efstu hæð Mýrarhúsaskóla verður sérstaklega hugað að því. Skjávarpar eru nú komnir  í margar stofur og verður þeim fjölgað samhliða endurbótum á kennslustofum í sumar.

 

Iðjuþjálfi ráðinn

Gerður hefur verið samningur við Erlu Björk Sveinbjörnsdóttur iðjuþjálfa um störf í Mýrarhúsaskóla. Hún kemur reglulega á fimmtudagsmorgnum. Erla vinnur undir stjórn deildarstjóra sérkennslu, Eddu Óskarsdóttur, m.a. að því að meta þörf nemenda fyrir iðjuþjálfun eftir ábendingum frá kennurum og athuga hvort húsgögn í skólastofum séu við hæfi eftir beiðni kennara. Erla hefur einnig farið yfir sömu hluti með nemendum í 7. bekk.

Við erum mjög ánægð með að hafa fengið Erlu til samstarfs við okkur og teljum  þjónustu iðjuþjálfa vera góða viðbót við þá sérfræðiþjónustu sem skólinn hefur upp á að bjóða.

 

Kennaranemar

Í Mýrarhúsaskóla eru nú 12 fyrsta árs kennaranemar í æfingakennslu í hálfan mánuð. Æfingakennslan er undir leiðsögn frá kennurum Kennaraháskólans og eftirliti umsjónarkennara skólans. Segja má að þetta sé orðinn reglulegur þáttur í skólastarfinu því á hverju ári koma hópar kennaranema í æfingakennslu. Áhuginn á skólanum er mikill og okkur þykir mikils virði að fá þessa nemendur í heimsókn.

Þá eru 2 danskir kennaranemar í æfingakennslu í Valhúsaskóla um þessar mundir. Þær eru frá N. Zahles  kennaraskólanum í Kaupmannahöfn. Þær heita Marie Hedebo Schoman og Kristine Haffgaard Petersen. Þær eru mjög ánægðar með dvölina hér bæði skólann og nemendurna.

 

Óskum nemendum og aðstandendum gleðilegra páska, skólastjórnendur.