Eineltisáætlun

Aðgerðaáætlun gegn einelti og ofbeldi


Tilkynningar um einelti og/eða ofbeldi má ávallt koma á framfæri með því að hafa samband við skólastjórnendur símleiðis eða með tölvupósti.


Aðgerðaáætlun gegn einelti og ofbeldi

 

Stefna í eineltismálum

Einelti og annað ofbeldi er ekki liðið í Grunnskóla Seltjarnarness. Skólayfirvöld, starfsfólk, nemendafélag og skólaráð vinna markvisst gegn einelti og öðru ofbeldi í skólanum. Leitast er við að fyrirbyggja einelti og ofbeldi með forvarnarstarfi í öllum árgöngum. Starfsfólki, nemendum og foreldrum ber að tilkynna grun eða vitneskju um einelti til eineltisteymis skólans sem ákveður viðbrögð hverju sinni. Eineltisteymi skólans skipa námsráðgjafar, deildarstjórar, aðstoðarskólastjórar og umsjónarkennarar eftir því hvern málið varðar. Skólinn okkar á að vera öruggur vinnustaður þar sem starfið mótast af virðingu og umhyggju.

 

Skilgreiningar á einelti og ofbeldi

Einelti er endurtekin áreitni eða ofbeldi, líkamlegt eða andlegt, sem stýrt er af einstaklingi eða hópi og beinist að einstaklingi sem ekki tekst að verja sig. Talað er um að einstaklingur sé lagður í einelti þegar honum líður illa vegna þess að hann verður fyrir:

 

  • stríðni
  • hótunum
  • útilokun
  • líkamlegu ofbeldi

 

 Einstakt ofbeldisatvik getur verið merki um einelti í hópnum.

 

Fyrirbyggjandi aðgerðir og viðbrögð við einelti

Nemendur

  • Allir nemendur skulu fræddir um stefnu skólans í eineltis og ofbeldismálum: Einelti og ofbeldi leyfist ekki.
  • Allt frá skólabyrjun skal markvisst kenna nemendum góð samskipti. Lögð er áhersla á að nemendur séu skólasystkini og eigi að koma vel fram hvert við annað og að ekki megi skilja út undan eða stríða.
  • Þegar ágreiningur kemur upp á milli nemenda er rétt að ræða málin, leita aðstoðar hjá fullorðnum og leita sátta.
  • Nemendur eru hvattir til að láta vita ef þeir eða aðrir verða fyrir einelti eða ofbeldi. Öllum á að geta liðið vel í skólanum og allir eiga að njóta virðingar sem einstaklingar. Gera þarf nemendum grein fyrir því að þeir séu að hjálpa til ef þeir segja frá því að einhverjum líði illa vegna eineltis eða annars ofbeldis.
  • Nemendur eru hvattir til að taka afstöðu gegn einelti og ofbeldi í verki með því að bregðast við til hjálpar og láta vita. Einnig er mikilvægt að gera nemendum grein fyrir því að það að skilja út undan og hundsa er jafnmikið einelti og að hæðast að eða berja.
  • Nemendafélagi skólans er ætlað virkt hlutverk í fræðslu- og forvarnarstarfi í samstarfi við skólastjórnendur og eineltisteymi.

Foreldrar

·         Allir foreldrar/forráðamenn fá upplýsingar um stefnu skólans í eineltis- og ofbeldismálum.

·         Á hverju hausti fá foreldrar sendan bækling um einelti með góðum ráðum til foreldra.

 

Foreldrar eru hvattir til:

·         að láta börn sín vita að þeir styðji stefnu skólans og vilji hvorki að þau séu lögð í einelti, leggi aðra í einelti, né séu áhorfendur að einelti eða ofbeldi,

·         að hafa samband við umsjónarkennara, námsráðgjafa eða skólastjóra ef þeir fá grun um einelti eða ofbeldi í skólanum og að leggja skólanum lið í eineltismálum,

·         að kenna börnum sínum að bera virðingu fyrir öðru fólki og hvetja þau til góðra samskipta við skólafélaga sína,

·         að hvetja börn sín til að láta vita ef þeim eða öðrum líður illa,

·         að vera tilbúnir til að hlusta á börn sín og veita þeim stuðning,

·         að hafa samband við umsjónarkennara, námsráðgjafa eða skólastjóra ef þeir fá grun um einelti eða ofbeldi í skólanum.

