Skólinn
Eldri fréttabréf

Fréttabréf Grunnskóla Seltjarnarness í maí 2006

Vordagar

Hefðbundið skólastarf verður brotið upp með ýmsu móti dagana 2. og 6.-8. júní í 1.-6. bekk og dagana 6.-8. júní í 7.-10. bekk. Farið verður í vettvangsferðir, trjáplöntun, fuglaskoðun o.fl. Þá fer 10. bekkur í Þórsmörk 6. júní.

Hefðbundin stundaskrá nemenda getur breyst, séstaklega ef farið er í lengri ferðir.

Standi ferðirnar fram yfir hádegi fá þeir nemendur sem eru í mataráskrift í Mýrarhúsaskóla nestispakka frá mötu-neytinu með sér í ferðina. Nemendur þurfa að taka með sér nesti fyrir morgunfrímínútur þessa daga.  Seinasti dagur sem matur er afgreiddur frá mötuneyti Mýrarhúsaskóla er miðvikudagurinn 7. júní. Aðrir verða að taka með sér nesti í ferðirnar. Nánari dagskrá verður send út til foreldra og birt á heimasíðu skólans.

 

Vorhátíð 8. júní

 

MÝRARHÚSASKÓLI (1.-6. b.)

Vorhátíðin verður haldin í sal skólans og á skólalóðinni. Hún er að venju haldin í samvinnu við foreldrafélag skólans.

Foreldrafélagið kemur fyrir leiktækjum á skólalóðinni og býður öllum nemendum, foreldrum og gestum upp á pylsur úti á lóð frá kl 11:00

  Skemmtun eldri nemenda, 4.- 6. bekkir,  verður í salnum kl 09:30 og skemmtun yngri nemenda, 1.- 3. bekkir, kl. 10:30.

Við hvetjum foreldra til að mæta með börnum sínum á sýningarnar.

Hátíðinni lýkur um kl 13:00 og er nemendum þá frjálst að fara heim, en

1.-3. bekkingar sem ekki fara heim með foreldrum sínum á þeim tíma verða í skólanum til kl 13:30. Skólaskjólið verður að sjálfsögðu opið eins og venjulega.

VALHÚSASKÓLI (7.-10.b.)

Vordögum í  7.-9. bekk (og hjá þeim í 10. bekk sem ekki fara í Þórsmörk) lýkur með skrúðgöngu um Nesið sem endar við skólann með sumarhátíð og grillveislu þar sem skólaárið er kvatt og væntanlegu sumarleyfi fagnað.

10. bekkingar sem hafa dvalið í Þórsmörk koma heim seinni hluta dags.

 

Styrkir til þróunarstarfs

 

Skólaskrifstofa Seltjarnarness og Grunnskóli Seltjarnarness hlutu styrk úr Endur-menntunarsjóði grunnskóla hjá menntamálaráðuneyti að upphæð kr. 313.600,- til verkefnisins: Fjölbreyttir kennsluhættir og námsmat. Um er að ræða endurmenntunar-námskeið fyrir kennara skólans næsta vetur þar sem áherslan verður lögð á námsmat, einkum í einstaklingsmiðuðu námi og kennslu. Búið er að leggja drög að því, í samvinnu við Rannsóknarstofnun KHÍ, að hafa námskeiðið með svipuðu sniði og námskeiðið um einstaklingsmiðað nám sem haldið var í vetur.

Grunnskóli Seltjarnarness hlaut einnig styrk að upphæð kr. 704 þús.  til að vinna að þróunarverkefninu: Lýðræði í skólastarfi. Styrkurinn er annars vegar veittur úr Þróunarsjóði menntamálaráðuneytis og hins vegar úr VONarsjóði Kennarasambands Íslands. Þróunar-verkefnið verður að mestu unnið af tveimur kennurum í Valhúsaskóla en í samstarfi við kennara í Mýrarhúsaskóla. Lögð verður áhersla á að nemendur tileinki sér það gildismat sem felst í hugtakinu lýðræði og geri sér um leið grein fyrir þeirri ábyrgð, réttindum og skyldum sem því fylgja. Verkefnið tengist beint og óbeint þátttöku nemenda í Skólaþinginu sem haldið var í október sl. og aðkomu þeirra að nýsamþykktri skólastefnu fyrir Seltjarnarnes.