Starfsfólk

Starfsfólk þarf að vera tilbúið til að hlusta á nemendur og þeir verða að geta treyst því að þeir geti talað við starfsfólk í trúnaði og notið nafnleyndar. Trúnaður er í flestum tilfellum forsenda þess að nemendur láti vita af einelti og/eða ofbeldi. Þegar foreldrar eða nemendur snúa sér til námsráðgjafa, umsjónarkennara eða stjórnenda vegna eineltis- eða ofbeldismála er mikilvægt að ábendingar séu teknar alvarlega og þeim beint til eineltisteymis. Jafnframt sé lögð áhersla á samkennd nemenda og að þeir eigi að láta vita ef þeim eða öðrum líður illa. Unnið skal að því að nemendur geri sér grein fyrir þeim sáru afleiðingum sem meiðandi framkoma hefur og þeir hvattir til að setja sig í spor annarra.

·         Á undirbúningsdögum í ágúst ár hvert sér skólastjóri til þess að fram fari fræðsla og umræða um stefnu skólans í eineltis- og ofbeldismálum.

·         Við skólabyrjun skal fræðslunni  beint til nýrra starfsmanna, nemenda og foreldra. 

·         Allir starfsmenn eru hvattir til að vera vakandi fyrir því að einelti og ofbeldi geti komið upp í skólanum og séu tilbúnir til að bregðast strax við ef þeir verða vitni að slíku.

·         Umsjónarkennarar leggi áherslu á góðan bekkjaranda og brýni fyrir nemendum að einelti og ofbeldi leyfist ekki í skólanum.

 

Hvernig tekið er á einelti

Eineltismál eru mjög ólík innbyrðis. Eineltisteymi skólans verður að vega og meta hverju sinni hvaða leið er líklegust til árangurs og hverjir eru kallaðir til samstarfs. Nokkrar meginreglur eiga þó alltaf við:

 

Upplýsingaöflun

·         Eineltisteymið aflar upplýsinga um meint einelti hjá þeim aðilum er málið varðar.

 

Viðbrögð

·         Öryggi þolanda skal strax tryggt eins og kostur er og aðstæður krefjast.

·         Foreldrar/ forráðamenn þolanda og geranda skulu upplýstir um málið og leitað eftir aðkomu þeirra eftir því sem þörf krefur.

·         Allir aðilar koma sér saman um leið að lausn málsins.

 

 

Eftirfylgni

·         Málinu er fylgt eftir með reglulegum viðtölum við þolanda/þolendur og geranda/gerendur í allt að fjórar vikur

·         Ef ekki tekst að uppræta eineltið er málinu vísað til nemendaverndarráðs og viðeigandi gögn látin fylgja tilvísuninni. 

 

Hvernig tekið er á ofbeldi

Ofbeldismál, þar sem börn verða fyrir líkamlegum áverkum eða öðru ólöglegu athæfi í skólanum, skulu alltaf tilkynnt viðkomandi foreldrum. Jafnframt áskilur skólinn sér allan rétt til að grípa til viðeigandi aðgerða gagnvart gerendum. Skólinn mun einnig tilkynna þau mál er geta varðað við hegningarlög til viðkomandi yfirvalda, lögreglu og barnaverndarnefndar.  Sjá nánar í verklagsreglum vegna grunnskóla­nema með fjölþættan vanda.   

Skráning

Eineltisteymi sér um að skrá öll eineltis- og ofbeldismál, sem upp koma, í gagnagrunn skólans. Þar komi fram lýsing á því hvernig tekið var á málinu, hvernig það leystist og hverjir eiga að fylgja málinu eftir.

 

Ágreiningur um meðferð eineltis og ofbeldismála

Verði ágreiningur milli skólastjórnenda og forráðamanna barna um meðferð mála sem ekki tekst að leysa getur hvor aðili um sig vísað málinu til skólaskrifstofu

 

 

 

Endurskoðað vorið 2015Stoðþjónusta