Þá fengu kennarar skólans styrki úr Þróunarsjóði grunnskóla hjá Seltjarnarnesbæ. Verkefnin eru annars vegar lokaritgerð til meistaraprófs í mannauðsstjórnun við HÍ, en verkefnið fjallar um innleiðingu einstaklingsmiðaðra kennsluhátta og hefur beina skírskotun til endurmenntunar-stefnu Grunnskóla Seltjarnarness. Hitt verkefnið lýtur að sérkennslu, en tilgangurinn er að gera þjónustuna skilvirkari með gerð verkferla og auka upplýsingastreymi innan skólans í þágu nemenda.

Þróunarsjóður grunnskóla hjá Seltjarnarnesbæ hefur til ráðstöfunar kr. 400.000 ár hvert.

Þess má einnig geta að einn deildarstjóri verður í sérkennslu fyrir Grunnskóla Seltjarnarness á næsta skólaári.

 

Skólaslitadagur 9. júní

 

Kl. 09:00.    1. bekkingar mæta í salinn, þar sem skólastjóri kveður og þakkar fyrir veturinn. Nemendur fara síðan með sínum umsjónarkennara í stofurnar og fá afhentan vitnisburð. Foreldrar eru hvattir til að mæta með börnum sínum.

 

Kl. 09:30.    Nemendur í 2. og 3. bekk  mæta í salinn þar sem skólastjóri kveður og þakkar fyrir veturinn. Þeir fara síðan með sínum umsjónarkennara í stofurnar og fá afhentan vitnisburð. Foreldrar eru hvattir til að mæta með börnum sínum.

 

Kl. 10:00.    Nemendur í 4. og 5. bekk  mæta í sal þar sem skólastjóri kveður  og þakkar fyrir veturinn. Þeir fara síðan hver með sínum umsjónarkennara í stofurnar og fá afhentan vitnisburð.  Foreldrar eru hvattir til að mæta með börnum sínum.

 

Kl. 11:00.    Skólaslit. Nemendur 6. bekkja mæta í salinn og fá afhentar einkunnir. Foreldrar 6. bekkinga eru sérstaklega hvattir til að mæta.

 

Kl. 15:00.    Skólaslit. 7.-9. bekkur á Miðgarði.

 

Kl. 17:00.    Skólaslit. 10. bekkur í    
                           Seltjarnarneskirkju.

 

Malavísöfnun 9. júní

 

Eins og flestir vita þá á Mýrarhúsaskóli vinaskóla í Malví í Afríku. Samstarf skólanna hófst árið 1999. Nemendur og kennarar Namazizi skólans hafa sent okkur gjafir, ljósmyndir og verkefni sem nemendur hafa unnið. Skólastjóri skólans heimsótti okkur haustið 2004. Við höfum sent skóladót, verkefni frá nemendum, bækur og námsgögn á nýbyggt bókasafn skólans.
    Namazizi skólinn er sá fyrsti af mörgum grunnskólum sem Þróunarsamvinnustofnun Íslands byggir við Apaflóa í Malaví. Undir styrkri stjórn Gumbala skólastjóra er hann fyrirmynd hinna skólanna á svæðinu. Við erum stolt af þessu samstarfi okkar.
    Undanfarin 2 ár höfum við notað skemmtun við skólalok sem fjáröflun, því við viljum halda áfram að efla bókasafn skólans. Því förum við fram á að nemendur greiði 100 kr. aðgangseyri og foreldrar 300 kr. inn á skemmtunina sem verður 8.júní n.k.
    Allir fá þó aðgang að skemmtiatriðunum þótt þeir gleymi peningum heima.
     Peningarnir verða nýttir til að kaupa bækur og námsgögn á Amason.com sem eru þá send  beint til Malaví.

Með kveðju og von um góðar undirtektir.
Starfsfólk Mýrarhúsaskóla.

 

Skólasetning og skóladagatal 2006-2007

 

Skólinn verður settur aftur að loknu sumarleyfi þriðjudaginn 22. ágúst nk. Tímasetning verður auglýst síðar á heimasíðu skólans.
Skóladagatal næsta skólaárs 2006-2007 er að finna á heimasíðu skólans.
Skóladagatalið er unnið í samvinnu við leikskólana, Tónlistarskólann, foreldraráð Grunnskólans, kennara og fl.

 

Óskum nemendum og aðstandendum gleðilegs sumars og þökkum gott samstarf á skólaárinu sem er að líða.  
Skólastjórnendur.